Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:36:54 (2438)

2001-12-04 17:36:54# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki betur heyrt en hv. þm. Jóhann Ársælsson væri að nálgast okkur Vinstri græna í okkar málflutningi. Við vorum einmitt að tala um það, öll mín ræða gekk út á það, að taka heildstætt á málunum. Við vitum báðir, bæði ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson, að t.d. ástæðan fyrir því að raforkuverð hefur verið tiltölulega skaplegt og lægra á Vestfjörðum en í öðru dreifbýli á landinu er hreinlega sú að Vestfirðingar voru svo ljónheppnir að hafa nokkrar virkjanir, þ.e. að stofni til Mjólkárvirkjun og aðrar virkjanir sem framleiða 40% af því afli sem þeir þurftu að nota. Rarik var hins vegar svo illa sett, eins og hv. þm. vita að fyrirtækið, að það er skilið eftir með nánast enga orkuframleiðslu og afleiðingin verður sú að dreifbýlið, sem Rarik þjónar, hefur þurft að búa við miklu hærra orkuverð.

Við í Vinstri grænum höfum verið talsmenn þess að taka á þessum málum heildstætt. Það er þess vegna sem þessi málflutningur er hafður í frammi. Tillaga okkar til fjáraukalaga upp á 1 milljarð er fyrsti áfanginn í að leysa vandamál sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðakerfisins upp á 2,8 milljarða. Það þarf að byrja á því. Það þarf að hreinsa til og taka þetta frá grunni, taka þetta heildstætt. Það er algerlega út í hött að mínu mati hvað varðar allar svona lausnir að beita ríkisfyrirtækinu Rarik til að leysa þennan vanda á þennan hátt. Það er kannski auðveldasta leiðin fyrir hæstv. ríkisstjórn en auðvitað eru margar aðrar leiðir færar ef menn hafa vilja til þess að leysa vandamálin. Það er númer eitt. Menn sjá það sjálfsagt fyrir sér í stóru samhengi að þetta sé einn liður í einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar því að Rarik verði hvort eð er selt innan fárra missira.