Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:39:13 (2439)

2001-12-04 17:39:13# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mér finnst umræðan núna seinni partinn hafa snúist um það hvort menn vildu taka á ákveðnum vandamálum á landsvísu eða ekki. Alla vega hef ég skilið umræðuna þannig upp á síðkastið. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi sagt eitthvað á þá leið að menn yrðu að taka á þessu á landsvísu en ekki sértækt.

Nú vill svo til að sú tillaga sem ég er flutningsmaður að ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Árna Steinari Jóhannssyni gengur einmitt í þá átt, að koma að þessu vandamáli á landsvísu. Það hefur verið nefnt í umræðunni, og er sjálfsagt að byrja á því að nefna það aftur, að talið er að það þurfi 2,8--3 milljarða kr. til að taka á vandamálum sveitarfélaganna á landsvísu og finna á þeim lausn, sérstaklega þeirra sveitarfélaga sem hvað skuldsettust eru.

Það er ekkert launungarmál, og það vita allir, að aðgerðirnar á Vestfjörðum með sölu Orkubús Vestfjarða voru aðgerðir sem sveitarfélögin voru sett upp að vegg með að framkvæma. Þó að hér hafi verið fluttar langar ræður um að svo væri ekki. Ég minnist orða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um það í umræðunni á síðasta þingi að frv. sneri eingöngu að því að breyta Orkubúi Vestfjarða í hlutafélag en fjallaði ekkert um söluna eða þær kvaðir sem því hafa fylgt. Ég held að allir hljóti að sjá það nú, ekki síst eftir að sett hafa verið sérstök skilyrði um að fjármunir úr sölu Orkubús Vestfjarða hangi inni á biðreikningum, m.a. vegna þess að málin varðandi félagslega íbúðakerfið hafa ekki verið leyst og ekki er samkomulag um hvernig þau verði leyst.

Þessi tillaga sem við flytjum er um að verja allt að 1 milljarði --- þar segir ekki að 1 milljarði skuli varið heldur að heimilt verði að verja allt að 1 milljarði --- til að greiða úr bráðum fjárhagsvanda sveitarfélaganna, m.a. vegna félagslega íbúðakerfisins og að félmrh. setji nánari reglur um þá úthlutun. Hér erum við eingöngu að marka því bás að hægt verði að leggja af stað í þá vegferð að taka á fjárhagslegum vanda sveitarfélaganna á landsvísu. Þess vegna skil ég ekki alveg þá umræðu sem hér hefur farið fram, þar sem menn hafa mælt gegn því að slíkt verði gert. Mér hefur jafnvel fundist gæta þess að menn mæltu gegn því.

Ég er enn þá sömu skoðunar og ég var þegar við afgreiddum frv. um Orkubú Vestfjarðar á á sl. þingi, að það beri að taka heildstætt á þessum vanda sveitarfélaganna úti um land heildstætt og á landsvísu. Þar til það hefur verið gert mun ég leggjast gegn því að eitt og eitt sveitarfélag sé tekið sérstaklega fyrir og menn settir í þá stöðu að selja eignir sínar.

Ég vil líka benda á, hæstv. forseti, að sú stefnumótun sem hefur verið í gangi hér á landi varðandi sölu á orkufyrirtækjum er eiginlega af tvennum toga. Annars vegar er það sú stefnumótun sem ríkir hér á suðvesturhorni landsins, að þar skuli sveitarfélögin eignast orkufyrirtækin og efla þau, væntanlega vegna þess að menn sjá í því framtíð, að það stuðli að atvinnuuppbyggingu í viðkomandi byggðarlögum og sveitarstjórnarmenn telji að það tryggi framtíðina. Ríkið hefur jú fallist á að selja sveitarfélögunum á suðvesturhorninu orkufyrirtækin, m.a. Orkuveitu Suðurnesja. Helminginn af þeim fjármunum sem ríkið fékk settu menn svo í félag til eflingar atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Sitthvað er aðhafst í þessu landi, annars vegar á suðvesturhorni landsins, þar sem ríkið selur sveitarfélögum sinn hluta í orkuveitufyrirtækjum og sveitarfélögin efla þá atvinnustarfsemi á sínum vegum og ákveðið er að taka þá fjármuni sem ríkið fær fyrir sinn hlut í orkubúunum, eins og á Reykjanessvæðinu, og efla þar atvinnulífið með þeim fjármunum sem úr sölunni komu.

Mér finnst því að þessi mál séu unnin á tvo ólíka vegu, annars vegar á suðvesturhorni landsins, þar sem ríkið virðist vera að stuðla að því að sveitarfélögin og atvinnulífið eflist, og hins vegar það sem gert var á Vestfjörðum þar sem sveitarfélögin eru nánast sett upp að vegg og knúið fram að þau selji eign sína til að greiða niður skuldir við ríkissjóð.

[17:45]

Síðan er það til viðbótar í annarri tillögu sem við sömu hv. þm. flytjum að við viljum fresta því að salan á Orkuveitu Skagafjarðar fari fram.

Allt byggir þetta á þeirri skoðun, a.m.k. minni og ég hef ekki heyrt annað en að samflutningsmenn mínir að þessari tillögu séu sömu skoðunar, að menn vilja leggja upp með þá stefnumótun að vandi sveitarfélaganna sem m.a. er til kominn vegna fjárhagsvanda sem tengist félagslega íbúðakerfinu og sums staðar líka yfirtöku á grunnskólanum og einsetningu hans ásamt náttúrlega með allri íbúafækkuninni á landsbyggðinni sem ekkert hefur verið nefnd í þessari umræðu. --- Hvers vegna er íbúafækkunin? Hefur ekki m.a. verið leidd fram nýleg skýrsla frá Byggðastofnun um atvinnumál á Vestfjörðum og sýnt fram á beina tengingu milli tilfærslu á aflaheimildum og atvinnustigsins og fækkunar íbúanna og að þau sveitarfélög þar sem aflaheimildir hafa aukist hafa eflst eins og t.d. Akureyri? Það er beint samhengi á milli þess að sveitarfélög hafa komist í fjárhagserfiðleika og þeirrar stefnu sem framkvæmd er í landinu í atvinnumálum annars vegar og hins vegar afleiðinga þess að íbúum fækkar, þ.e. auðra íbúða, m.a. í félagslega íbúðakerfinu.

Þar til viðbótar hefur það m.a. gerst, svo að ég nefni það í þessari umræðu, að á Vestfjörðum hafa laun lækkað hlutfallslega mjög mikið. Laun á Vestfjörðum voru yfir landsmeðaltali, oft og tíðum vel yfir því en eru nú komin niður fyrir það. Allt ber að sama brunni, þ.e. tekjur sveitarfélaganna lækka. Þær lækka vegna þess að fólki fækkar. Þær lækka vegna þess að atvinnutækifærin eru ekki til staðar. Þær lækka vegna þess að fyrirtækin sem þar voru öflug og stunduðu fiskveiðar eru farin að hluta til með stóran hluta af aflaheimildunum og þær lækka vegna þess að almenn kaupgeta á svæðinu, laun, hafa lækkað hlutfallslega. Svo er sjálfgefið að þegar stefnan snýst við frá því að vera uppbyggingarstefna yfir í það að fækka fólki í sveitarfélögum, þá er ekki sjálfgefið að á sama degi séu menn búnir að snúa niður vandann til samræmis við það sem íbúunum fækkar. Það gerist ekki þannig í sveitarfélögum. Það tekur langan tíma að laga sig að slíku. Auðvitað er það ekki stefna sem menn vilja horfa á, hvorki íbúar viðkomandi landshluta né hvað þá heldur sveitarstjórnarmenn eða þingmenn viðkomandi kjördæma, að að þeim sé vegið beinlínis með þeirri stefnu sem framkvæmd er. Við viljum snúa þeirri þróun við og reyna að efla á ný atvinnustig, atvinnuhorfur og framtíðarhorfur þeirra landshluta sem við erum fulltrúar fyrir. Þess vegna taldi ég það m.a. óráð að farið skyldi í að selja Orkubú Vestfjarða í stað þess að reyna að knýja það fram að vandinn yrði leystur á landsvísu. Þess vegna leggjum við það líka til að þessum allt að 1 milljarði kr. verði varið til þessara mála. Ekki mun það duga til því að, eins og ég áður sagði, er vandinn hátt í 3 milljarðar og hann lagast ekkert af sjálfu sér. Hann hleður bara á sig. Það verður auðvitað að fara að taka á þessu vandamáli.

Síðan ber svo einkennilega við að þingmenn Sjálfstfl. úr Norðurl. v. kemur hér upp og tjáir sig andvígan því að þessi sala fari fram. Auðvitað er ég honum sammála um það. Ég tel að þessi sala eigi ekki að fara fram heldur eigi að taka á vanda sveitarfélaganna á landsvísu og þegar því er lokið geta sveitarfélögin ef þau vilja auðvitað ákveðið að ráðstafa eignum sínum. Ég hygg hins vegar að ef tekið hefði verið á vanda Vestfjarða áður en menn stóðu frammi fyrir því að neyðast til að selja Orkubúið þá hefðu menn ekki verið svo áfjáðir í að selja það. Það er ég nánast alveg viss um. Mönnum var í raun stillt þar upp við vegg.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með það hvernig menn hafa litið á þessa tillögu okkar. Hún er fyrst og fremst sett fram í þeim tilgangi að leggja af stað í þá vegferð að leiðrétta og taka á vanda sveitarfélaga sem eru illa stödd fjárhagslega. Menn greinir á um þetta heima í héraði eins og greinilega kemur fram í fylgiskjali með fráhnál. 2. minni hluta, þ.e. bréfi ungra sjálfstæðismanna í Skagafirði. Það hefur líka verið upplýst hér í umræðunni að menn greinir á um það í sveitarstjórn Skagafjarðar hvort þessa leið eigi að fara. Ég tel því að ekki sé rétt að fara þessa leið og tek undir það sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði, að eðlilegt væri að þessi aðgerð biði og horft yrði til þess að reyna að taka á vandamálum sveitarfélaganna á landsvísu.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið. Mér finnst málið mjög skýrt að þessu leyti. Við erum að leggja hér til að lagt verði af stað í þá vegferð að viðurkenna að sveitarfélögin eiga í vanda. Þessi tillaga miðar eingöngu að því að það verði gert. Ef svo lánlega vildi til að meiri hluti þingmanna gæti fallist á það og það kemur svo upp, eftir að vandi sveitarfélaganna hefur verið leystur að þessu leyti varðandi félagslega íbúðakerfið, einsetningu grunnskólans og vanda illra staddra sveitarfélög fjárhagslega, að þau taka ákvörðun um það sérstaklega að óska eftir því að fá að selja eignir sínar, þá mun ég a.m.k. ekki leggjast gegn því. En að fara þá leið að knýja hvert sveitarfélagið á fætur öðru inn í þann farveg að neyðast til að selja eignir sínar eingöngu vegna þess að á vanda þeirra er ekki tekið heildstætt, er leið sem ég get ekki fallist á. Þess vegna er ég meðflutningsmaður að þeim brtt. sem hér hafa verið lagðar fram og lýsi því yfir að ég tel að ég sé að fylgja þar algjörlega óbreyttri stefnu frá þeirri afstöðu sem ég tjáði varðandi söluna á Orkubúi Vestfjarða. Ég tel að hér á landi séu framkvæmdar tvær stefnur, annars vegar stefna gagnvart sveitarfélögum á landsbyggðinni sem knúin eru til að selja eignir sínar og hins vegar stefna gagnvart sveitarfélögunum á suðvesturhorni landsins þar sem ríkið selur sveitarfélögum eignir sínar í orkuveitum og eflir í raun atvinnulíf á því svæði. Ég er ekki að mæla því bót, alls ekki. En mér finnst skrýtið hvernig þetta skiptist alveg í tvö horn.