Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:30:52 (2461)

2001-12-04 21:30:52# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:30]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er furðulegt, herra forseti, að menn skuli eyða nærri tveim dögum í þetta moldviðri út af engu.

Upplýsingar forsrn. eru fullkomnar, það vantar ekkert í þær. Það er alveg vitað mál hver sölulaunin eru og hvað gengur á almennum markaði í heiminum, það er ekkert leyndarmál ef menn leita eftir því. Ég bauð hv. þm. að reikna þetta fyrir hann svona ,,sirkabát omtrent``. (Gripið fram í: Með þríliðu?) Með engri óþekkt og engri þríliðu. Það þarf nefnilega ekki. Það er ekki hægt að skipta þessu nákvæmlega fyrr en salan hefur farið fram. Hún hefur ekki farið fram en af því verður vonandi fyrir áramót. Allt þetta moldviðri um að verið sé að leyna einhverjum upplýsingum eru bókstaflega fáránlegt, herra forseti. (Gripið fram í: Hverju er verið að leyna?) Það er engu verið að leyna. Það liggur fyrir að við ætlum að selja þessi þrjú fyrirtæki, það liggur fyrir áætlun um á hvað við gætum u.þ.b. selt þau þó að við vitum það ekki. Þess vegna hafa menn áætlað hvað það mundi kosta að selja þau og það vantar engar upplýsingar. Þetta er bókstaflega heilaspuni frá upphafi til enda. (Gripið fram í.)

Allar upplýsingar sem liggja fyrir hjá okkur í fjárln. liggja alveg nægjanlega skýrt fyrir. Við munum svo geta skipt þessu nákvæmlega þegar sala fer fram.

Hér er verið að búa til reyk og púðurkerlingar úr engu. Það er ekkert sem vantar í þetta. Og ef stjórnarandstaðan hefur ekkert annað að gera en að tala sig hása um mál eins og þessi er náttúrlega alveg sjálfsagt að halda hér áfram einhverja daga. (Gripið fram í.) Vegna þess að hv. þm. er svo vanur að kalla fram í fyrir öðrum get ég sagt honum þetta, að það er líka hægt að taka hann með í þetta því að það er ekkert sem liggur óskýrt fyrir. Við erum að selja þessi fyrirtæki, það er búið að ráða ákveðinn aðila til að selja þau og það er ekki nokkur skapaður hlutur sem vantar í þessar upplýsingar nema að fyrirtækin eru óseld þannig að nákvæm skipting á þessu getur ekki komið fram (Gripið fram í: Hvað var þessum aðilum greitt?) fyrr en búið er að selja þau. Það er algjörlega óþarft að halda því fram að nokkurn hlut vanti í þessar upplýsingar.