Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:04:44 (2495)

2001-12-05 14:04:44# 127. lþ. 43.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við umræður um fjáraukalög í gær lagði ég fram kröfu um að fjáraukalögin yrðu ekki afgreidd á þinginu fyrr en komið hefðu fullnægjandi svör, opin öllum, bæði fjárln. og Alþingi, um þær 300 millj. kr. sem ætlunin er að verja og kannski er búið að verja til einkavæðingarverkefna sem einkavæðingarnefnd fer með á vegum ríkisins. Þessar upplýsingar hafa ekki komið fram. Þess vegna tel ég að fresta eigi þessari umræðu og afgreiðslu málsins þangað til þær upplýsingar liggja fyrir.

Herra forseti. Fjáraukalögin eru hér til afgreiðslu og ætlunin er að afgreiða þau í mikilli óvissu. Tekjuhlið fjáraukalaganna er í fullkominni óvissu. Þar er enn gert ráð fyrir að yfir 20 milljarðar kr. skili sér við sölu ríkiseigna, sem enn hefur ekki átt sér stað og sem betur fer, segi ég, því að ég er að sjálfsögðu andvígur því að Landssíminn verði settur á uppboðstorg. Engu að síður er gert ráð fyrir þessum tekjum í fjáraukalögin, í tekjur þessa árs og því er tekjuahlið frv. í fullkominni óvissu. Sömuleiðis eru aðrir tekjuliðir, svo sem gjöld af vöruinnflutningi, í fullkominni óvissu vegna örs samdráttar í kaupum á slíkum vörum.

Herra forseti. Hér er því verið að samþykkja fullkomin óvissufjáraukalög í lok þessa árs, svo mikil er óvissan fram undan. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði ásamt þingmönnum Frjálslynda flokksins höfum flutt brtt. við frv. sem lúta að því að styrkja og efla fjárhag sveitarfélaganna og að því að taka heildstætt á málefnum þeirra á landsvísu, þeirra sem nú eiga í miklum greiðsluerfiðleikum, greiðsluerfiðleikum sem eru m.a. til komnir af rangri efnahags- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar sem bitnar hart á dreifbýlissveitarfélögunum sem verða nú að selja eignir sínar til að eiga fyrir rekstri.

Herra forseti. Við munum sitja hjá við atkvæðagreiðslu um ýmsa aðra málaflokka, en að sjálfsögðu samþykkja tillögu um að fella burt þær 300 millj. kr. sem ætlaðar eru til einkavæðingarverkefnanna. Við teljum að alls ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar sem réttlæti að þingið afgreiði þessar 300 millj. og leggjum því til í tillögum okkar að þær verði felldar brott.