Rýmingaráætlanir

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:42:43 (2546)

2001-12-05 15:42:43# 127. lþ. 44.5 fundur 294. mál: #A rýmingaráætlanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er rætt um rýmingaráætlanir fyrir heilbrigðisstofnanir. Sérstaklega var í fyrirspurn fyrirspyrjanda spurt um Ljósheima á Selfossi. Ég kannast aðeins við þá stofnun og þekki til aðstæðna þar. Það er auðvitað ljóst að húsnæðisaðstaða langlegudeildarinnar á Ljósheimum er barn síns tíma, rekin í gamla sjúkrahúsinu á Selfossi og uppfyllir ekki allar þær nútímakröfur sem eru gerðar til slíks húsnæðis.

Hins vegar hafa stjórnendur og starfsfólk stofnunarinnar lagt sig mjög fram um það að gæta öryggis sjúklinga og starfsfólks sem best, m.a. í samstarfi við slökkviliðið eins og komið hefur fram.

Aðalmálið varðandi Ljósheima á Selfossi er auðvitað, hvernig sem á það mál er litið, að mjög aðkallandi er að hið fyrsta verði ráðist í nýbyggingu þar sem þessari aðstöðu verði komið fyrir í nútímahúsnæði við bestu aðstæður. Fyrir alla sem til þekkja er það brýnast fyrir framtíðina að sem fyrst verði ráðist í að koma þessari starfsemi í það horf sem nútímaþarfir krefjast.