Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:35:29 (2437)

2001-12-04 17:35:29# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst að ef menn ræða um að gera hlutina með almennum hætti, eins og hv. þm. virtist láta liggja að hér áðan, þá þyrfti að vera hægt að hafa áhrif á raforkuverð á öllu orkuveitusvæði Rariks. Þannig væri kannski auðveldast að hafa áhrif á almennt orkuverð í landinu. Ég tel hins vegar að það sé ekki leiðin að skipta sér af einstökum svæðum með framlögum vegna einstakra byggðarlaga öðruvísi en að menn taki heildstætt á því um allt land. Ég sé ekki fyrir mér að það gerist á augabragði. Mér finnst að það vanti botninn í þessa hugmynd.

Án þess að bæta miklu við umræðuna í sambandi við lýsinguna, þá finnst mér það góð hugmynd að endurskoða lýsinguna á Alþingishúsið, minnugur þess sem einn gamall Skagamaður sagði þegar hann var að setja upp flúrsentperur og einhver spurði af hverju hann væri að þessu. Þá sagði hann: ,,Það þýðir ekkert að vera með þessar gömlu perur, þær skyggja bara hver á aðra.``