Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:07:25 (2457)

2001-12-04 21:07:25# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EMS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:07]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Nú stendur yfir 3. umr. um fjáraukalög og eftir hlé á störfum Alþingis á meðan fjárln. fundaði er kannski eðlilegt að hefja umræðu um það sem að hluta til fór fram á þeim fundi.

Þingheimur hefur orðið vitni að nokkrum umræðum varðandi það að fjárln. hefur ítrekað leitað eftir upplýsingum frá forsrn. um upplýsingar um einn ákveðinn lið í fjáraukalagafrv., þ.e. 300 millj. kr. beiðni undir liðnum Útboð og einkavæðingarverkefni.

Því miður, herra forseti, hefur ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að fá þær upplýsingar frá forsrn. sem um hefur verið beðið. Á fundi í hádeginu í dag, eins og ég greindi frá fyrr í dag, gekkst fjárln. undir það að meðtaka upplýsingar frá forsrn. í trúnaði. Þannig var um þau mál rætt þá að örstuttur tími ætti að líða þar til þessar upplýsingar bærust. Því miður bárust engar upplýsingar fyrr en rúmlega fimm klukkustundum síðar og þá kom bréf sem að sjálfsögðu fellur þá undir þann trúnað sem menn gengust undir á hádegisfundi. En því miður, herra forseti, verð ég að segja að í þessu bréfi er ekkert sem að mínu mati getur í raun og veru réttlætt það að bréfið sé trúnaðarmál. Hins vegar mun ég að sjálfsögðu halda fullan trúnað um þetta bréf.

Á fundi áðan í fjárln. óskaði ég sérstaklega eftir því að nefndin ítrekaði beiðni sína til forsrn. um að fá þá sundurliðun sem ítrekað hefur verið óskað eftir frá ráðuneytinu. Það var sameiginlegt mat mitt og hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar, formanns nefndarinnar, að svar forsrn. væri ekki eins og um hefði verið beðið. Formaður nefndarinnar lýsti því yfir að hann mundi reyna allt sem í hans valdi stæði til að fá frekari upplýsingar frá forsrn., hann mundi reyna að ná þessum upplýsingum áður en þessari umræðu sem nú stendur yfir lýkur, en treysti sér ekki til að lofa því að þær lægju fyrir áður en umræðu lyki.

Af hálfu okkar í minni hluta fjárln. voru því bókuð mótmæli við því að ekki væri tryggt að þessar upplýsingar bærust nefndinni áður en umræðu lyki. Þess vegna, herra forseti, er þetta mál í raun og veru enn í uppnámi. Það er auðvitað ekki viðsættanlegt að forsrn., eftir ítrekaðar beiðnir frá fjárln., skuli ekki svara eða gefa þær upplýsingar sem um er beðið, og það meira að segja þegar nefndin hefur lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að meðtaka upplýsingarnar í trúnaði. Hér er eitthvað óskýranlegt á ferðinni og ég treysti mér ekki til að viðhafa þær getgátur sem gætu skýrt hvernig á því stendur að forsrn. treystir sér ekki til að gefa þær upplýsingar sem um er beðið. Og, herra forseti, það er rétt að ítreka að umræddar beiðnir um upplýsingar eru ekki beiðnir frá einstökum þingmönnum í fjárln. heldur er hér um að ræða óskir nefndarinnar um upplýsingar, og það ítrekaðar beiðnir um upplýsingar.

Þess vegna, herra forseti, verð ég að ítreka enn á ný að það er eindregin ósk okkar í minni hluta fjárln. að allt verði gert sem hægt er til að tryggja að nefndin fái þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir og að þær upplýsingar liggi að sjálfsögðu fyrir áður en 3. umr. um fjáraukalög lýkur vegna þess að sú upphæð sem hér um ræðir og þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir snerta afgreiðslu fjáraukalaga. Hér er auðvitað um prinsippmál að ræða, þetta snýst um að framkvæmdarvaldið gefi löggjafarvaldinu þær upplýsingar sem um er beðið. Þetta snýst um það að fjárln. geti í raun og veru sinnt hlutverki sínu. Þetta snýst um það að framkvæmdarvaldið geti ekki ákveðið það hverju sinni hvaða upplýsingar það eru sem fjárln. telur nauðsynlegt að hún fái þegar unnið er að ýmist fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég ítreka það enn á ný að fjárln. samþykkti það á fundi sínum í hádeginu að hún væri reiðubúin til að móttaka þessar upplýsingar í trúnaði. Þrátt fyrir það, af einhverjum ástæðum sem enginn hefur tilgreint, treystir forsrn. sér ekki til að sundurliða þessar 300 millj. á þann hátt sem viðsættanlegt er.

Herra forseti. Ég þarf í raun og veru ekki að fjalla mikið lengur um þetta mál að sinni. Ég vona að sjálfsögðu enn að þessar upplýsingar berist okkur áður en þessari umræðu lýkur en því miður liggja engin loforð fyrir um slíkt.

Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem ég vildi ræða varðandi það frv. sem hér er til umræðu. Fyrst vil ég fara lítillega yfir það sem snýr að 7. gr. fjárlaga eða 4. gr. fjáraukalaga og gera sérstaklega að umræðuefni hvernig framkvæmdarvaldið vill umgangast þessa lagagrein. Því miður er nauðsynlegt að gera við það athugasemdir.

Í tillögum meiri hluta fjárln. þar sem þessi leið er farin er m.a. gerð tillaga um það að hluti af söluhagnaði Stofnfisks fari annars vegar til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og hins vegar til Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal. Herra forseti, það er rétt að taka fram að hér er vissulega full þörf á því að ákveðið fjármagn fari til þessara ágætu skóla. Það er hins vegar ekki boðlegt að hér sé verið að vísa til söluhagnaðar Stofnfisks í skýringum með fjárframlögum til þessara ágætu skóla þegar gert er ráð fyrir því í 7. gr. fjárlaga eða gerð tillaga um það í 4. gr. fjáraukalaga að liðurinn sem snertir Stofnfisk hljóði svo í tillögum meiri hluta, með leyfi forseta:

,,Liður 5.4 í lögunum orðast svo: Að selja hlut ríkissjóðs í Stofnfiski hf. og verja hluta af andvirðinu til greiðslu skulda Laxeldisstöðvar ríkisins við Endurlán ríkisins.``

[21:15]

Herra forseti. Það er a.m.k. nauðsynlegt að fá á því skýringar hvernig á því stendur að í þessum lið sé eingöngu minnst á Laxeldisstöð ríkisins eða greiðslu skulda Laxeldisstöðvar ríkisins við Endurlán ríkisins, en ekkert er minnst á Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri eða Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal, sem þó er gert ráð fyrir að fái mun hærri upphæðir af þessum söluhagnaði en nemur skuld Laxeldisstöðvar ríkisins við Endurlán ríkisins. Hér skortir allar skýringar. Hugsanlega er um handvömm að ræða og úr því muni þá verða bætt og þessu komið fyrir á réttan stað í frv. en ég ítreka, herra forseti, að það er lágmark að hér komi skýring á þessu máli, annaðhvort frá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, formanni fjárln., eða hæstv. fjmrh. sem eflaust býr yfir meiri vitneskju um málið og því líklegri til þess að geta skýrt það til fullnustu.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, vegna þess að við 2. umr. um fjáraukalögin vakti ég athygli á svipuðu máli, þ.e. gerð var grein fyrir því með skýringu með fjárframlögum til Alþingis að verið væri að ráðstafa andvirði af sölu fasteignarinnar Skólabrúar 2 í Reykjavík.

Herra forseti. Brugðist er við þeim athugasemdum mínum nú við 3. umr. og því ber auðvitað að fagna. Gerð er tillaga um það af meiri hluta fjárln. að í 4. gr. verði breyttur liður og liður 2.31 í lögunum orðist svo, með leyfi forseta:

,,Að selja fasteignina Skólabrú 2, Reykjavík, og ráðstafa andvirðinu til fasteigna Alþingis.``

Herra forseti. Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvort eðlilegt sé að gera þetta á þennan hátt, en hér er a.m.k. rétt að málum staðið. Það er því miður ekki svo að sjá varðandi Stofnfisk.

Þá kem ég, herra forseti, að einu enn sem snertir 7. gr. og er mál sem nokkuð hefur verið rætt í dag. Ég mun leggja fram brtt. sem snertir það mál, en þar sem enn hafa ekki verið samþykkt afbrigði til þess að sú tillaga megi koma á dagskrá mun ég ekki ræða þá tillögu sérstaklega í ræðu minni. Í fjárlögum ársins 2001 segir svo í 7. gr., þ.e. lið 4.47, þetta er ein af heimildargreinunum, að selja ...

(Forseti (HBl): Óskar hv. þm. að gera hlé á máli sínu svo hægt sé að leita afbrigða um tillöguna?)

Herra forseti. Það væri vel til fundið ef möguleiki væri á slíku.

(Forseti (HBl): Þá gerir hv. 3. þm. Austurl. hlé á ræðu sinni um stund.)