Útflutningsskylda sauðfjárafurða

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:04:07 (2531)

2001-12-05 15:04:07# 127. lþ. 44.2 fundur 259. mál: #A útflutningsskylda sauðfjárafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. greið og góð svör um þetta mál sem er í eðli sínu allviðamikið og viðkvæmt að því leyti að það snertir beinlínis hag starfandi bænda. Í því samhengi er rétt að geta þess að þeir starfa undir þeim áskilnaði bæði búvörulaga og búvörusamnings að þeim er ekki gert kleift að flytja atvinnuréttindi sem við köllum greiðslumark á milli sauðfjárbúa þannig að allar hagræðingar þeirra eru bundnar af lögum og samningi sem var ekki gerður af þeim sjálfum heldur samtökum þeirra og ríkisvaldinu.

Það verður að segjast eins og er að heimildir sláturleyfishafa birtast í þessu sem óþarflega rúmar. Ég hef áður bent á það í umræðu um þessi mál að heimildir þeirra til hagræðingar, samkvæmt samningnum og lögunum, eru rýmri en bændanna sjálfra, eins og kemur fram í þessu, til þess að flytja afurðir beinlínis á milli innanlandsmarkaðar og útflutnings sem snertir hins vegar beint viðskipti bænda við þessi fyrirtæki.

Ég vænti þess að þetta mál verði rannsakað til hlítar og að dregið verði fram hvernig bændur fá endanleg skil, hvort brot hafi átt sér stað á búvörulögum eða einhverjum öðrum og sérstaklega að bændum verði gerð grein fyrir því hvaða áhrif þetta mál mun hafa á innanlandsmarkað á næstu árum. Það er enginn efi á því að sú nauðsyn að ljúka þessu máli með því að setja útflutningsafurðir á innanlandsmarkað mun hafa áhrif, ef ekki á næsta ári þá öllu lengur. Síðan tel ég brýnt að breytt verði ákvæðum laganna og samningsins sem meina sauðfjárbændum að flytja réttindi á milli búa til að hagræða.