Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:34:30 (2564)

2001-12-06 11:34:30# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:34]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu hafa þessi mál öllsömul verið rædd í þaula á stjórnarheimilinu. Hlutverk þessara skattbreytinga er að búa í haginn fyrir nýtt hagvaxtarskeið á Íslandi. Á árunum 1995--2000 var eitt glæstasta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar, einmitt m.a. vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á innviðum íslenska hagkerfsins, þar með talin skattlagning atvinnulífsins.

Þjóðhagsstofnun kom til efh.- og viðskn. í gær, og vissulega erum við að fara í gegnum ákveðna aðlögun á næsta ári. En þegar á árinu 2003 spáir Þjóðhagsstofnun 3% hagvexti að því tilskildu að vísu að það takist að koma álversframkvæmdum og -virkjunum í gang og ég ætla bara rétt að vona að hv. þm. standi hvorki í vegi fyrir þeim skattbreytingum sem hér er verið að leggja til, sem eru nauðsynlegar til þess að ná hagkerfinu aftur í gang, né gegn álversframkvæmdunum.