Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 21:56:46 (2471)

2001-12-04 21:56:46# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[21:56]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég vil andmæla þeim orðum hæstv. fjmrh. að hægt sé að líkja sölu og söluhagnaði Stofnfisks og söluhagnaði af jörðinni Straumi saman, að þetta séu sambærilega gjörðir. Svo er ekki vegna þess að eignarhluti Straums var gjöf til Skógræktar ríkisins og í afsalinu segir að Skógrækt ríkisins geti farið með jörðina með gögnum hennar og gæðum án nokkurra kvaða, þ.e. kvaða á Skógrækt ríkisins, hvernig hún fari með jörðina meðan hún heldur henni og hugsar um hana.

Það skiptir máli þegar jörðin er seld hvort Skógrækt ríkisins, sú stofnun, sem á í miklum fjárhagsvanda, fái andvirði af sölunni eða hvort hluta af andvirði sölunnar verði ráðstafað til annarrar stofnunar. Garðyrkjuskóli ríkisins á líka við fjárhagsvanda að etja og það þarf að leysa hann en það á ekki að gera það með því að nota söluandvirði af jörðinni Straumi, sem Skógrækt ríkisins á.

Herra forseti. Garðyrkjuskóli ríkisins er ekki í skógræktarverkefnum, ekki rannsóknum og hefur ekkert með skógrækt að gera. Þess vegna er verið að fara á svig við kvaðirnar með því að veita fjármuni sem Skógrækt ríkisins á til annarrar stofnunar. Við eigum að leysa fjárhagsvanda Garðyrkjuskólans á annan hátt.