Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 18:42:23 (2448)

2001-12-04 18:42:23# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Kannski er rétt að grípa á lofti þau síðustu orð hv. þm. að þetta muni ekki verða til framdráttar í pólitíkinni. Það skyldi þó ekki vera svo að það sé rétt sem ég hef haldið hér fram að markaðssetningu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á landsbyggðinni eigi að greiða úr ríkissjóði eins og hér hefur komið fram. Þetta snýst ekkert endilega um það hvað þingmenn fiska í atkvæðum út á svona lagað. Þetta snýst um almennar aðgerðir.

Ég er auðvitað hjartanlega sammála því og fagna því ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, þetta snýst um almennar aðgerðir til lausnar fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Ég er alveg sammála því og það hefur margoft komið fram. (SJS: Hvað ertu þá að æsa þig?) Það skyldi nú ekki vera einhver æsingatónn hafi verið úr þessum ræðustóli frá þeim sem var hér áðan.

Ég hef áður beðið hv. þm. afsökunar á því að ryðjast inn á hans svið og ræða mál sem honum finnst að öðrum þingmönnum komi bara hreinlega ekki við.

Svo rétt í lokin, herra forseti, um félagslega húsnæðið á landsbyggðinni. Það er líka hárrétt og ég er alveg sammála því og hef sagt það líka að það á að leysa með almennum aðgerðum.

Ég hygg að það sé verið að gera þarna. Alla vega er sveitarfélagið Skagafjörður ekki skikkað til þess að gera eitt eða neitt við þá peninga sem þeir fá fyrir það sem þeir þarna selja. Auðvitað er viðkomandi sveitarstjórn það í sjálfsvald sett hvernig ráðstafað er þeim peningum sem þeir fá fyrir eigur sínar. Að því leytinu get ég verið sammála því, gagnvart Orkubúi Vestfjarða, að það er óeðlilegt að ríkisvaldið skuli nota einhverjar aðgerðir til þess að binda féð sem fyrir það fæst til þess að eyrnamerkja það vanda félagslega húsnæðiskerfisins á Vestfjörðum. Ég þekki þau mál alveg. Það á að sjálfsögðu að leysa með almennum aðgerðum. Það er alveg hárrétt, og skal segja það hér í lokin, herra forseti, að þar hefur hæstv. ríkisstjórn staðið sig auðvitað ákaflega illa. En málið snýst ekki um það að banna og leyfa ekki þeim sveitarstjórnum sem það vilja að selja eigur sínar, jafnvel þó um sé að ræða dreifikerfi orkuveitna.