Vandi of feitra barna og ungmenna

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 16:02:52 (2556)

2001-12-05 16:02:52# 127. lþ. 44.6 fundur 304. mál: #A vandi of feitra barna og ungmenna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður og þau innlegg sem hafa komið um þetta mál.

Ég vil bæta við svar mitt við fyrirspurninni. Ég tel að það sem heilbrigðiskerfið getur gert við þessu vandamáli sé að efla forvarnaþáttinn. Við höfum verið að vinna á því sviði undanfarið að reyna að samhæfa þá hópa sem vinna að forvörnum í landinu.

Ég tek alveg undir það að orð og gerðir heilbrigðisstarfsfólks vega þungt í þessu efni. Heilbrigðisstarfsfólkið hefur mikil áhrif. Mér dettur t.d. alltaf í hug hv. 5. þm. Austurl. þegar ég heyri um tóbaksvarnir. Hv. þm. hafði mikil áhrif á því sviði og er dæmi um starfsmann heilbrigðiskerfisins sem hafði mikil áhrif og vafalaust er það hægt í þessu efni einnig. Ég endurtek það að auðvitað gildir það sama um miklu fleiri aðila í þjóðfélaginu, eins og reyndar kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. varðandi skólamáltíðir og aðra aðstöðu sem börn og unglingar hafa í samfélaginu. Allt þetta hefur áhrif. Fjöldamargir þurfa því að koma að málum. Vandinn er að samhæfa forvarnastarfið. Lýðheilsumiðstöð og lýðheilsufélag eins og var verið að stofna í fyrradag hér í bæ hefur áreiðanlega áhrif í þessu efni. Ég tek undir að hér er um mjög alvarlegt heilbrigðisvandamál að ræða sem þarf að bregðast við eins og öðrum sem upp koma.