Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:33:10 (2462)

2001-12-04 21:33:10# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:33]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hér voru merkilegar upplýsingar á ferð. Ég held að ég verði að biðja hv. þm. að hringja hið snarasta í ráðuneytisstjórann uppi í forsrn. og upplýsa hann um að þetta liggi raunverulega allt saman ljóst fyrir og hann geti bara skrifað bréf í snatri og upplýst það sem upp á vantar. (EOK: Hann gerði það. Þú fékkst bréf í dag.) Rétt er það, herra forseti, ég fékk bréf í dag. Ég hef lesið það bréf og í því eru því miður ekki þessar upplýsingar sem hv. þm. er að tala um. (EOK: Nú?)

En ég vil vekja sérstaka athygli á því, herra forseti, að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárln., sagði áðan að upplýsingarnar frá forsrn. væru fullkomnar. Það kom hins vegar fram á fundi fjárln. í fundarhléi áðan að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður fjárln., taldi upplýsingarnar ekki fullnægjandi. Þær væru ekki þær sem beðið hafði verið um.

Hér er greinilega einhver ágreiningur á milli formanns og varaformanns fjárln. Ég velti fyrir mér hvort það geti verið skýringin á því að það stendur á þessum upplýsingum að jafnvel sumir hv. þm. í fjárln. vilji ekki að þessar upplýsingar verði lagðar fram.

Ég spyr þess vegna: Hvaða upplýsingar eru þetta sem ekki má leggja fram? Ef hv. þm. virðist vita allt um málið, af hverju notar hann ekki tækifærið og kemur hér með þó ekki væri nema stutta ræðu? Þetta eru ekki miklar og langar upplýsingar ef mark má taka á því sem hv. þm. hefur sagt þannig að hann gæti hér á örskammri stundu leyst málið með þeim upplýsingum sem hann virðist búa yfir.

Og það er rétt að hv. þm. bauðst til að fara yfir þetta mál með mér. Ég þáði það og er tilbúinn til að sitja með honum hér og fá að sjá þessar tölur allar á blaði, þó það nú væri, því ég er að leita eftir þessum upplýsingum. Og ef hv. þm. býr yfir upplýsingunum þigg ég með þökkum að fá þær frá honum ef forsrn. treystir sér ekki til að veita þær.