Vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 13:47:59 (2487)

2001-12-05 13:47:59# 127. lþ. 43.91 fundur 198#B vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að vinnubrögðin öll í kringum fjárlagagerðina nú og vinnu að fjáraukalagafrv. eru dapurleg. Samskiptin við framkvæmdarvaldið eru eins og allir hafa heyrt og séð hér undanfarna sólarhringa. Forsrn. fer þar í broddi fylkingar og sýnir Alþingi fullkomna lítilsvirðingu og hroka og reynir að telja mönnum trú um að eðlilegt sé að leyna öllum upplýsingum um það hvernig 300 millj. kr. af opinberu fé sé varið á sama tíma og ráðuneytið er að fara fram á að fá þessa sömu fjármuni í aukafjárveitingum vegna verkefna sem það hefur e.t.v. þegar bundið fé í. Ósvífninni eru lítil takmörk sett, verð ég að segja. ,,Látið okkur hafa 300 millj. og ykkur kemur ekki við hvernig þær eru notaðar.`` Þetta er á mannamáli það sem forsrn. er að segja við Alþingi.

Herra forseti. Auðvitað var öllum ljóst að 2. umr. um fjárlagafrv. var platumræða. Þá skorti allar forsendur til að ræða það efnislega og hvorki var verið að loka neinum útgjaldaflokkum né tekjuhliðinni. Og ný þjóðhagsáætlun er dagsett í gær með nýjum þjóðhagsforsendum þar sem allt er á floti miðað við það sem áður hefur verið þannig að það bítur höfuðið af skömminni ef menn ætla svo að hespa 3. umr. af á föstudaginn kemur. Ég mótmæli því. Það er enginn svipur á þessum vinnubrögðum, herra forseti. Það er ekki Alþingi til sóma að ríghalda svo í einhverjar löngu útgefnar starfsáætlanir og dagsetningar að við látum þær frekar en efnisleg og vönduð vinnubrögð stjórna gerðum okkar hér. Það er ekki skynsamlegt.

Það væri frekar, herra forseti, einhver svipur á því að menn tækju sér helgina í að skoða niðurskurðartillögurnar sem stjórnarflokkarnir hafa verið að rífast um fram á þennan dag, nýjar þjóðhagsforsendur og annað sem breyst hefur í meðförum málsins og hér færi svo fram umræða t.d. á þriðjudaginn kemur.