Greiðslumark í sauðfjárbúskap

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:09:24 (2534)

2001-12-05 15:09:24# 127. lþ. 44.3 fundur 260. mál: #A greiðslumark í sauðfjárbúskap# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr:

,,Hve mikil hafa uppkaup ríkissjóðs á greiðslumarki samkvæmt ákvæðum búvörusamnings orðið og hver var viðmiðun búvörusamningsins?``

Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur annast uppkaup á greiðslumarki í sauðfé samkvæmt ákvæðum samninga um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars árið 2000. Í samningnum eru ákvæði um að keypt verði upp 45 þús. ærgildi sauðfjárgreiðslumarks og hófust uppkaup samkvæmt því árið 2000. Það ár voru keypt upp 35.107 ærgildi sem hinu háa Alþingi hefur verið gerð grein fyrir í sérstakri skýrslu. Á þessu ári var því óskað eftir kaupum á mismuninum eða um 10 þús. ærgildisafurðum. Komnar eru beiðnir um sölu á 7.455 ærgildisafurðum. Ókeyptar eru því tæplega 2.500 ærgildisafurðir sem verða keyptar eftir að uppkaupum í ár lýkur.

Eins og hér kom fram undir annarri fyrirspurn áðan þá er þetta mál ekki lengra komið en þetta. Menn halda fast í sauðfé sitt og fleiri en hér eru nefndir hafa ekki viljað selja þannig að þetta mál frestast. En hin frjálsa sala sem rætt er um á auðvitað að koma til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2004 samkvæmt samningnum.

Síðan spyr hv. þm.:

,,Hvenær og hvernig koma til framkvæmda ákvæði búvörusamnings um frjálst framsal greiðslumarks?``

Frjálst framsal greiðslumarks verður þegar keyptar hafa verið upp 45 þús. ærgildisafurðir og eins og ég sagði eigi síðar en 1. janúar 2004. Framsal greiðslumarks tekur gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Bændasamtökum Íslands skal tilkynna framsal á greiðslumarki milli lögbýla fyrir 15. janúar ár hvert vegna beingreiðslna fyrir viðkomandi ár.

Ég vil segja að það er auðvitað mikilvægt sem hv. þm. ræðir um ákveðið frelsi atvinnugreinarinnar og að fjötrar séu sem minnstir. Það held ég að sé mikilvægt í mínum huga. En á hitt ber að líta að auðvitað er það áhyggjuefni í þessu ekkert síður en í mjólkinni að framleiðsluréttur í mjólk hefur t.d. verið að seljast mjög dýrt til framtíðarinnar og kann að hafa áhrif á samkeppnisstöðu bæði bænda og búgreinarinnar. Þess vegna er kannski ekki ljóst enn þá hvernig þessi réttur selst manna á milli. En ég held að mjög mikilvægt sé að fara yfir það að þetta gerist með þeim hætti sem best hentar atvinnugreininni og styrkir þá best í sessi sem áfram ætla að starfa við landbúnaðinn í þessu landi. Eins og ég hef margsagt úr þessum ræðustól á íslenskur landbúnaður nýja og meiri möguleika. Bæði er það að Íslendingar hafa áttað sig á hinum heilnæma og góðu vörum sem landbúnaðurinn gefur af sér og ekki síður hitt að erlendir aðilar horfa í vaxandi mæli til hinnar hreinu náttúru og hinna góðu afurða sem við höfum upp á að bjóða. Sjást gleggst merki þess í Bandaríkjunum og fyrirspurnir koma víðar að. Síðast í gær bárust á mitt borð fyrirspurnir frá Japan um innmat o.fl. þannig að það eru ýmsir nýir möguleikar. Þess vegna er mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður nefndi, að reyna að hafa atvinnuveginn sem best staddan til þess að mæta nýjum tímum og nýrri þróun. Það er öllum fyrir bestu.