Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 16:58:59 (2427)

2001-12-04 16:58:59# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. má hafa öll þau orð sem hann vill um geðslag mitt, og það er alveg hárrétt að það getur fokið í mig. Ég ætla ekkert að skammast mín fyrir það. Einu skal ég lofa hv. þm. Kristjáni Möller algjörlega upp á æru og trú: Þegar hann ræðst með útúrsnúningum og skætingi að Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði tek ég til varna. Það skal hv. þm. hafa algjörlega á hreinu. Á meðan ég er hér í því hlutverki sem ég er skal hv. þm. ekki búast við því að honum verði kápan úr því klæðinu að fara með ómerkilegum útúrsnúningum og skæklatogi af því tagi sem hann stundaði hér áðan, og hefur stundum áður reynt, gegn þeirri stjórnmálahreyfingu sem ég er í forsvari fyrir enda ætti ég þá að hætta og fara að gera eitthvað annað ef ég væri ekki maður til þess að reyna að bera eitthvert blak af henni.

Varðandi hinn almenna vanda sveitarfélaganna, þar á meðal Skagafjarðar, sveitarfélaga á Vestfjörðum sem og annars staðar á landinu, hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð verið í forustu fyrir þeim hér sem hafa verið að knýja á um aðgerðir til að leysa vanda þessara sveitarfélaga sem hluta af aðgerðum í byggðamálum, í félagslegu tilliti og á ýmsan hátt, vegna þess að það er ljóst að þetta er eitt af því hættulegasta sem núna steðjar að mörgum byggðarlögum landsbyggðarinnar, hversu bágstödd sveitarfélögin eru.

Áður en ég svara því hvernig aðstæður voru þegar Siglfirðingar seldu sína veitu á sínum tíma vil ég fá að fara yfir það og rifja upp hvernig aðstæður voru þá. Það man ég ekki hér. Það er ugglaust rétt hjá hv. þm. að ég beri pólitíska ábyrgð á að hafa fallist á þá heimild og þá skal ég að sjálfsögðu bera hana. Ég skal fara yfir það hvernig þau mál bar að en það þarf ég að gera áður en ég get tjáð mig um það hvort það sé sambærilegt eða hliðstætt við þá afarkosti sem sveitarfélög á Vestfjörðum voru látin sæta eða þá nauðungarkosti sem sveitarstjórnarmenn í Skagafirði hafa lýst yfir að þeir telji sig vera stadda í gagnvart sölunni þar.