Úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:49:19 (2523)

2001-12-05 14:49:19# 127. lþ. 44.1 fundur 243. mál: #A úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Já, ég get tekið undir að auðvitað hefði verið æskilegt að þessi uppkaup hefðu gengið hraðar og klárast og nýr tími sem menn bíða eftir hefði litið dagsins ljós á þessu hausti. Því miður er það ekki. Menn halda fast í sauðfé sitt og þykir vænt um það.

Hins vegar hef ég alltaf afskaplega gaman af því þegar hæstv. fyrrv. landbrh., Steingrímur J. Sigfússon, kemur hér upp og hefur hátt, talar um að menn efni ekki fyrirheit, tali þokukennt o.s.frv. Ráðherrann sem sat og hjó á útflutningsbætur í samningum með einu pennastriki og kannski sá ráðherra sem sat í þeirri dýflissu að landbúnaðurinn og ekki síst sauðfjárræktin færðist inn í þá þungu kreppu sem við nú erum að reyna að vinna okkur úr. Stundum halda menn að þjóðin og þeir sem eru á þinginu séu gleymnir og geti hlustað á hvað sem er. Það er ekki því að heilsa. Þess vegna er það nú svo að hv. þm. verður að axla sína byrði eins og hver annar og hann var starfandi landbrh. Nú erum við að reyna að greiða úr þessu, gerðum glæsilegan nýjan samning við sauðfjárbændur sem verður efndur og staðið verður við öll hans fyrirheit og hann hefur þegar haft góð áhrif í landinu til að rétta þennan atvinnuveg við og í honum eru mörg ný og glæsileg tækifæri sem munu efla sauðfjárræktina. Við erum því á réttri leið.

Ég þakka formanni Byggðastofnunar fyrir undirtektir hans í málinu. Og hvað varðar þessi 7.500 ærgildi, þá þarf þar niðurstöðu. Það er vandi að finna og ná sátt um þau byggðasvæði sem fá þá úthlutun en við munum takast á við það eins og annað sem nú stendur að þessum málum.