Tollalög

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 22:38:07 (2479)

2001-12-04 22:38:07# 127. lþ. 42.2 fundur 319. mál: #A tollalög# (tollkvótar og tollar af tóbaki) frv. 146/2001, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[22:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Hér er ekki um að ræða umsvifamikið eða langt frv. Efnisgreinar þess eru aðeins tvær.

Í 1. gr. frv. er lagt til að fjármálaráðherra fái heimild til þess að úthluta tollkvótum vegna innflutnings samkvæmt milliríkja- og alþjóðasamningum, að því leyti sem innfluttar vörur falla ekki undir viðauka tollalaga um landbúnaðarvörur. Tilefni að lögfestingu þessa ákvæðis er samningur Íslands og Noregs, sem gerður var í mars árið 2000, um gagnkvæma tollfrjálsa tollkvóta á íslenskum hestum annars vegar og á norskum kartöfluflögum og ostum hins vegar.

Í 6. gr. A í tollalögum, nr. 50/1987, er að finna reglur um hvernig skuli standa að úthlutun tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur, og er úthlutun slíks kvóta á forræði landbúnaðarráðherra. Lagareglur hefur hins vegar skort um úthlutun tollkvóta í öðrum tilvikum, svo sem þegar tollkvótar eru ákveðnir í einstökum fríverslunarsamningum. Því skortir nú lagaheimild til úthlutunar tollkvóta fyrir norsku kartöfluflögurnar samkvæmt samningnum við Norðmenn, en með frv. þessu er lagt til að úr því verði bætt. Gert er ráð fyrir að úthlutun tollkvóta samkvæmt ákvæðinu heyri undir fjmrh., en fjmrh. getur falið ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning búvara að gera tillögu um úthlutun tollkvótanna. Er það gert af hagkvæmnisástæðum þar sem sú nefnd sér um úthlutun tollkvóta í umboði landbrh. og er því hagkvæmast að hún muni annast framkvæmdina í þeim fáu tilvikum sem tollkvótum verður úthlutað samkvæmt þessu nýja ákvæði.

Í 2. gr. frv. er lagt til að tollar af tóbaki verði lagðir niður. Ekki er gert ráð fyrir að gjaldtaka ríkisins af tóbaki lækki í kjölfarið þar sem samhliða er lagt til í öðru frv., þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, að greiða skuli til ríkissjóðs sérstakt gjald, tóbaksgjald, af tóbaki sem flutt er hingað til lands eða framleitt hér á landi.

Ástæðan fyrir því að þessi breyting er lögð til nú er ekki síst sú að Ísland hefur skuldbundið sig með breytingu á bókun 3 við EES-samninginn að fella niður tolla af tóbaki sem flutt er inn frá Evrópska efnahagssvæðinu frá og með 1. janúar 2002. Í stað þess að fara þá leið að fella eingöngu niður tolla af tóbaki sem kemur frá Evrópska efnahagssvæðinu og skapa þannig mismunun að því er varðar innflutning á tóbaki frá öðrum löndum, er hér með ákveðið í þessu frv. að leggja til að tollar almennt falli niður á þessari vöru, þar á meðal frá stærstu viðskiptalöndunum eins og t.d. Bandaríkjunum, en í staðinn komi sérstakt tóbaksgjald sem er eins konar vörugjald. En um það þarf þá að setja sérstök ákvæði í áðurgreind lög nr. 96/1995, sem mun vera næsta mál hér á dagskrá, herra forseti.

Virðulegi forseti. Tilefni frv. er sem sagt annars vegar að gera íslenska ríkinu kleift að standa við samninga sem gerðir hafa verið á alþjóðavettvangi, auk þess sem lagt er til að hinni formlegu og opinberu gjaldtöku af tóbaki verði breytt.

Herra forseti. Ég legg til að þessu málið verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn., en vek jafnframt athygli á því að vegna þess að breyting er í vændum á bókun 3 við EES-samninginn --- hún tekur gildi um næstkomandi áramót --- er nauðsynlegt að þetta mál fái afgreiðslu í Alþingi fyrir jólaleyfi.