Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 19:14:04 (2451)

2001-12-04 19:14:04# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[19:14]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði ekki um þetta en það er ágætt að fá svör fram um ráðstöfun fjárins. Ég þakka hæstv. fjmrh. hrein og klár svör hans við fyrirspurn minni um það hver keypti. Þetta mjakast allt í rétta átt. Ég ætla svo sem ekki að hafa neinar skoðanir á því í augnablikinu enda á það kannski ekki heima í þingsölum. Ég get þó ekki látið vera að velta því aðeins fyrir mér --- nú veit ég ekki nákvæmlega hvaða blettur var keyptur --- hver þörf álversins hafi beinlínis verið vegna Straumslandsins. Það kunna að vera skýringar á því en vangavelturnar eiga ekki hér heima. Ég hins vegar spurði hæstv. ráðherra um fleira. Ég spurði hann hvort hann mæti það svo að einhver fyrirstaða yrði á því að svara fyrirspurninni, sem væntanlega verður dreift hér á næstu klukkutímum eða á morgun, þess efnis almennt hvernig heimildir hans sem hann hefur fengið skv. 7. gr. fjárlaga hafa verið nýttar, hverjum hefur verið selt og hverjir hafa keypt, af hverjum hefur verið keypt og verð í þessu samhengi. Hann hefur riðið á vaðið með því að upplýsa án vífilengja um kaup og kjör vegna Straumslandsins og ég vænti þess að nákvæmlega það sama gildi um önnur viðskipti sem hann hefur hér átt samkvæmt heimildum ríkissjóðs. Að þessu leytinu til hefur hann gert miklum mun betur en hæstv. forsrh. í ljósi fyrri umræðu máls.

Hins vegar tók varaformaður Sjálfstfl. ekki áskorun minni um að blanda sér í þá orðræðu. (Fjmrh.: Tíminn var nú bara búinn.) En nú skal ég hleypa hæstv. ráðherra í seinna andsvar sitt.