Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:26:26 (2559)

2001-12-06 11:26:26# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég sendi hv. efh.- og viðskn. umsögn sem m.a. benti á áhrif skattalækkana á hagnað fyrirtækja, á gengi hlutabréfa þeirra, og þess að nú ætlar ríkið að selja hlutafélög fyrir u.þ.b. 68 milljarða, atriði sem ekki kom fram í greinargerð með frv. Ég rökstuddi að þessi lækkun úr 30% í 18% mundi hækka verð þessara fyrirtækja, að öðru óbreyttu, um tæpa 12 milljarða. Allur pakkinn átti að kosta 4. Svo benti ég á að enn frekari lækkun skattprósentu í 11%, sem ég tel vera pólitískt framkvæmanlegt, mundi lækka tekjur ríkissjóðs að óbreyttum skattstofni um u.þ.b. 1,6 milljarða til viðbótar en hækka verð þessara fyrirtækja um tæpa 7 milljarða. Í þeim skilningi er því afskaplega skynsamlegt að fara með skattprósentuna eins lágt og hægt er, miðað við þá stöðu sem við erum í í dag, að til stendur að selja ríkisfyrirtæki fyrir tæpa 70 milljarða.

Ég sé hvergi í gögnum nefndarinnar að þetta hafi verið rætt, sannreynt eða yfirleitt að nefndin hafi tekið nokkra afstöðu til þessa. Ég spyr hv. frsm. nefndarinnar hvort nefndin hafi virkilega ekki rætt þetta atriði, sem er þess eðlis að þessi eins skiptis hagnaður vegur margfalt upp tap ríkissjóðs.