Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:01:08 (2494)

2001-12-05 14:01:08# 127. lþ. 43.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er vitað að leyniþjónustur stórvelda hafa stundum aðgang að leyndum sjóðum, jafnvel svo leyndum að þeim er haldið utan við fjárlög. Ýmsar sögur væri hægt að segja af verkefnum vítt um heim sem slíkir sjóðir hafa fjármagnað. Sá er að vísu munurinn á þeim og leynisjóði ríkisstjórnarinnar að brúttótalan á að fá að koma inn í fjárlögin, en það er líka allt og sumt, brúttótalan. Að öðru leyti er verið að búa til sérstakan leynisjóð fyrir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar til að smyrja hjólin og ráðstafa eftir ,,behag`` í eitt helsta gæluverkefni þessarar ríkisstjórnar fyrr og síðar, einkavæðingartrúboðið, þannig að betur gangi að moka út eignum almennings og helst koma þeim til útlanda.

Herra forseti. Það er eftir öðru og hæfir þessum málstað vel að hann skuli þurfa á svona pukri og leynimakki að halda. Það segir sína sögu að vinnubrögðin og ráðstöfun þessara fjármuna, sem eru líka fé almennings, skuli þurfa að fara fram með leynd og sjálfsagt helst í náttmyrkri enda nóg af því núna í skammdeginu.

Það er algerlega ótækt, herra forseti, að Alþingi láti koma svona fram við sig. Mér finnast þeir hv. þm. sem ætla að greiða þessum leynisjóði ríkisstjórnarinnar atkvæði, gengisfella sjálfa sig og þingið þar með með því að láta framkvæmdarvaldið komast upp með svona framkomu gagnvart Alþingi. Ýmislegt hefur stofnunin mátt þola í samskiptum við ráðríka stjórnarherra en þetta held ég að sé það fráleitasta af öllu og brjóti í blað í sögunni að forsrn. eða embættismenn þaðan sendi Alþingi orðsendingar um að þá vanti 300 millj. en láti fylgja með svo gott sem samdægurs að því hinu sama Alþingi komi hins vegar ekki við hvernig fénu sé ráðstafað, það skuli allt saman vera leyndó.

Hverjir verða svo leynisjóðir framtíðarinnar? Ég sé ekki annað ef menn láta ríkisstjórnina komast upp með þetta en að hún sé komin með formúlu til þess að sveipa leyndarhjúpi þá þætti ríkisfjármálanna sem henni sýnist. Hæstv. utanrrh. þarf ekki annað en fá einn einkaaðila til að taka að sér eitt verkefni fyrir eins og eina krónu og þá getur hann mætt hér að ári og sagt við þingið: ,,Ykkur kemur ekki við hvernig 350 millj. vegna NATO-fundarins var ráðstafað vegna þess að það verður að fara leynt af viðskiptahagsmunalegum ástæðum o.s.frv.``

Og það bítur höfuðið af skömminni að þetta skuli gerast, herra forseti, í tengslum við afgreiðslu fjáraukalaga þegar framkvæmdarvaldið ætti að vita upp á sig skömmina og biðja Alþingi afsökunar á því að hafa vanætlað fjárþörf sína í þessu efni.

Herra forseti. Ég lýsi miklum vonbrigðum með það ef þetta á svona fram að ganga og trúi því satt best að segja ekki fyrr en ég tek á því að menn láti koma svona fram við sig.