Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 18:35:46 (2445)

2001-12-04 18:35:46# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér segir svo hugur að hv. þm. Kristján L. Möller muni ekki hafa erindi sem erfiði í gegnum tilraunir sínar hér í dag til þess að klekkja á Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og snúa út úr hvort heldur landsfundarsamþykktum okkar eða málflutningi hér, breytingartillögum og öðru.

Í sambandi við þetta orkuveitumál í Skagafirði liggur það í fyrsta lagi fyrir að málið er mjög umdeilt heima í héraði. (Gripið fram í.) Ástæðan fyrir því að ungir sjálfstæðismenn eru hér tilvitnaðir er sú að þeir beittu sér fyrir almennum fundi um málið og hafa ályktað um málið. Þeir eru ekkert verri raddir þeirra sjónarmiða sem eru þessu andvíg en aðrir í byggðalaginu.

Í öðru lagi hafa sveitarstjórnarmenn sem sjálfir eru að beita sér fyrir þessari sölu viðurkennt opinberlega að þeir telja sig tilneydda. Er það þá andstætt þeim og er það á móti þeim að leggja til að reynt verði að leysa vanda sveitarfélaganna, þar með talið Skagafjarðar, með almennum aðgerðum, en ekki þannig að sveitarfélögunum hverju fyrir sig verði stillt upp og þau neydd til að selja eigur sínar?

Í þriðja lagi telur hv. þm. þetta snúast um virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. En sveitarfélagið er ekki að semja við sjálft sig. Það er er ekki að selja sjálfu sér. Það er ekki að selja einkaaðilum. Það er ríkið sem á að kaupa og það er hér á Alþingi sem verið er að fara fram á heimild til þess að ríkið leggi 300 millj. í þessi kaup. Er þá óeðlilegt að alþingismenn hafi skoðun á því?

Þá vakna auðvitað spurningar um jafnræði gagnvart öðrum sveitarfélögum. Verður það þá ekki að vera þannig að Rarik sé skuldbundið til að kaupa allar veitur allra sveitarfélaga sem vilja selja? Jú, ef menn ætla að fara út í umræðuna á þessum grunni. Og er það þá sú kerfisbreyting í orkumálum sem við teljum skynsamlega? Það kann vel að vera, en þá á að nálgast málið þannig.

Það sem við leggjum til er að vandi sveitarfélaganna verði ekki leystur með því að neyða þau til að selja einstakar eigur sínar, heldur tekið á honum almennt. Það virðist hv. þm. ekki geta skilið.