Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:31:11 (2562)

2001-12-06 11:31:11# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:31]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt sem vantar inn í þessa jöfnu hjá hv. þm. Það er að hugsanlega gæti einhverjum kaupendum þessara ágætu fyrirtækja sem ríkið er að selja dottið í hug að ég og hv. þm. verðum ekki alltaf í meiri hluta. Við eigum eftir undir þessari umræðu að hlusta á áhuga sumra hv. þm. á því að hækka skatta á atvinnureksturinn og jafnvel þó að okkur hv. þm. tækist að lækka skatta á fyrirtæki niður í 10% er ekki víst að menn hafi þvílíka ofurtrú á því að það standist til lengri tíma. Hv. þm. hefur þegar fengið fullvissu um að markaðurinn mundi ekki endilega trúa því að skatturinn mundi haldast í 10% þannig að þessir útreikningar á hækkun á verði ríkisfyrirtækjanna mundu kannski ekki alveg ganga svona upp eins og stærðfræðiformúla sem hv. þm. þekkir vel.