Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 19:11:46 (2450)

2001-12-04 19:11:46# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[19:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við síðustu spurningu hv. þm. er já. Þetta var ófyrirséður atburður. Gert var ráð fyrir því í fjárlögum ársins að fjármögnun og endurfjármögnum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar yrði með öðrum hætti en hér er ráð fyrir gert. Það mál hefur því miður ekki gengið eftir. Það byggðist á því að flugstöðin ætti að taka sjálf erlent lán í eigin nafni og endurgreiða ríkinu þau lán sem ríkið hefur lánað stöðinni. Flugstöðin átti að gera það í eigin nafni. Það hefur ekki gengið eftir vegna þess að hún hefur ekki byggt upp þann sess sem þarf til að geta fjármagnað sig sjálf með þessum hætti í eigin nafni. Þess vegna er niðurstaðan sú að hagstæðast sé fyrir fyrirtækið og eiganda þess sem er ríkið að stöðin fái heimild til að taka lán og ríkið veiti þá sjálfskuldarábyrgð sem hér er verið að afla heimildar fyrir til að geta endurfjármagnað þau lán sem eru á gjalddaga.

Hv. þm. spurði: Hver er kaupandinn að þeim hluta Straums sem seldur var í síðustu viku? Ég hygg að það sé ekkert leyndarmál að það er stórfyrirtæki þarna í nágrenninu sem er kaupandinn. Hlutafélag sem hv. þm. þekkir vel til, Íslenska álfélagið. Og Hafnarfjarðarbær hefur fallið frá forkaupsrétti ef hann er fyrir hendi sem ég er ekki alveg klár á, en sé hann fyrir hendi, hefur bærinn fallið frá honum vegna þess að búið er að undirrita þessa samninga sem ég vona að verði báðum til hagsbóta.

Síðan vil ég segja vegna umræðna fyrr í dag af hálfu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og Steingríms J. Sigfússonar sem hafa gert að umtalsefni ráðstöfun fjárins að í afsalsbréfinu frá 1949 sem þessu máli tilheyrir --- ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heyrir til mín --- segir að þessu landi sé afsalað til ríkissjóðs með gögnum og gæðum og án allra kvaða, með öðrum orðum er verið að færa ríkisaðila í A-hluta gjöf og við ráðstöfum andvirðinu í dag með þessum hætti. Það er fullkomlega eðlilegt og ekki brot á neinu gjafabréfi eða neinu slíku eins og hér hefur verið gefið í skyn.