Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 17:54:50 (2440)

2001-12-04 17:54:50# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í dag hefur staðið yfir 3. umr. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001 sem hér hefur verið fylgt úr hlaði þótt umræðan hafi e.t.v. verið minnst um þá liði sem þar eru settir fram. Ég hef átt þess kost nú að sitja sem varamaður nokkra fundi í hv. fjárln. og fjalla um þessi atriði sem hér hefur verið komið fram með. Ég hef svo sem ekki margt um þau að segja vegna þess að hér er svona mest verið að, skulum við segja, sópa upp, lagfæra og breyta í takt við verðlagsþróun, þróun á gengi íslensku krónunnar og þróun íslensks samfélags síðustu missiri. Því miður er mjög mikil verðbólga, rúmlega 8%, okurvextir, svo að notuð séu orð hæstv. utanrrh. og formanns annars stjórnarflokksins, Framsfl. Viðskiptahalli undanfarinna þriggja ára er upp á 200--300 milljarða kr. o.s.frv. þannig að auðvitað liggur í augum uppi við fjáraukalög að útgjöld ríkisins munu aukast mjög vegna þessa, að ég tali ekki um launahækkanir sem hafa gengið yfir.

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram er áætlað að útgjöld aukist um 14,9 milljarða kr. umfram fjárlög og áætlað er að tekjurnar nemi 254,2 milljörðum kr. sem eru aðeins 1,2 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í frv. til fjárlaga fyrir þetta ár.

Síðan eru auðvitað vafaatriði um sölu eigna, en ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að fara inn í þá umræðu. Ég gerði það við 2. umr. fjárlaga. Það er sannarlega erfitt að selja eignir um þessar mundir. Viðræður standa yfir um að selja stóran hluta af Landssímanum og síðan var ætlunin að selja Landsbanka og Búnaðarbanka. En mér virðist af fréttum að það gangi frekar erfiðlega og taki töluvert lengri tíma en ætlað var. Rétti tíminn til að selja þessar eigur ríkissjóðs virðist ekki vera núna þannig að ekki koma peningar fyrir þær á þessu ári. En vonandi fer efnahagslíf heimsins að taka við sér á ný, að rétta úr kútnum, og þá mun þess vonandi sjá stað á Íslandi líka. Miðað við ýmsar tölur sem hafa verið að koma fram síðustu daga er óskandi að það gangi eftir. Alla vega kemur það fram og hefur komið fram opinberlega í tölum að verulega hefur dregið út útlánaaukningu bankanna, eins og reyndar hefur komið fram í árshlutauppgjörum þeirra. Þær tölur sem fram hafa komið í þessum efnum sýna þó enn þá um 15% aukningu frá síðustu áramótum til fyrirtækja, en útlánaaukningu til einstaklinga aðeins rúmlega 6,7% og samdráttur er greinilegur í lántöku vegna íbúða, þ.e. íbúðarlán. Þetta eru náttúrlega ekkert endilega nein fagnaðartíðindi. Það er sannarlega að draga úr því sem er að gerast í efnahagsumhverfinu og það er náttúrlega ekki gott. Eins og ég segi, herra forseti, þá kemur það bersýnilega fram í þessum gögnum sem hér er verið að fjalla um. Samkvæmt frv. var gert ráð fyrir að ríkissjóður tæki löng lán sem næmu 27 milljörðum kr. En nú er ljóst að lántökur verða mun meiri eða um 60,9 milljarðar kr. Komið hefur fram að menn hafa verið að taka þessi erlendu lán til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og það sem þar hefur verið að gerast vegna hins mikla útstreymis af gjaldeyri og vegna þess að gjaldeyrir hefur í raun ekki skilað sér heim sem hefur svo komið fram í allsvakalegri veikingu krónunnar eins og við höfum líka margoft farið yfir.

[18:00]

Herra forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson fór yfir frhnál. 1. minni hluta fjárln. sem ég skrifaði upp á. Ekki þarf að endurtaka það sem þar kemur fram. Þó er vert að minnast örlítið á það sem verið hefur umræðuefni og deilt um, þ.e. beiðni forsrn. um 300 millj. kr. aukafjárveitingu til að mæta kostnaði við útboðs- og einkavæðingarverkefni ríkisins eða einkavæðingarnefnd. Mjög margt hefur verið sagt um þetta og verið vitnað í 25. gr. laga um þingsköp, sem ég held að séu öllum æðri á hinu háa Alþingi og vitnað svo í 4. gr. reglugerðar forsn. frá 5. desember 1994. Ég held, herra forseti, að hafa verði það á hreinu að það er náttúrlega alvarlegt mál og við erum komin í mjög alvarlega stöðu á hinu háa Alþingi ef ráðherrar og einstök ráðuneyti geta neitað fjárln. eða þingmönnum um þau gögn sem eiga að vera uppi á borðum þegar verið er að vinna fjárlög eða fjáraukalög, eins og í þessu tilfelli.

Auðvitað eru það miklir peningar sem þarna er um að ræða, 300 millj., og eðlilegt að þingmenn vilji fá að vita hvernig á að ráðstafa þessum peningum. Er þetta t.d. þannig, og nú er ég ekki að brjóta neinn trúnað, herra forseti, vegna þess að ég var á fundi fjárln. í morgun þar sem ég var látinn vitna um það að ef ósk kæmi frá forsrn. um að þessi gögn yrðu trúnaðarmál yrði það að sjálfsögðu haldið. Nú hafa þessi gögn ekki borist enn og ekkert við því að segja en auðvitað skiptir töluverðu máli hvað á að gera við þessar 300 millj. Eru þetta t.d. 300 millj. til að greiða einhverjum erlendum sérfræðingum fyrir að reyna að hjálpa okkur við að selja bankana eða Símann? Eða eru þetta peningar sem á að nota á heimavelli við sömu vinnu? Er þetta greitt til verktaka innan lands, fyrir ákveðna vinnu í þessum efnum, eða hvað á yfir höfuð að gera við þetta?

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að mér finnst mjög skrýtið hvernig þetta kemur fram hér. Umræðan um skýrslu umboðsmanns Alþingis í gær snerist öll um þetta. Það var eðlilegt vegna þess að ég tel að þar hafi menn farið út á ystu nöf í að túlka hinar ýmsu reglugerðir og að gengið hafi verið yfir þingheim á skítugum skónum.

Í þessu sambandi vil ég, herra forseti, vitna í það og nefna við þessa umræðu að 2. nóv. sl. var dreift á hinu háa Alþingi fyrirspurn frá mér til forsrh. um framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Nú er hinn 4. desember að kvöldi kominn og mér vitanlega hefur þessu svari ekki enn verið dreift þó að samkvæmt þingsköpum skuli ráðherrar og ráðuneyti svara eigi síðar en 14 dögum frá því að viðkomandi fyrirspurn er lögð fram. Ég hygg að þær spurningar sem ég lagði þar fram séu ekki þess eðlis að það taki mjög langan tíma að svara þeim. Ég hef auðvitað eins og aðrir þingmenn orðið var við að svör berast ákaflega seint og illa frá ýmsum ráðuneytum. Það er umhugsunarefni hvers vegna svo er, hvort menn séu farnir að líta svo á að Alþingi komi þessir hlutir ekkert við, eins og eiginlega lá í orðum svars frá forsrn. varðandi 300 millj. Bara til að rökstyðja það sem ég er að segja, að það ætti ekki að taka langan tíma að svara þessari fyrirspurn minni, vil ég lesa upp hvað í þessari fyrirspurn fólst. Þar voru fjórar spurningar lagðar fram, eins og ég segi en svar er ekki komið enn. Spurningarnar snúa hins vegar að þessari nefnd sem hér er mjög deilt um, framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Fyrsta spurningin er svo, með leyfi forseta:

1. Hvenær var framkvæmdanefnd um einkavæðingu skipuð og hverjir hafa setið í henni?

2. Hver er heildarþóknun til nefndarmanna, sundurliðað eftir nefndarmönnum og árum?

3. Hafa nefndarmenn fengið einhverjar aðrar greiðslur fyrir störf sín í nefndinni? Ef svo er, hverjar eru þær og fyrir hvaða verkefni, sundurliðað eftir árum?

4. Hefur nefndin keypt eða fengið einhverja utanaðkomandi þjónustu og ef svo er, hver er hún, sundurliðað eftir árum?

Það var óskað eftir skriflegu svari.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er mér ekki kunnugt um að þessari fyrirspurn hafi verið svarað. Ég leita eftir því við forseta þingsins, forsætisnefnd og starfsmenn þingsins að gengið verði eftir svari við þessari fyrirspurn.

Ég minnist þess að ég þurfti að bíða í nokkra mánuði vegna fyrirspurnar út af öðrum málum á síðasta þingi. Það er, eins og ég sagði áðan, ótrúlegt hve langan tíma það tekur að fá þessi svör.

Eins og hér hefur komið fram, og töluvert verið deilt um, er eitt lítið atriði í þessum brtt. fyrir 3. umr. Í tillögum meiri hlutans er lagt til að Rafmagnsveitum ríkisins verði heimilað að kaupa Rafveitu Sauðárkróks og taka til þess nauðsynleg lán. Um það hefur töluvert verið deilt í dag. Ég kom örlítið inn á þetta mál í andsvari áðan og tel vegna þeirra orðaskipta sem þar fóru fram þá sé vert að verja örlítið meiri tíma þingsins í þá umræðu.

Ýmsir þingmenn hafa sagt hér hitt og þetta sem á ekkert skylt við málið. Fyrir það fyrsta vil ég taka afar skýrt fram að ég er þeirrar skoðunar, og hef gagnrýnt það hér, að ríkisvaldið og Alþingi hafi mjög oft samþykkt lög, ráðherrar sett reglugerðir o.s.frv., sem íþyngt hafi mjög sveitarfélögum í landinu, gert þeim reksturinn erfiðari. Þau hafa þurft að taka lán og safna skuldum. Auðvitað á að leysa þennan fjárhagsvanda á landsvísu, á sama hátt fyrir öll sveitarfélög, sama hvað þau heita. Og það er útúrsnúningur sem hér hefur komið fram hjá nokkrum hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að ég sé ekki á þeirri skoðun. Ég held að ég þurfi ekki að fá neinar leiðbeiningar, hvorki frá þessum þingmönnum né öðrum, um fjárhagsvanda sveitarfélaganna í landinu. Ég benti m.a. á það við 1. umr., þegar hæstv. fjmrh. flutti frv. til skattalagabreytinga sem nú er í vinnslu hjá efh.- og viðskn., að með hækkun tryggingagjaldsins mundi kostnaður sveitarfélaga og gjöld sveitarfélaga aukast mikið. Það hefur komið í ljós að þar eru 500--700 millj. kr., bara vegna tryggingagjaldsins.

Það er reyndar líka, herra forseti, hægt að geta þess hér í framhjáhlaupi að rétt eftir að þetta kom fram lagði ég fyrirspurn fyrir hæstv. félmrh. um hverjar heildarlaunagreiðslur 25 stærstu sveitarfélaganna í landinu hefðu verið og hvert greitt tryggingagjald hefði verið á þessum tíma. Eins spurði ég hvert greitt tryggingagjald hefði verið ef þau lög sem þar voru boðuð og sú breyting eða hækkun á tryggingagjaldi, upp á 0,77%, hefðu verið komin í gildi og hvað sveitarfélögin hefðu þurft að borga mikið þá. Svar hæstv. félmrh. um það hefur heldur ekki borist og nú man ég ekki alveg hve margir dagar eru liðnir frá því. Hins vegar hafa komið gögn frá sveitarfélögunum sem benda á að kostnaður þeirra mun stóraukast í þessum efnum.

Ég hef líka rætt um aðrar íþyngjandi aðgerðir og bent á ýmislegt annað sem dregið hefur úr tekjustofnum sveitarfélaga, t.d. bara skattafslátt vegna hlutabréfakaupa á árum áður, sem var mjög vinsælt. Auðvitað misstu sveitarfélögin töluvert af tekjustofnum sínum í framhaldi af því þannig að ég vísa því til föðurhúsanna --- hvort sem það er í birtu eða myrkur, í sveitarfélög sem búa við mikla lýsingu eða litla --- að ég hafi ekki verið á þeirri skoðun að fjárhagsvanda sveitarfélaga ætti að leysa á landsvísu með aðgerðum sem mundu henta þeim öllum. Það er einmitt þess vegna, herra forseti, sem ég er andvígur því sem kemur fram í frhnál. 2. minni hluta fjárln., sem hv. þm. Jón Bjarnason skrifar undir, þar sem því er andmælt að Rarik fái heimild til að selja Rafveitu Sauðárkróks, dreifikerfið, í þéttbýlinu Sauðárkróki, hvergi annars staðar. Ég er andvígur því áliti sem hér kemur fram og oft kemur fram í tillögum og öðru slíku frá þingmönnum Vinstri grænna. Þar stendur t.d. á bls. 3, með leyfi forseta:

,,Að mati 2. minni hluta væri miklu nær að ríkið léti þessa fjármuni ganga beint til sveitarfélagsins eða styddi það á annan hátt þannig að það héldi sinni veitu.``

Þarna er með öðrum orðum sagt að ríkissjóður eigi að veita einu sveitarfélagi 300 millj. kr. bara svona út um gluggann. (ÁSJ: Það er ekki rétt.) Jú, það kemur nefnilega fram hér. Það hefur ekki verið gripið til neinna altækra aðgerða fyrir öll sveitarfélögin í landinu. Í þessu nefndaráliti kemur þetta skýrt fram og ég var, hv. þm., að lesa upp úr þessu frhnál. (Gripið fram í.) Það stendur hér. Ég ætla rétt að vona að það séu þá einhverjar prentvillur í þessu. En hér segir að hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggist gegn þessu, þ.e. ákvörðun sem meiri hluti sveitarstjórnar Skagafjarðar hefur tekið. Ég er ekkert endilega viss um að þeir séu nauðugir, ég er ekkert viss um það. Þarna hefur komið nýr meiri hluti sem stefnir að því að minnka mjög skuldir sveitarfélagsins og lækka þar með þá háu upphæð sem fer í fjármagnskostnað.

Ég lýsti því í stuttu andsvari áðan að ég stóð í svipuðum sporum sem bæjarfulltrúi á Siglufirði fyrir 10 árum. Menn gengu þar fram og seldu rafveitu og hitaveitu, fengu háar fjárhæðir fyrir og greiddu niður mjög miklar skuldir þannig að eftir stendur sveitarfélagið í dag, fjárhagslega mjög sterkt með lítinn fjármagnskostnað. Það gat gert töluvert í framhaldi af því sem við gátum ekki áður. Hvað var að þessari aðgerð? Ekki neitt.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég held að Siglfirðingar hafi aldrei orðið varir við að þeir hafi fengið eitthvað verri þjónustu við kveikja á ljós eða taka heitt vatn í gegnum mæli sem selt er af Rafmagnsveitum ríkisins, sem áður var selt af Rafveitu Siglufjarðar og Hitaveitu Siglufjarðar. Ýmsar nauðsynlegar breytingar voru gerðar sem heimamenn komu ekki í gegn og komu sér ekki saman um að gera. Það gerðu rafmagnsveitumenn, að mínu mati ágætlega.

Hins vegar hygg ég að ég sé sammála þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um orkuverð, það er allt annar handleggur. Ég er þeirrar skoðunar að orkuverð eigi að vera hið sama um allt land og ég held að það hafi komið fram í tillögum þverpólitískrar nefndar, svokallaðrar byggðanefndar forsrh., sem ég sat í ásamt hv. þm. Steingrími Sigfússyni. Við lögðum þar til ákveðnar aðgerðir sem voru kallaðar bráðaaðgerðir, þverpólitískar aðgerðir, studdar af hæstv. núv. forsrh., Davíð Oddssyni. Þær gengu út á að jafna orkukostnað í landinu. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir hjá hæstv. ríkisstjórn.

Ég er alveg á sömu skoðun og okkur greinir ekkert á um það, að orkuverð er á mörgum stöðum úti á landi of hátt miðað við það sem er í Reykjavík, miðað við það sem er hjá löngu afskrifuðum veitum hér í Reykjavík, hvort sem það er Rafmagnsveita Reykjavíkur eða Hitaveita Reykjavíkur sem er búið að sameina í Orkuveitu Reykjavíkur. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að verðið sé of hátt. Ég er hins vegar ekki alveg viss um að það sé rétt leið til að halda lægra orkuverði í ákveðnum sveitarfélögum að viðkomandi sveitarfélög eigi veiturnar sjálfar, selji orkuna e.t.v. ódýrar en þau geta. Þau gætu verið að selja það ódýrara til neytenda í dag með því að safna skuldum og samþykkja þannig óútfylltan víxil til framtíðarinnar. Það er mikill munur á þessu.

[18:15]

Hér hefur nokkur umræða farið fram um brtt. meiri hlutans um að heimila Rarik að taka lán til að kaupa dreifikerfið, burt séð frá hvaða verð fæst fyrir það. Ég hef ekki aðstæður til að vega það og meta. En treysti hins vegar fullkomlega sveitarstjórnarmönnum í Skagafirði, sem unnið hafa að málinu, til að fá sem allra mest út úr þeirri sölu. Þegar við seldum veiturnar á Siglufirði var það gert á viðskiptalegum grunni. Ég hygg að þarna sé það einnig gert. Það kemur fram í ýmsum pappírum sem þessu fylgja að Rarik ætli sér að efla starfsemi sína í Skagafirði, halda óbreyttum starfsmannafjölda o.s.frv.

Hvort sem það er gert í neyð eða ekki þá er það auðvitað ákvörðun meiri hluta sveitarstjórnar Skagafjarðar að selja þetta dreifikerfi, selja Rafveitu Sauðárkróks. Það ber auðvitað að virða. Menn geta síðan tekist á um það heima fyrir hvort það hafi verið rétt eða rangt. Auðvitað verða skiptar skoðanir um það. Það er náttúrlega hjákátlegt að ungir sjálfstæðismenn í Skagafirði skuli senda bréf til að mótmæla þessu rétt eftir að meiri hluti framsóknarmanna og sjálfstæðismanna sprakk í Skagafirði og sjálfstæðismenn fóru í minni hluta. Manni finnst þetta bera keim af einhverri fýlu sjálfstæðismanna út í framsóknarmenn, sem vildu ekki sameina veiturnar og fara einhverja aðra leið. Ég hef hins vegar ekki sett mig nákvæmlega inn í hvernig þau mál gengu fyrir sig.

Herra forseti. Ég ítreka það að mér þótti mjög gaman að sitja í þingsal á hinu háa Alþingi og hlusta á hv. þm. Jón Bjarnason, frsm. þessa frhnál., lesa upp úr fylgiskjali Vinstri grænna, bréf frá ungum sjálfstæðismönnum í Skagafirði. Nú veit ég ekki hvort ungir sjálfstæðismenn telji sig hólpna með að fá Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð sem talsmenn sína á Alþingi. Það verða ungir sjálfstæðismenn í Skagafirði að eiga við sjálfa sig. Ég veit það ekki. Hefði ég verið ungur jafnaðarmaður á Siglufirði og skrifað bréf til Alþingis á sínum tíma út af slíku þá hefði ég talið farsælast að flokksmenn mínir hefðu skýrt frá því en ekki að einhverjir aðrir tækju það upp.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, þá liggur í þessu enn ein prívat aðgerðin --- mjög dýr markaðssetning á Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í Skagafirði og Norðvesturkjördæmi, með því að leggja hér til að 300 millj. gangi til sveitarfélagsins og þetta eina sveitarfélag verði tekið út úr. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er sammála um að fjárhagsvandi sveitarfélaga um allt land sé mikill en þó á að fara í sértæka aðgerð, 300 millj. bara si svona, og allir aðrir sitja eftir. Því er ég ósammála, herra forseti.

Ég er hins vegar hjartanlega sammála því að það beri að taka á vanda sveitarfélaganna á landvísu og þá með svipuðum aðgerðum fyrir öll sveitarfélög. Það er grundvallaratriði í þessum efnum. Fyrir utan það grundvallaratriði að ég virði þann rétt meiri hluta sveitarstjórnar Skagafjarðar til að taka þessa ákvörðun. Stjórn Rariks hefur síðan tekið þá ákvörðun að kaupa og auðvitað eiga þessir aðilar að ráða sínum málum.

Ég er ósammála hv. 1. þm. Norðurl. v., Vilhjálmi Egilssyni, sem sagði það í stuttu andsvari áðan að hann teldi að betra væri að bíða með söluna fram yfir næstu sveitarstjórnarkosningar og sala á Rafveitu Sauðárkróks ætti að vera kosningamál í Skagafirði. Út af fyrir sig getur verið að þingmaðurinn hafi þessa skoðun og er ekkert um það að segja. Ég held hins vegar að menn verði bara að átta sig á því að í dag situr réttkjörin sveitarstjórn í Skagafirði. Þar situr meiri hluti sem er að vinna að sínum málum, vinna á sínum fjárhagsvanda, að lækka skuldir og fjármagnskostnað. Þetta er ein leiðin þeirra. Maður hefur svo sem heyrt um ýmsar aðrar leiðir en auðvitað á að virða rétt þeirra.

Í öðrum málum hefur komið fram að menn eigi að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Því væri svo sem allt í lagi að lesa upp, vegna þess að hér er ágreiningur milli mín og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um hvernig eigi að fara með þessi mál. Ég hef sem betur fer ekki sömu skoðun og þeir í þessu máli en það er náttúrlega ljóst að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ályktað um sveitarstjórnarmál. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er að gera hosur sínar grænar fyrir sveitarfélögum landsins til að bjóða fram á næsta kjörtímabili. Út af fyrir sig er allt í lagi með það náttúrlega og það hið besta mál. En ég gríp hér aðeins niður í nokkra þætti frá landsfundi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um þetta sem ég held að styðji það sem ég hef verið að segja, að menn eiga að virða þennan ákvörðunarrétt sveitarstjórnar Skagafjarðar að vilja selja sínar eigur. Ef einhver vill kaupa þær þá er það grundvallaratriði að menn virði þá tilhögun. En hér segir, með leyfi forseta, í stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs:

,,Á undanförnum árum hefur mikilvægi sveitarstjórnarstigsins aukist, ekki síst vegna þess að sveitarfélögunum hafa verið falin aukin verkefni, einkum á sviði velferðarmála.``

Einmitt þessu atriði stóðum við frammi fyrir á Siglufirði á sínum tíma. Ég hygg að það blandist inn í þessi málefni Skagfirðinga líka, að ýmis verkefni á sviði velferðarmála eru á verkefnasviði sveitarfélaganna. Þau eiga að sinna þeim verkefnum en geta e.t.v. ekki vegna fjárhagserfiðleika. Í raun er engin ástæða til þess að krefja sveitarfélög um að reka rafveitudreifikerfi, afla orkunnar eða annars af því tagi. Það á ekki að þurfa að vera fast verkefni þeirra. Hér kemur hins vegar ansi skringileg tilvitnun sem ég ætla að vitna í líka úr þessum gögnum frá landsfundi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, með leyfi forseta:

,,Grundvallarstefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er hin sama í málefnum sveitarfélaga og í landsmálum, en áherslurnar eru að sjálfsögðu breytilegar eftir aðstæðum.``

Það skyldi þó ekki vera að hér sé um að ræða breytilegar tillögur? Í þetta vitna ég vegna þess, sem ég sagði það í umræðu áðan, að ég spurði út í þetta þegar ég átti orðastað við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, sem var ráðherra þegar við Siglfirðingar seldum Rafveitu og Hitaveitu Siglufjarðar. Hann var samgrh. í þá tíð og ég vil nota þetta tækifæri, vegna þess að ég held að ég hafi aldrei gert það áður, til að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir aðstoð hans við okkur Siglfirðinga við að fá heimild á hinu háa Alþingi í lánsfjárlögum fyrir því að Rarik keypti af okkur rafveitu og hitaveitu. Ég vil að það komi skýrt fram að við Siglfirðingar vorum ákaflega ánægð með þessa aðgerð þáv. ríkisstjórnar og Alþingis fyrir að veita þessa heimild. Á þeim tíma var sem sagt þáv. fjmrh. heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast nauðsynleg lán vegna kaupa Rafmagnsveitna ríkisins á eignum Hitaveitu og Rafveitu Siglufjarðar. Þetta var fyrir 10 árum.

Ég er ekki endilega viss um það, þegar maður fer yfir sviðið, hvort staðan hafi verið eitthvað öðruvísi og það er algerlega rangt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að segja að aðstæður á Siglufirði hafi verið eitthvað öðruvísi en aðstæður í Skagafirði í dag. Við stóðum bara einfaldlega frammi fyrir því að Siglfirðingar höfðu lagt mikið af fé bæjarsjóðs í atvinnulíf til að reyna að skapa atvinnu. Ýmislegt tókst vel, annað illa og sveitarfélagið var orðið mjög skuldsett. Bæjarsjóður var mjög skuldsettur og við áttum ekki marga kosti. Við gátum selt þessar veitur okkar og gerðum það. Við fengum fyrir þær nokkuð gott verð sem var reiknað út frá verðgildi fyrirtækjanna, sem menn fóru mjög vel í gegnum þannig að aðilar yrðu sammála um það í lokin og allir voru ánægðir.

Skuldir Siglufjarðar lækkuðu svakalega og bærinn hafði mjög góð rekstrargrunn á eftir. Ég held að strax um sumarið höfum við m.a. farið að byggja leikskóla, fjögurra deilda leikskóla sem ekki hefði verið hægt ef við hefðum ekki selt veiturnar. Hvort sem menn gerðu það nauðugir eða viljugir --- ég hygg að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon muni ræða það mál á eftir --- þá var ég viss um það, þegar við lögðum af stað með málið, að ekki væru allir mjög kátir með að við gerðum þetta.

Ég segi hins vegar að okkur tókst að lenda því máli mjög vel. Ég held að í dag séu allir mjög ánægðir með það. Um þetta snýst málið varðandi Rafveitu Sauðárkróks. Það snýst einfaldlega um að meiri hluti sveitarstjórnar hefur tekið ákvörðun um að selja rafveituna og þar með vinnst annað, sem mikilvægt er að komi fram, að einn rekstraraðili verði að sölu rafmagns, sama hvort það er í þéttbýlinu Sauðárkróki eða 1 km utan við bæjarmörk Sauðárkróks, þar sem Rarik tekur við og selur rafmagn. Það er einfaldlega þannig að ég held að það sé hið besta mál að þetta sé allt á sömu hendi.

Rétt í lokin, herra forseti, vil ég segja, vegna þess að mér finnst hafa komið fram í umræðu í dag vantrú og gagnrýni á Rafmagnsveitur ríkisins og stjórnendur þeirra, að þau samskipti sem við Siglfirðingar áttum við forsvarsmenn Rafmagnsveitnanna, sem þá voru og sem ég held að séu þar enn í dag, voru mjög góð. Samstarfið eftir söluna var mjög gott. Ég vona svo sannarlega að Skagfirðingar geti sagt það sama og að Skagfirðingar muni sjá, þegar fram líða stundir, að þetta er rétt ákvörðun. Ég vona að þingmenn á hinu háa Alþingi muni síðar meir sjá að þetta er rétt ákvörðun. Hún er kannski erfið og menn telja sig kannski vera að selja ættarsilfrið eða eitthvað svoleiðis en það er annar handleggur.

Herra forseti. Umræður um þessi fjáraukalög hafa tekið langan tíma en það er nauðsynlegt að fara í gegnum þessi atriði. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Hér hefur verið farið yfir frhnál. okkar sem skipum 1. minna hluta og ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara ítarlegar í það.