Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:40:01 (2568)

2001-12-06 11:40:01# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:40]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er ég sammála því að æskilegt væri að skilgreina betur hvert tekjur af tryggingagjaldi eigi að renna. (Gripið fram í: Er það lögbrot að ...?) Ég mundi nú ekki vilja skrifa upp á það, hv. þm., að svo sé en það er æskilegt að skilgreina þetta betur.

Varðandi þau atriði sem hv. þm. nefndi til hagsbóta fyrir litlu fyrirtækin, þá er ekkert sem skiptir meira máli fyrir litlu fyrirtækin og einstaklingsreksturinn heldur en einmitt þau ákvæði sem er að finna í frv. um heimildir til að yfirfæra á milli rekstrarforma án þess að það kosti eitthvað sérstakt í skattgreiðslum. Ekkert. Það er að sjálfsögðu hagsmunamál lítilla fyrirtækja sem stærri, þó fyrst og fremst lítilla fyrirtækja, að breyta stimpilgjaldinu og það er fyrirhugað eins og hv. þm. veit. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég hygg að tími hv. formanns Samfylkingarinnar muni hugsanlega koma síðar í umræðunni.

Varðandi landsbyggðaáhrifin hefur það að sjálfsögðu verið mikið áhyggjuefni að hagnaður fyrirtækja á landsbyggðinni hefur ekki verið viðunandi. Það er meginvandamálið. En ég hygg að með þeim breytingum sem verið er að gera gagnist þær að sjálfsögðu þeim fyrirtækjum á landsbyggðinni sem skila hagnaði og ég hef trú á því, ekki síst í ljósi þess hvernig gengið hefur þróast að undanförnu og hvernig horfir með að það verði á næstu árum, að býsna mörg fyrirtæki á landsbyggðinni muni hagnast verulega og njóta þess verulega í lægri skattgreiðslum.