Úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:45:17 (2520)

2001-12-05 14:45:17# 127. lþ. 44.1 fundur 243. mál: #A úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta mál stendur ekki vel því að svör hæstv. ráðherra, að svo miklu leyti sem þau voru svör, voru nei og nei. Að hinu leytinu var algerlega þokukennt hvert hæstv. ráðherra var að fara. Ég vona að það hafi ekki átt að skilja eða ráða í þessa latínu hæstv. ráðherra á þeim nótum að nota eigi það sem tylliástæðu fyrir því að efna ekki þau fyrirheit sem voru kynnt þegar bændum var kynnt efni samninganna og áttu án efa þátt í því að t.d. bændur á sauðfjárræktarsvæðum sem gerðu sér vonir um stuðning úr þessum potti voru jákvæðari í garð samningsins en ella, að nú eigi að nota það sem tylliástæðu að enn vanti 2--3 þúsund ærgildi upp á uppkaupin til þess að efna ekki þetta fyrirheit. Það er auðvitað búið að kaupa miklu meira en nóg til að hægt sé að endurúthluta þessum 7.500 ærgildum eða ígildi þeirra í fjármunum og í raun og veru er þetta nokkurn veginn komið. Ég tel því algerlega óforsvaranlegt að ætla að nota þetta sem tylliástæðu til að drepa málinu á dreif. Og heldur hefur verklagið verið slælegt að ekki skuli enn vera búið að útfæra svæðin og skipta um reglur.