Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 18:27:20 (2441)

2001-12-04 18:27:20# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[18:27]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst makalaust hvað hv. þm. Kristján Möller er seinheppinn í málflutningi sínum. Hann biður um að við gefum honum ekki leiðbeiningar. Ég veit ekki betur en hér í umræðunni hafi hann farið í andsvör við okkur, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, bæði við hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon.

Ég gat ekki heyrt betur í ræðunni núna en hv. þm. lýsti því yfir að hann væri hlynntur því að taka á vandanum heildstætt, eins og við erum að leggja fram í tillögu okkar. Er það misskilningur? Samkvæmt okkar tillögu er milljarður ætlaður sem byrjunaraðgerð í verkefni upp á 2,8 milljarða. Ég heyrði ekki betur núna. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann sé andvígur þessari tillögu á þessum grunni. Það kom fram í máli hans.

Svo kastar alveg tólfunum, ekki bara í einu heldur í öllu, þegar hann er að túlka áherslur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Hann vitnar í málefnahandbók út af sveitarstjórnarmálefnum þar, drepur niður og segir áherslur okkar breytilegar eftir aðstæðum. Heldur hv. þm. að það séu sömu aðstæður í öllum sveitarfélögum? Eiga allir að byggja kirkju eða fara í hafnarmannvirki án tillits til þess hvort slík mannvirki eru fyrir? Auðvitað eru þar mismunandi áherslur. Ég vil biðja hv. þm. að lesa gögnin betur ef hann ætlar að nota drjúgan tíma, dag eftir dag, í það að túlka stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, framsækna stefnu sem á ekki að vera svo torskilin.