Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:20:21 (2458)

2001-12-04 21:20:21# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EMS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:20]

Einar Már Sigurðarson (frh.):

Herra forseti. Þar sem afbrigði hafa verið veitt, þá get ég rætt örlítið um þá tillögu sem ég hef hér lagt fram, en eins og ég sagði áðan í ræðu minni hefur þetta mál nokkuð verið rætt í dag og snertir 7. gr. fjárlaga 2001, lið 4.47, en þar segir með leyfi forseta:

,,Að selja eignarhluta Skógræktar ríkisins í jörðinni Straumi í Hafnarfirði.``

Nú hefur hæstv. fjmrh. upplýst að búið er að selja þá jörð og söluandvirðið var 102 millj. kr. (Gripið fram í.) Hluta jarðarinnar, herra forseti, þarna er um hluta jarðarinnar að ræða og andvirði þess hluta er 102 millj. kr. Gerð er tillaga um það í tillögum meiri hluta fjárln. að 50 millj. af þessu söluandvirði sé ráðstafað á þann hátt að Skógrækt ríkisins fái 40 millj. kr. og Garðyrkjuskóli ríkisins 10 millj. kr. Hvort tveggja er tengt við söluhagnað af jörðinni Straumi.

En eins og fram kom er ekkert um það getið í fjárlögum þessa árs hvernig ráðstafa skuli söluhagnaði af sölu jarðarinnar Straums í Hafnarfirði. Hins vegar kom fram fyrr í dag þegar ég fór í andsvar við hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson þegar hann gerði grein fyrir tillögum meiri hluta fjárln. að með tillögum meiri hluta nefndarinnar er algjörlega farið á svig við orð fyrrv. formanns fjárln., hæstv. heilbrrh., sem á mjög skilmerkilegan og skýran hátt tilkynnti við umræðu í fyrra að það væri fortakslaust að söluandvirðinu ætti að verja til styrktar rekstri Skógræktar ríkisins. Og það kom ítrekað fram hjá hæstv. heilbrrh., þáv. formanni fjárln., að þetta væri skoðun meiri hluta fjárln.

Herra forseti. Ég ítreka að ég tel það afar mikilvægt að orð formanna fjárln. standi. Þegar formenn fjárln. lýsa yfir skoðunum meiri hluta fjárln., þá eigi það að vera jafngilt skýringum með frv. Í þessu tilfelli held ég að flestir ef ekki allir hv. þm. hafi skilið þau orð á þann hátt.

Það verður að segjast alveg eins og er að auðvitað er ótrúlega lágt lagst að vera að tína af Skógrækt ríkisins 10 millj. kr., ég tala nú ekki um ef við setjum það í samhengi við það að á meðan er verið að ráðstafa 300 millj. kr. sem ekki nokkur leið virðist vera fyrir fjárln. að fá upplýsingar um hvað verið er að gera við, þá er lagst svo lágt að reyna að tína af Skógrækt ríkisins 10 millj. kr. Nei, herra forseti, það er auðvitað fyrir neðan virðingu þingsins að standa svona að málum.

Þess vegna, til að bjarga heiðri þingsins í raun og veru, hef ég lagt fram brtt. við 4. gr., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Liður 4.47 í lögunum orðast svo: Að selja eignarhluta Skógræktar ríkisins í Straumi í Hafnarfirði og verja andvirðinu til Skógræktar ríkisins.``

Herra forseti. Verði þessi brtt. samþykkt er það tryggt að söluandvirðið fer til Skógræktar ríkisins eins og rætt hefur verið um hér í þingsölum og ég hélt þar til ég sá þessa brtt. að væri samdóma vilji allra hv. þm., þá er það tryggt að þannig fer með fjármagnið án þess að Garðyrkjuskóli ríkisins þurfi að gjalda fyrir það og sú stofnun haldi þeim 10 millj. sem gerð er tillaga um að renni til skólans.

Einnig er nauðsynlegt, herra forseti, að bæta hér örlitlu við vegna þess að hæstv. fjmrh. kom upp í andsvörum við annan hv. þm. og rökstuddi m.a. þennan gjörning með því að við Garðyrkjuskóla ríkisins færu fram skógræktarrannsóknir. Herra forseti. Óhjákvæmilegt er að hæstv. fjmrh. komi hér á eftir og skýri út fyrir þingheimi hvaða rannsóknir þar eru á ferðinni.

Ég notaði tímann á meðan á umræðu stóð í dag og reyndi að afla mér upplýsinga um hvaða rannsóknir þar væru á ferðinni. Ég ræddi við nokkra menn sem ég treysti fyllilega til að gera sér grein fyrir því hvað skógræktarrannsóknir eru og það verður að segjast eins og er, herra forseti, að þeir ágætu aðilar könnuðust ekki við slíkar rannsóknir. Þess vegna er mjög brýnt, ef það er meginrökstuðningurinn fyrir því að taka 10 millj. kr. af Skógrækt ríkisins vegna þess að svo mikilvægar skógræktarrannsóknir fari fram hjá Garðyrkjuskóla ríkisins, að þá sé það algjörlega klárt hvaða rannsóknir hér eru á ferðinni.

Það skal hins vegar upplýst að það er samstarfsverkefni á milli Skógræktar ríkisins, Garðyrkjuskóla ríkisins og Náttúrufræðistofnunar þar sem þeir leggja saman í púkkið til að tryggja doktorsnema við Garðyrkjuskólann laun. Þau laun eru ekkert nándar nærri sú upphæð sem hér um ræðir, enda er skýringin sú, herra forseti, með tillögunum að verið sé að greiða rekstrarhalla við Garðyrkjuskóla ríkisins.

Þess vegna ítreka ég það enn einu sinni, herra forseti, að hér er auðvitað allt of lágt lagst til að þingheimur geti samþykkt slíkt. Hins vegar er ekkert vafamál að Garðyrkjuskóli ríkisins þarf væntanlega á 10 milljónum að halda til að rétta við reksturinn.

En ég ítreka, herra forseti, að það er gjörsamlega óviðunandi í ljósi fyrri umræðna og þeirra skoðana sem ýmsir hafa áður lýst að þær 10 millj. kr. séu teknar af Skógrækt ríkisins og því vænti ég þess að hæstv. fjmrh. komi hér upp í andsvari þannig að hægt sé að taka af allan vafa í málinu og lýsi sig fylgjandi þeirri brtt. sem ég hef hér mælt fyrir til þess að heiðri Alþingis sé bjargað í málinu.