Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:01:14 (2428)

2001-12-04 17:01:14# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:01]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins rifja upp þá stöðu sem var 1991 vegna þess að hv. þm. Steingrímur Sigfússon man það ekki. Staðan var sú að það var eitt sveitarfélag sem Siglufjörður hét sem var ansi skuldsett, líkt og í dag, árið 2001, er sveitarfélag í næsta nágrenni, sem er Skagafjörður, sem er líka ákaflega skuldsett. Bæði þessi sveitarfélög áttu eignir sem voru veitur. Siglufjörður átti þó aðeins meira vegna þess að hann átti líka orkuöflunarfyrirtæki eða Skeiðsfossvirkjun.

Það var ákvörðun allrar bæjarstjórnar Siglufjarðar að óska eftir því að Rarik keypti þessar eignir eins og það hefur verið ákvörðun meiri hluta sveitarstjórnar Skagafjarðar að óska eftir því að Rarik kaupi dreifikerfi Rafveitu Sauðárkróks til þess að grynnka á skuldum.

Þetta er aðeins nefnt, herra forseti, til upprifjunar fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þannig að hann geti reynt að svara því hér á eftir hver munurinn er núna eða þegar hann var ráðherra í ríkisstjórn 1991. Hann er ekki ráðherra nú, sem betur fer, heldur kominn undir svona hálfgerða hentifánasiglingu.