Vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 13:44:34 (2485)

2001-12-05 13:44:34# 127. lþ. 43.91 fundur 198#B vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar hefur þetta mál þegar verið rætt í þinginu. Umbeðnar upplýsingar hafa verið afhentar í fjárln. sem trúnaðarmál. Ég held að eðlilegast sé að umræðan um það mál haldi áfram í þeirri nefnd. Það er ósköp venjulegt í öllum samskiptum að trúnaður sé um ákveðnar upplýsingar. Það eru lög í landinu sem líka krefjast þess. Stundum krefjast aðstæður þess. Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar að halda áfram að ræða þetta mál hér.

Hins vegar finnst mér rétt að það verði áfram rætt á þeim vettvangi sem það er á, þ.e. í fjárln., þar á meðal hvenær sé tímabært að létta þeim trúnaði af. Ég sé engan annan framgangsmáta eðlilegan í því. Ég hlýt að spyrja hv. þm.: Hefur hann aldrei lent í því sem forsvarsmaður í bæjarfélagi með viðamikinn rekstur að stundum þurfi að ríkja trúnaður í ákveðnum málum? Ég er aldeilis hissa á því að ... (ÖJ: Er þetta ekki eitthvað sem ekki þolir dagsljósið?) Ég reikna með að hv. þm. Ögmundur Jónasson sem er forustumaður í ákveðnum lífeyrissjóði --- ég býst við að til séu upplýsingar í þessum lífeyrissjóði sem varða persónur einstaklinga sem rétt er að hafa trúnað um. Eða er það þannig að allt sem þar gerist sé borið á torg daginn eftir?