Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:44:25 (2571)

2001-12-06 11:44:25# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:44]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér eru teknar til 2. umr. skattalagabreytingar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram sem eiga að hafa það að markmiði að treysta starfsskilyrði og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Samfylkingin telur mikilvægt að það verði gert, að treysta starfsskilyrði og samkeppnishæfni atvinnulífsins, m.a. með því að skattalegt umhverfi verði með því besta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði til þess að örva nýsköpun og hagvöxt. En Samfylkingin telur jafnframt að skattkerfið eigi að endurspegla jafnræði í skattlagningu og sanngirni í dreifingu á skattbyrðinni en það er langur vegur frá, herra forseti, að tillögur stjórnarflokkanna nái því markmiði. Tillögur þær sem Samfylkingin leggur fram eru mjög umfangsmiklar og í samræmi við stefnu flokksins sem í veigamiklum atriðum koma til móts við athugasemdir og gagnrýni fjölda umsagnaraðila vegna þess að ég hef sjaldan séð frv. sem liggur undir eins mikilli gagnrýni frá umsagnaraðilum og þeim sem tjáðu sig um þetta mál í efh.- og viðskn. um þessar skattalagabreytingar.

[11:45]

Helstu gallarnir á þessu frv. fela m.a. í sér:

tilfærslu á skattbyrði af fjármagni yfir á vinnuafl og launatekjur,

stærri hluti heildarskattheimtu er fluttur yfir á einstaklinga,

mismunun innan atvinnulífsins sem birtist í að þær gagnast aðallega stórfyrirtækjum sem skila hagnaði á kostnað lítilla fyrirtækja,

hér er um að ræða landsbyggðarskatt þar sem heilu landshlutarnir tapa,

láglaunafólk og lífeyrisþegar fá minnst í sinn hlut,

þetta eykur möguleika á skattasniðgöngu og tilfærslu á launatekjum yfir í arð og hagnað

og hér er um að ræða tekjutap hjá sveitarfélögunum sem getur legið á bilinu 1,5--1,8 milljarðar.

Ég spyr hæstv. fjmrh. að því hvort það hafi verið haft samráð við sveitarfélögin um þær viðamiklu breytingar sem hér er verið að gera sem fela í sér svona mikið tekjutap hjá sveitarfélögunum.

Og ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta sé í samræmi við samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga sem er undirritaður af hæstv. félmrh. Páli Péturssyni og hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde og formanni Sambands ísl. sveitarfélaga en í 8. gr. hans segir, með leyfi forseta:

,,Komi fram tillögur um meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga, sem kveðið er á um í lögum þessum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um, skulu þær teknar til umfjöllunar í samstarfsnefnd ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en þær eru teknar til formlegrar afgreiðslu hjá aðilum þessa sáttmála.``

Ég spyr hvort þetta hafi verið gert, hvort leitað hafi verið til þeirra. Eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um hefur það ekki verið gert. Það er auðvitað mjög ámælisvert að fara út í svona viðamiklar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga án þess að samráðs sé leitað hjá sveitarfélögum. Ég tel að hér sé verið að brjóta þennan samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga.

Það er athyglisvert, í grg. með frv., að helstu rök fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar eru að verið sé að fylgja þróun hjá öðrum ríkjum og að halda forskoti sem Ísland hefur haft til þessa. Í grg. með frv. er fullyrt að tekjuskattshlutfall fyrirtækja sé nú rétt undir meðallagi OECD-ríkjanna. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni, sem fram kemur í fskj. I í nál. sem ég hér mæli fyrir ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, varðandi skattgreiðslur einstaklinga og fyrirtækja kemur fram að forskot Íslands er þegar verulegt á því sviði. Þar er upplýst að af 22 ríkjum OECD eru 14 með hærra skatthlutfall en Ísland og sömuleiðis að einungis fimm ríki njóti lægra skatthlutfalls, það eru Svíþjóð, Noregur, Finnland, sem eru með 28% skatt á hagnaði fyrirtækja, Sviss með 25% og Írland með 20%.

Í sama svari er einnig upplýst um skattlagningu arðgreiðslna. Þar kemur fram að Ísland er með langlægsta skatt á arð, þ.e. aðeins um 10%. Flest ríki leggja á bilinu 25--48% skatt á arð. Það er athyglisvert að ekki eru nema tvö ríki fyrir utan Ísland sem eru með lægri skatt á arðgreiðslur, þ.e. Belgía og Ítalía. Önnur lönd innan OECD eru með hærra skatthlutfall og það verulega hærra, þ.e. á bilinu 25--48%. Hins vegar er þar líka upplýst að tekjuskattur einstaklinga á Íslandi er með því hæsta sem þekkist, sem og skattar á vöru og þjónustu. Það kemur líka fram í þessu svari.

Einnig koma fram mjög athyglisverðar upplýsingar um þróun á tekjuskatti einstaklinga og félaga innan ríkja OECD sem má finna á fskj. I. Þar kemur fram að sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa skattar á einstaklinga frá árinu 1990 til 1999 verið að þyngjast verulega hér á landi, eða úr 8,2% í 12,7%, meðan skattar á félög hafa aðeins breyst lítillega, eða úr 0,9%, sem hlutfall af landsframleiðslu, árið 1990 í 1,5% árið 1999. Skattbyrðinni hefur því í auknum mæli verið velt af fjármagni og fyrirtækjum og yfir á laun og vinnuafl síðasta áratug.

Í umsögn ASÍ er einmitt bent á að með lækkun tekjuskatts fyrirtækja, samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, verði tekjuskattshlutfall íslenskra fyrirtækja langt undir því sem gerist innan OECD. ASÍ vekur á því sérstaka athygli að á alþjóðavettvangi er slík samkeppni afar umdeild.

BSRB vekur athygli á því í umsögn sinni að lækkun á tekjuskatti fyrirtækja muni einvörðungu gagnast þeim sem sýna hagnað. Samtökin telja óeðlilegt að létt sé undir með þeim fyrirtækjum sem sýna hagnað en um leið sé tryggingagjaldið, sem lagt er á fyrirtæki óháð því hvernig þeim vegnar, hækkað og það sé auk þess skattlagning á vinnuafl.

Ef við lítum á þróunina í öðrum löndum, þegar það liggur fyrir að skattar á einstaklinga hafa hækkað verulega hér en á móti hafa skattar á fyrirtæki verið að lækka, þá hefur þróunin verið þveröfug í Danmörku, Finnlandi, Írlandi og Svíþjóð. Þar hafa skattar á einstaklinga verið að lækka, sem hlutfall af landsframleiðslu, en hafa aukist á fyrirtæki. Meðaltal skatta einstaklinga innan OECD-ríkja Evrópu var 10,6% af landsframleiðslu á árinu 1990 en þeir voru komnir niður í 10% á árinu 1999. Á sama tíma jukust hins vegar skattar á félög sem hlutfall af landsframleiðslu, úr 2,5% á árinu 1990 í 3,2% á árinu 1999.

Þetta sýnir, þvert á það sem haldið er fram í grg. með frv., að skattlagning á lögaðila á Íslandi er mjög hagstæð samanborið við aðrar þjóðir en hlutur einstaklinga í skattbyrðinni er verulega hærri hér en hjá öðrum þjóðum. Í því sambandi má líka minna á það sem fram kemur í fylgiskjali með þessu nál., að skipting á skattgreiðslum milli fyrirtækja og einstaklinga á árinu 2001 var þannig að einstaklingar greiddu samtals 83% en fyrirtæki aðeins 17%.

Það er líka athyglisvert, sem fram kemur, að fjöldi skattskyldra lögaðila á öllu landinu var á þessu ári 17.100 en af þeim greiddu einungis 7.500 tekjuskatt. Það kemur fram í svari fjmrh. við fsp. minni hér á Alþingi.

Einnig kemur fram, bæði í umsögn Þjóðhagsstofnunar og ASÍ, að það eru fyrst og fremst fjármála- og tryggingafyrirtæki sem munu njóta góðs af lækkun tekjuskatts. Er það meiningin, herra forseti, að það skuli fyrst og fremst vera fjármála- og tryggingafyrirtæki sem eiga að njóta góðs af þessari lækkun? Orðrétt segir í umsögn ASÍ: ,,Skýrist það fyrst og fremst af því að þau eiga fæst hver uppsafnað skattalegt tap og hafa skilað hagnaði síðustu ár. Hins vegar er ljóst að fyrirtæki í sjávarútvegi eiga mörg hver verulegt uppsafnað tap og munu því ekki njóta góðs af lækkun tekjuskatts á næstu missirum.``

Herra forseti. Margir umsagnaraðila gagnrýna mjög hækkunina á tryggingagjaldi, sem þeir segja að komi mjög illa við atvinnurekstur sinn, m.a. Samtök ferðaþjónustunnar sem benda á að tryggingagjöld muni hækka um rúmlega 100 millj. kr. á ferðaþjónustuna án þess að ávinningur verði á móti á næstu 2--5 árum.

Það er alvarlegt að Þjóðhagsstofnun bendir í umsögn sinni á að þekkingarfyrirtæki sem eru á frumkvöðlastigi í rannsóknum og þróun án þess að hafa tekjur á móti muni ekki njóta lækkunar tekjuskatts fyrr en eftir langan tíma. Ég bendi einnig á að í umsögn ASÍ í sambandi við einstaklingshlutafélög kemur fram að endurskoða þurfi upphæð fjármagnstekjuskatts ef tekjuskattshlutfall fyrirtækja verður lækkað úr 30 í 18%. Með því að lækka tekjuskatt fyrirtækja en hækka ekki fjármagnstekjuskatt er talið að mismunur í skattlagningu fari í auknum mæli eftir uppruna tekna.

Og það er einmitt alvarlegt í þessum brtt. ríkisstjórnarinnar að mismunur í skattlagningu eftir uppruna tekna eykst. Engin rök hafa verið færð fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar að nauðsynlegt sé að ganga jafnlangt í að lækka skatthlutfall fyrirtækja og gert er í tillögum hennar, ef markmiðið er að halda skattalegu forskoti Íslands, sérstaklega þegar það er gert á kostnað lítilla og meðalstórra fyrirtækja með hækkun á tryggingagjaldi. Samfylkingin telur það ranga stefnu hjá ríkisstjórninni að létta sköttum af fjármagni og flytja þá yfir á vinnuafl og þar með mannauð.

Röksemdir stjórnarflokkanna standast ekki og sýna ljóslega að Ísland skipar sér nú þegar í röð þeirra þjóða þar sem skattar á fyrirtæki eru hvað lægstir.

Það er því alveg útilokað, herra forseti, að við getum mælt með því að skatthlutfall fyrirtækja verði lækkað um 12%, eða úr 30% í 18%. Kostnaði við lækkunina á að verulegu leyti að mæta með hækkun tryggingagjalds sem, eins og ég hef sagt, bitnar á fyrirtækjum með mikla launaveltu en lítinn hagnað, og fyrirtækjum á landsbyggðinni og sprotafyrirtækjum sem ekkert eiga annað en mannauð. Áhrif hækkunar tryggingagjalds eru rakin í nál. en sú mikla lækkun á tekjusköttum fyrirtækja sem ríkisstjórnin leggur til stóreykur jafnframt líkur á skattasniðgöngu, eins og rökstutt er í nál. Samfylkingin telur nægilegt að lækka skatthlutfall fyrirtækja úr 30% í 25%, þar sem sú lækkun dugir til að halda alþjóðlegu skattaforskoti íslenskra fyrirtækja. Eftir þá breytingu yrði Ísland með lægsta skatthlutfall innan OECD-landanna, og gildir einu, herra forseti, þó að Írland sé tekið inn í þann samanburð.

Menn hafa bent á að Írland sé einhver sérstök skattaparadís en við í minni hlutanum, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, óskuðum eftir því að ríkisskattstjóri legði mat á og gerði samanburð á sköttum hér á landi og á Írlandi, heildarsköttum og heildaráhrifum af sköttum á fyrirtæki hér á landi og á Írlandi.

Herra forseti. Hvað kemur í ljós? Það kemur í ljós að heildarskattar á Írlandi á árinu 2001, þ.e. í ár, voru á bilinu 53,6%--56,5% en á Íslandi 37%. Þegar litið er til ársins 2003, þegar þessar breytingar eru komnar inn sem ríkisstjórnin leggur hér til, verða heildarskattarnir á Írlandi 49,3%--56,5% en á Íslandi 26,2%.

Skatthlutfall einstaklinga, en þar er stighækkandi tekjuskattur á einstaklinga, er 20% af tekjum einhleypings sem er með tekjur lægri en 15 þús. pund og hjóna undir tæplega 30 þús. pund en 42% ef tekjur eru hærri. Taflan sem við sýnum í nál. okkar um samanburð á Írlandi og Íslandi, og vitnum þar í útreikninga ríkisskattstjóra, sýnir að það er ýkt og villandi framsetning þegar því er haldið fram að Írland skeri sig úr öðrum löndum fyrir lága skattheimtu á fyrirtæki. Hinn lági skattur þar er eingöngu á tekjur af sölu á vöru og þjónustu. Allar aðrar tekjur, t.d. tekjur af fjármagni, þóknanir o.s.frv., eru skattlagðar með 25% skatti. Þar að auki er skilyrðið fyrir lága skattinum að hagnaðurinn sé borgaður út og skattleggst útborgunin þá með 20--40% skatti hjá hluthafanum.

Einnig má benda á að skattar á lögaðila á Norðurlöndunum eru 25--28% í Noregi og Svíþjóð og Finnlandi, en hærri í Danmörku. Markmiðið sem við í Samfylkingunni viljum ná fram og leggjum mikla áherslu á, þ.e. að skattaumhverfi á Íslandi laði hingað erlenda fjárfesta og styrki starfs- og samkeppnisskilyrði íslenskra fyrirtækja, næst fyllilega með 25% skatthlutfalli á fyrirtæki, og vel það.

[12:00]

Í því sambandi er líka rétt að vekja athygli á því sem fram kemur í umsögn ASÍ að með lækkun tekjuskatts fyrirtækja verður tekjuskattshlutfall íslenskra fyrirtækja langt undir því sem gerist innan OECD og vekur ASÍ athygli á því að slíkt sé afar umdeilt á alþjóðavettvangi. Það er sérstök athygli vakin á því og undir þetta tekið í umsögn Þjóðhagsstofnunar.

Herra forseti. Ég ætla næst að víkja að tekjuáhrifunum og hvaða áhrif þessar tillögur hafa nái þær fram að ganga á tekjutap ríkissjóðs. Verið er að lækka tekjuskattinn úr 30% í 18% og það þýðir umtalsvert tekjutap. Athyglisvert er að skoða þær upplýsingar sem embætti ríkisskattstjóra hefur birt efh.- og viðskn. um hvernig álagning á lögaðila eftir skatttegundum hefði breyst hefðu skattatillögur ríkisstjórnarinnar verið komnar til framkvæmda við síðustu álagningu. Samkvæmt því sem ríkisskattstjóri upplýsir hefði tekjuskattur lögaðila orðið 3,7 milljörðum kr. lægri en fjmrn. hefur haldið því fram að tekjutapið vegna lækkunar á tekjuskatti lögaðila sé um 2,7 milljarðar við lækkun á tekjuskatti úr 30% í 18%. Hér skeikar um milljarði ef þessi samanburður er notaður.

Síðan er eitt mjög athyglisvert sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um. Í útreikningum fjmrn. og ríkisskattstjóra er ekki reiknað með tekjutapi á stóriðjufyrirtækjum eins og Norðurál eða Ísal sem eru með sérstaka skattasamninga. Hvaða áhrif hefði það ef þessir aðilar mundu óska eftir að ganga inn í breytt skattaumhverfi með lægri tekjuskatti? Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í Morgunblaðinu í júní á þessu ári var hagnaður Ísals fyrir skatta um 4,5 milljarðar kr. og skattgreiðslur þess um 1,4 milljarðar kr. Sé miðað við þetta og að lækkun tekjuskatta á félög samkvæmt frv. er 40% má áætla að sambærileg lækkun skatta hjá Ísal hefði orðið 560 millj. kr. Hér er því um að ræða tekjutap hjá ríkissjóði upp á 560 millj. kr. til viðbótar því tekjutapi sem fjmrn. hefur áætlað vegna skattbreytinganna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki rétt skilið að í útreikningum fjmrn. sé ekki gert ráð fyrir því að stóriðjufyrirtækin eins og Ísal og Norðurál séu með í þeim útreikningum sem sýna tekjutap upp á 2,7 milljarða, og getur ekki verið um umtalsvert tekjutap að ræða til viðbótar ef Ísal kýs að ganga inn í þetta nýja skattaumhverfi? Ég sé ekki betur af þeim sérstöku samningum sem gerðir hafa verið við Ísal en að þeir hafi til þess fulla heimild.

Við sýnum í töflu í nál. hvaða áhrif þetta hefði og þá erum við að miða við skattlagningu eins og hún var miðuð við hagnað Ísals á þessu ári sem vel má vera að verði annar á næsta ári. Miðað við þær forsendur og tölur sem við höfum breytist þetta í þá veru, skipt eftir kjördæmum, að skattatapið vegna Reykjaness, ef við lítum á það umdæmi, er 560 millj. kr. meira og skattatap ríkissjóðs er á bilinu 500--600 millj. Gerir hæstv. fjmrh. ráð fyrir að Ísal muni óska eftir því að taka upp skattasamningana sem við þá eru og hvað áætlar hæstv. fjmrh. að það þýði í auknu tekjutapi fyrir ríkissjóð miðað við það að lækka skatthlutfallið úr 30% í 18%?

Það kom fram hjá mörgum umsagnaraðilum að óvissa sé um að þessar skattalækkanir muni leiða til svo mikilla aukinna efnahagsumsvifa að þau séu metin á 3,5 milljarða kr. eins og fjmrh. gerir. Meðal annars er vísað til þess að lækkun á skatthlutfalli úr 45% í 30% á síðasta áratug hafi átt verulegan þátt í efnahagsuppsveiflu liðinna ára. Þjóðhagsstofnun bendir á í umsögn sinni að tekjuauki af auknum efnahagsumsvifum sé óviss og fyrir vikið sé hyggilegt að áætla hann varlega. Stofnunin bendir á að þó að gert sé ráð fyrir auknum umsvifum í efnahagslífinu fylgi því á hinn bóginn meiri viðskiptahalli, aukinn þrýstingur á laun og meiri verðbólga. Þetta leiði aftur til meiri ríkisútgjalda og auki halla á rekstri ríkisins. Í ljósi efnahagsþróunar að undanförnu og með hliðsjón af reynslu annarra þjóða bendir Þjóðhagsstofnun á að óbeinu áhrifin gætu orðið minni þar sem heimili og fyrirtæki eru mörg hver skuldsett og því líkur á því að skattalækkanir skiluðu sér ekki í meiri umsvifum heldur yrðu notaðar til að greiða niður skuldir.

Það er auðvitað alveg rétt hjá Þjóðhagsstofnun að heimilin og fyrirtækin eru orðin mjög skuldsett. Það er umhugsunarvert, herra forseti, að í tíð þessarar ríkisstjórnar eða frá árinu 1995 hafa skuldir heimila aukist um helming og eru núna að nálgast 700 milljarða kr. og skuldir á hvert mannsbarn eru orðnar 2,4 millj. kr.

Seðlabankinn segir í umsögn sinni að hugsanlegt sé að jákvæð tekjuáhrif verði minni hér á landi en í flestum öðrum þróuðum ríkjum vegna þess að skattar á fyrirtæki séu þegar tiltölulega lágir. Líka er ljóst að skattalækkanir setja meiri kvaðir á stjórn peningamála og gætu minnkað svigrúm til vaxtalækkana. Það kemur fram bæði í umsögn frá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka.

Ég vil þá halda því til haga sem fram kom í svari Þjóðhagsstofnunar við fyrirspurn minni að meðalvextir á lán þyrftu að lækka um um það bil 0,4% til að skila fyrirtækjum og heimilum 8 milljarða kr. ávinningi á tveggja ára tímabili í formi lægri vaxtakostnaðar eins og þessar skattalækkunartillögur kosta ríkissjóð.

ASÍ gerði í umsögn sinni að umtalsefni þau efnahagsumsvif sem hér er verið að ræða um, að þau séu metin á 3,5 milljarða kr. og bendir á í umsögn sinni að ólíku sé saman að jafna nú og í efnahagssveiflunni á fyrri árum sem verið er að vitna til. Íslenska hagkerfið hafi þá verið að sigla inn í skeið mikils hagvaxtar þegar þær skattalækkanir áttu sér stað og honum hafi fylgt mikil aukning á hagnaði fyrirtækja. Varhugavert sé að gefa sér að svo verði á næstu árum þar sem líklegra sé að á næsta ári verði hér ekki mikill hagvöxtur.

ASÍ gagnrýnir líka í umsögn sinni að þessar aðgerðir muni leiða til samdráttar í stað eflingar atvinnulífsins. Ástæðan sé einföld. Skattur á launaútgjöld fyrirtækja hafi nákvæmlega sömu áhrif og launahækkunin sjálf, þ.e. kostnaður fyrirtækja hækki og rík tilhneiging sé hjá stjórnendum að velta slíkum skattahækkunum bent út í verðlagið og leiði það til þess að kaupmáttur almennings minnkar. Lækkun tekjuskatts fyrirtækja hjálpi hér lítið því að minnkandi tekjur fyrirtækjanna hafi miklu umfangsmeiri áhrif á fjárfestingarákvarðanir heldur en tekjuskattur af væntum afrakstri.

Ég spyr, herra forseti, hæstv. fjmrh. miðað við þessa umsögn ASÍ og að kjarasamningar eru nú í uppnámi, m.a. vegna aukinnar verðbólgu: Hvaða áhrif hefur það á þær viðræður sem væntanlega eiga sér stað milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar að hækka tryggingagjaldið með þeim áhrifum sem ASÍ er hér að lýsa? Verðlagsáhrifin af þessu eru nokkur og Þjóðhagsstofnun metur það að þetta leiði til hækkunar um 0,3--0,4%, það séu verðlagsáhrifin af hækkun á tryggingagjaldinu. Það er líka umhugsunarvert þegar þessar skattalagabreytingar skila svo litlu til fólks með lægstu tekjurnar að það skuli þá þurfa að bera slíka hækkun í tryggingagjaldi í formi hærra verðlags sem rýrir auðvitað kjör þeirra. Ég spyr, herra forseti, hæstv. fjmrh. hvort hann telji ekki að hækkun á tryggingagjaldi geti sett kjarasamningana í meira uppnám en þeir eru í núna og vísa þar til umsagnar ASÍ.

Ríkisskattstjóri bendir á að skattalækkunin á 10. áratugnum átti ekki að leiða til skattalækkana því að samhliða var skattstofninn breikkaður. Jafnframt benti ríkisskattstjóri á að hæpið sé að heimfæra tekjusveiflu og uppgang í efnahagslífi til skattalækkana. Engar óumdeildar kenningar séu til um að samasemmerki sé milli aukinna umsvifa og skattalækkana.

Þetta fannst mér nauðsynlegt, herra forseti, að kæmi fram vegna þess að í fskj. frá fjmrn. er lagt verulega upp úr því að skattalækkanir skili sér í auknum efnahagsumsvifum sem metin eru á 3,5 milljarða kr. Ég spyr hæstv. ráðherra: Getur hann skýrt það nánar út heldur en kemur fram í frv. og greinargerð hvenær vænta megi þá að þessi áhrif komi fram? Er það á árinu 2003? Er það á árinu 2004 eða er það eitthvað síðar? Þetta er veigamikill þáttur í því þegar maður er að meta tekjuáhrifin á ríkissjóð af skattalagabreytingunum.

Eitt helsta markmið frv. er að skattalækkun í tekjuskatti hafi veruleg áhrif til þess að laða hingað erlend stórfyrirtæki. Það er vissulega markmið sem ber að stefna að. En ég spyr: Getur verið að þær væntingar sem menn hafa í því efni, og fram koma í frv., séu of miklar?

Ég vísa þar í embætti ríkisskattstjóra sem var beðið að leggja mat á áhrif þessara breytinga á erlendar fjárfestingar. Í umsögn embættisins kemur fram að áhrif skatta á erlendar fjárfestingar ráðist ekki eingöngu af íslenskum lögum heldur einnig af þeim ákvæðum sem við eiga í heimaríki fjárfestisins og reglum í alþjóðaskattlagningu svo sem tvísköttunarsamningum. Orðrétt segir síðan, með leyfi forseta:

,,Flest ríki á Vesturlöndum hafa sömu grunnreglu varðandi skattskyldu, þ.e. að þegnarnir eru skattlagðir á grundvelli allra tekna þeirra svo sem þeirra er aflað. Enn fremur áskilja þau sér rétt til þess að skattleggja allar tekjur sem uppruna eiga í landinu óháð því hver er eigandi þeirra. Þetta þýðir að tekjur sem erlendir aðilar afla hér á landi eru skattskyldar í heimalandi fjárfestisins. Flest ríki taka í löggjöf sinni eða á grundvelli samninga tillit til skatta sem viðkomandi skattaðili greiddi í því landi sem tekjurnar eru upprunnar í. Áhrifin á arðsemi fjárfestingarinnar ráðast m.a. af því hvernig það er gert. Í sumum tilvikum, t.d. í Bandaríkjunum og Írlandi, er það gert með því að veita skattfrádrátt sem svarar til þess skatts sem greiddur var í upprunalandinu. Í þeim tilvikum hefur skattalækkun í upprunalandinu engin áhrif á fjárfestinn. Í öðrum tilvikum eru arðgreiðslur til móðurfélags undanþegnar skatti og áhrifin ráðast þá af þeim skatthlutföllum sem í löndunum gilda. Lækkun skatta á lögaðila hefur því þegar um er að ræða erlendan eiganda tvíþætt áhrif. Hluti lækkunarinnar skilar sér í auknum skatttekjum hjá heimalandi fjárfestisins og hluti hjá fjárfestinum sjálfum.``

Einnig er athyglisvert í þessu sambandi að Bandaríkin undanþiggja ekki tekjur erlendra dótturfélaga skattlagningu heima fyrir en veita frádrátt frá greiddum skatti sem nemur þeim skatti sem dótturfélagið greiddi í upprunalandi teknanna. Orðrétt segir ríkisskattstjóri síðar í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Lækkun skatta á félög í upprunalandinu hefur því engin áhrif á heildarskattgreiðslur félaganna, móður- og dótturfélags, en færa skatttekjurnar frá upprunaríkinu til þess ríkis þar sem eigandinn hefur heimilisfesti og gefur það því ekki tilefni til gagnráðstafana.``

[12:15]

Í öðru lagi kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að ríki sem hafa svokallaða CFC-löggjöf geta skattlagt hagnað dótturfélaga sem starfa á lágskattasvæðum með tekjum móðurfélagsins heima fyrir. Slíkum reglum er fyrst og fremst beint gagnvart fjármálafélögum sem ekki eru með neina raunverulega starfsemi í því ríki sem þau eru skráð í.

Herra forseti. Hvaða niðurstöðu er þá hægt að draga af þessu? Hún er einfaldlega sú, að mínu mati, að þó að skattbreytingarnar hér á landi kunni að örva erlendar fjárfestingar í einhverjum mæli er vafasamt að þær leiði til þess að erlendir fjárfestar muni hópast hingað af þeim sökum.

Mig langar næst að víkja að sköttum á einstaklinga en á síðasta áratug hefur tekjuskattur einstaklinga sem hlutfall af landsframleiðslu vaxið úr rúmlega 8% í tæplega 13% eins og ég nefndi fyrr í máli mínu. Hjá öðrum OECD-ríkjum í Evrópu er hann nú um 10%.

Ríkisskattstjóri hefur að ósk fulltrúa Samfylkingarinnar skilað til nefndarinnar áliti sínu á hver sé líkleg þróun í tekjusköttum einstaklinga vegna þessa og næsta árs.

Þar kemur fram að við álagningu á þessu ári var almennur tekjuskattur og útsvar samtals um 95,5 milljarðar kr. og skattstofninn tæpir 394 milljarðar kr. Þá var meðalskatthlutfallið um 24,2%. Það sem mér finnst athyglisvert í þessu er að þó að tekið sé tillit til þeirrar skattalækkunar sem einstaklingar fá um næstu áramót, 0,33%, yrði meðalskatthlutfallið á næsta ári engu að síður um 24,8% eða 0,6% hærra en á þessu ári þrátt fyrir þá skattalækkun sem einstaklingarnir fá.

Ef gert er ráð fyrir að persónuafsláttur hækki eins og nú er gert ráð fyrir í lögum má reikna með að tekjuskattur og útsvar hækki um 13% að óbreyttum skatthlutföllum og verði þá 108 milljarðar króna. Auknar tekjur af tekjusköttum einstaklinga milli ára eru því um 11 milljarðar kr. þrátt fyrir lækkun á almenna skatthlutfallinu í tekjuskatti um 0,33%.

Það sem er auðvitað umhugsunarvirði hér á landi er það að láglaunafólki með 90 þús. kr., lífeyrisþegum, öldruðum og öryrkjum sem eingöngu hafa sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga, skuli vera gert að greiða í skatta sem samsvarar 1 milljarði kr. Er það forsvaranlegt í velferðarríkinu Íslandi að fólk sem býr við sultarkjör sem eru þannig að ekki nást endar saman milli mánaða skuli greiða 1 milljarð í tekjuskatt? Það gerist á sama tíma og verið er að létta sköttum af fyrirtækjum eins mikið og raun ber vitni hjá þessari ríkisstjórn. Það er líka ljóst þegar litið er til skattalækkana sem voru fyrir nokkrum árum, 1997, að þetta fólk greiddi raunverulega þá tekjuskattslækkun sem þeir tekjuhærri fengu vegna þess að skattleysismörkin voru fryst.

Mér finnst orðið tímabært, herra forseti, að skoðað verði hvernig hægt er að draga úr sköttum hjá fólki sem er með þessar tekjur. En það er eins og reiknimeistarar og embættismenn geti aldrei fundið leið eða reiknað út hvernig hægt er að lækka skatta sérstaklega á þetta fólk þó að alltaf virðist vera auðvelt að finna leiðir og reikna út skattaívilnanir og skattalækkanir fyrir þá sem betur eru settir.

Til marks um óréttláta skattastefnu þessarar ríkisstjórnar er ástæða til að halda því til haga að á árinu 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við greiddu lífeyrisþegar, sem eingöngu höfðu sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga, engan skatt. Nú er svo komið að þessi hópur greiðir í skatta sem samsvarar lífeyri almannatrygginga í einn mánuð, þ.e. eins mánaðar framfærslueyrir þessa fólks sem það fær úr tryggingum, 70 þús. kr., fer í ríkiskassann. Mér finnst, herra forseti, að þetta sé til skammar og mér finnst að okkur beri skylda til þess í þinginu, stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðunni, að setjast yfir það hvernig hægt er að draga úr skattbyrði þessa fólks og lækka hjá því skattana. Við leggjum það til í tillögum okkar, fulltrúar Samfylkingarinnar, að það verði gert. Og við leggjum til í ákvæði til bráðabirgða, herra forseti, að sest verði yfir það verkefni og að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka, aðila vinnumarkaðarins og samtaka öryrkja og aldraðra sem hafi það verkefni að kanna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega skatta á launafólki og lífeyrisþegum með tekjur undir lágmarkslaunum. Mér finnst við öll hafa skyldur til þess við það fólk sem er gert að bera 1 milljarð í skatt meðan verið er að lækka skatta á þeim sem betra hafa það í þjóðfélaginu, stóreignamönnum og stóreignafólki. Mér finnst okkur bera skylda til þess. Ég er alveg viss, herra forseti, um að það er hægt að ná um það þjóðarsátt í þjóðfélaginu, og ég er viss um að við höfum hér færa reikningsmenn sem geta reiknað út hvaða leið eigi að fara, hvort það er í endurgreiðslu, í eftiráálagningu eða lækkun á sköttum. Það er gert í löndum eins og Finnlandi og Bandaríkjunum, þar er farin sérstök leið til þess að hlífa láglaunafólki við skatti.

Tillögur ríkisstjórnarinnar ganga út á það að hækka frítekjumörk í hátekjuskatti þegar á næsta ári vegna tekna þessa árs. ASÍ mótmælir þessari skattalækkun til þeirra sem eru betur settir á sama tíma og ekkert er gert fyrir þá sem minna hafa. Með því að fara þessa leið er verið að lækka skatta á einstaklinga með hærri tekjur um 600 millj. kr. Í svari ríkisskattstjóra við fyrirspurn okkar í 1. minni hluta kemur fram að þessi breyting leiðir til þess að þeir sem eru með 2 millj. kr. í tekjur fá 6.600 kr. skattalækkun eða meðallækkun á skatthlutfalli um 0,3%. Á sama tíma fá þeir sem eru með 8 millj. kr. í tekjur skattalækkun sem nemur 104 þús. kr. Hjá þeim sem njóta góðs af þessari hátekjuskattslækkun er meðallækkun á skatthlutfalli þeirra um 1,2% en hjá þeim sem eru með 2 millj. ekki nema 0,3%. Við í minni hlutanum spyrjum: Er ekki eðlilegt --- miðað við stöðu ríkissjóðs nú og miðað við það að lítið er gert fyrir þá sem eru tekjulægstir --- að fresta þessari lækkun hjá þeim sem greiða hátekjuskatt, þ.e. að fresta því að hækka frítekjumörkin í hátekjuskatti? Við leggjum það til, herra forseti, að þessi hækkun á frítekjumörkum gangi ekki fram fyrr en á árinu 2004. Við teljum miklu nær, eins og við leggjum til, að stíga skref til að lækka meira almennan tekjuskatt á árinu 2003 sem við leggjum til að verði lækkaður um 0,25%.

ASÍ bendir á það í umsögn sinni að hér sé ekki um að ræða meðaltekjur eins og þær eru skilgreindar af kjararannsóknarnefnd og segir orðrétt í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Því hefur verið haldið fram að hátekjuskatturinn sé í raun bara skattur á meðaltekjur. Það er tvennt sem villir mönnum sýn hvað þetta varðar. Annars vegar virðast margir ekki átta sig á því að þegar hátekjuskattur er reiknaður fyrir fólk í sambúð, þá eru tekjur beggja aðila lagðar saman og það sem er yfir tvöföldum hátekjumörkum 2 x 280 þúsund á mánuði (tekjur ársins 2000) er skattlagt með hátekjuskattsprósentunni 7% aukalega.``

Herra forseti. ASÍ heldur því fram og vísar þar til kjararannsóknarnefndar að þeir hópar sem ná upp að og yfir hátekjuskattsmörkin í launum séu ekki fjölmennir. Í töflu sem fylgir nefndarálitinu og fylgdi umsögn þeirra kemur fram að á árinu 2000 voru meðalatvinnutekjur hjóna og sambýlisfólks samtals 379.417 kr. á mánuði og meðalatvinnutekjur einstæðra foreldra 136.083 kr. á mánuði. Ef eingöngu er horft á meðaltekjur allra sem greiða tekjuskatt nettó eftir að bætur hafa verið dregnar frá tekjuskatti eru þær aðeins 193 þús. kr. á mánuði. En hátekjuskattur greiðist nú eftir þessa breytingu á tekjur sem eru yfir 322 þús. hjá einstaklingum og 640 þús. hjá hjónum, ef ég man þetta rétt.

Herra forseti. Ég nefndi að Samfylkingin leggur þess í stað til að lækka frekar á árinu 2003 almennan tekjuskatt einstaklinga og það er í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar sem m.a. var samþykkt á síðasta landsfundi flokksins.

Samfylkingin hefur rutt brautina fyrir því að þeir sem nýta takmarkaðar auðlindir í sameign þjóðarinnar greiði fyrir það sérstakt gjald. Stefna flokksins er að svigrúminu sem það skapar verði varið til að lækka tekjuskatta einstaklinga. Í samræmi við það leggur 1. minni hluti til að á árinu 2003 verði stiginn frekari áfangi í lækkun á almennum tekjusköttum einstaklinga og hann verði fjármagnaður með gjaldi sem tekið verði fyrir nýtingu fiskstofna. Í þeirri niðursveiflu sem nú er hafin í efnahagslífinu og samdrætti í hagkerfinu ætti það að hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið og eftirspurn í hagkerfinu. Þetta er til dæmis í samræmi við þá leið sem nú er áformuð af ríkisstjórninni í Danmörku sem hyggst lækka nokkuð tekjuskatt á einstaklinga til að svara lægð í efnahagslífinu, herra forseti. Ég vil spyrja, herra forseti, hæstv. fjmrh. hvort hann geti verið sammála þessu mati hægri stjórnarinnar í Danmörku sem ætlar að lækka tekjuskatt á einstaklinga til að svara lægð í efnahagslífinu, hvort hann telji það skynsamlega leið. En samtök atvinnulífsins þar hafa lýst stuðningi við þá leið.

Herra forseti. Ég vil næst víkja að því sem mjög var rætt í nefndinni og kom mjög fram í umsögnum, þ.e. þeim mun sem orðinn er á skatthlutfalli launafólks og fyrirtækja sem er orðinn nærri 23%. Eitt af því sem erfitt er að sætta sig við í skattatillögum ríkisstjórnarinnar er að verið er að færa skattbyrði í auknum mæli af fjármagni og eignum yfir á vinnuafl og launatekjur. Mesti munur á skatthlutfalli einstaklinga og lögaðila, nái skattatillögur ríkisstjórnarinnar fram að ganga, verður tæplega 23%. Þjóðhagsstofnun segir í umsögn sinni að það sé umhugsunarefni hversu mikið misræmi verði á milli skattlagningar einstaklinga og fyrirtækja með þessum breytingum.

Verið er að færa sífellt stærri hluti heildarskattheimtu yfir á tekjuskatt einstaklinga og hann er orðinn langtum stærri hluti af þjóðarframleiðslu en hann var fyrir nokkrum árum. Vegna meiri skattheimtu af einstaklingum eru skattleysismörkin nú lægri og meðalskatthlutfallið hærra en áður.

Fyrsti minni hluti óskaði eftir umsögn ríkisskattstjóra um hvort 22--23% munur á skattlagningu einstaklinga og félaga þekktist annars staðar og hver væri algengur munur. Þar kemur nokkuð athyglisvert í ljós. Fram kom í svarinu að yfirleitt er munur á skattlagningu launatekna og heildarskattlagningu tekna af atvinnurekstri öfugt við það sem stefnt er að í frumvarpinu, þ.e. skattur á hagnað af rekstri er hærri en skattur á launatekjur. Mér finnst það umhugsunarvirði, herra forseti, í þeim breytingum sem hér er verið að gera að almennt hjá öðrum þjóðum sé munur á skattlagningu launatekna og heildarskattlagningu í þá veru að skattur á hagnað af rekstri er hærri en skattur á launatekjur. Í flestum löndum eru sameignarfélög ekki sjálfstæðir skattaðilar en hagnaður þeirra skattlagður með öðrum tekjum viðkomandi einstaklinga. Arður á söluhagnað er í flestum löndum skattlagður eins og launatekjur eða sérskattaður með 20--25% til viðbótar við 25--35% skatt á félagið þannig að heildarskattlagningin er 40--50% sem er svipað eða hærra en hæsta skattþrep einstaklinga í flestum löndum.

[12:30]

Þegar ríkisskattstjóri er spurður um þennan mismun í skattlagningu, hvaða möguleika hann sjái á úrbótum, er svarið þetta, með leyfi forseta:

,,Eina raunhæfa úrbótin til lengri tíma litið er að afnema mismun á skattlagningu einstaklinga eftir því hvernig tekjur þeirra eru til komnar. Það má t.d. gera með því að hafa skattlagningu á einstaklinga og sameignarfélög hina sömu og stilla skattlagningu hlutafélaga og fjármagnstekjuskatt þannig af að heildarskattlagning slíkra tekna sé hin sama og almennra tekna. Meðal ráðstafana, sem að auki gætu dregið úr mismuninum og tilhneigingu til að flytja til tekjur má nefna:

Að allar tekjur, þar með taldar fjármagnstekjur, séu gerðar að andlagi sérstaka tekjuskattsins.

Að rekstrarhagnaður sameignarfélaga sé gerður að andlagi sérstaka tekjuskattsins og látinn skerða bætur eins og aðrar tekjur.``

Þetta álit ríkisskattstjóra staðfestir ótvírætt að stjórnarflokkarnir eru á rangri braut með skattastefnu sinni, sem stuðlar að ósanngirni og ójafnræði í skattlagningu bæði milli atvinnugreina og milli einstaklinga og lögaðila.

Herra forseti. Ég vil þá víkja að yfirfærslu á einkarekstri yfir í einkahlutafélög en það mál var einna mest rætt í nefndinni.

Mikil lækkun á tekjuskatti lögaðila eins og nú er fyrirhuguð mun ein og sér hvetja einstaklinga í rekstri til að breyta rekstrinum í hlutafélag og færa með því hluta launa yfir á hagnað og arð og greiða þannig lægri skatta. Skattalegt hagræði og möguleikar til skattasniðgöngu eru svo miklir með þessum breytingum að leiða má að því líkur að einstaklingsrekstur leggist af með flutningi hans yfir í einkahlutafélög.

Þetta er alvarleg þróun sem m.a. embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóri, skattstjórar, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki og ASÍ vara öll við í umsögnum sínum. Skattstjóri Vesturlandsumdæmis orðar það svo í umsögn sinni að þessi breyting muni kalla á stórfelldan flutning atvinnurekstrar frá einstaklingsformi til félagaforms. Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi segir í umsögn sinni að oft sé megintilgangurinn með stofnun einkahlutafélags sá að takmarka ábyrgð og skapa betri skilyrði til að komast hjá réttum skattgreiðslum, koma einkaútgjöldum til frádráttar og skapa skattahagræði með ýmiss konar fjármálagerningum við hlutafélagið.

Ríkisskattstjóri telur að aukinn munur í skattlagningu tekna muni leiða til aukinna vandamála við skattframkvæmd, sem erfitt og tafsamt verði að bregðast við. Líkleg afleiðing af þessum aukna mismun sé enn frekari flutningur á einstaklingsrekstri í félagsform og meiri tilhneiging en áður til að dulbúa launatekjur sem tekjur af atvinnurekstri. Ljóst er einnig að þessi breyting mun ýta undir gerviverktöku og auka skattasniðgöngu. Það kom m.a. fram hjá skattstjóra Reykjanesumdæmis. Jafnframt taldi hann --- og það er athyglisvert því að ríkisstjórnin telur að með því að herða reglur um reiknað endurgjald megi koma í veg fyrir óeðlilega yfirfærslu úr einstaklingsrekstri í einkahlutafélög --- að þótt herða ætti á reglum um reiknað endurgjald mundi það ekki miklu breyta um afleiðingar þessara breytinga.

ASÍ lýsir sig algjörlega mótfallið þessum breytingum. Það telur nauðsynlegt að herða og skýra öll ákvæði sem snúa að einstaklingshlutafélögum. Í umsögn ASÍ kemur líka fram að búast megi við mikilli aukningu á fjölda einkahlutafélaga og sömuleiðis vandamála sem snerta launagreiðslur til eigenda.

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að þessar breytingar muni leiða til þess að einstaklingsrekstur muni hreinlega leggjast af.

Áhrifanna gætir víða. Tryggingastofnun ríkisins bendir þannig á í umsögn sinni að þegar um einkahlutafélag er að ræða skipti máli hvernig afraksturinn skiptist á milli reiknaðs endurgjalds og arðgreiðslna. Ástæðan sé sú, að einungis 50% arðstekna koma til útreiknings þeirra tekna sem skerða tekjutengda bótaflokka. Skerðing bóta vegna tekna verður því minni hjá aðila sem fær endurgjald frá rekstri í formi arðgreiðslu frá einkahlutafélagi en hjá þeim sem fær endurgjald í formi hagnaðar frá einstaklingsrekstri.

Herra forseti. Ljóst er að yfirfærsla úr einkarekstri yfir í einkahlutafélag leiðir ekki einungis til verulegra skattalækkana, heldur hefur það áhrif á bótagreiðslur í almannatryggingakerfinu og skattkerfinu, eins og greiðslur vaxta- og barnabóta. Með því að taka verulegan hluta tekna út í formi arðs og söluhagnaðar skapast því einnig möguleikar til ýmissa tekjutengdra bótagreiðslna.

Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi vekur einnig athygli á hvernig menn leika sér með tilfærslur milli reiknaðs endurgjalds og hagnaðar á skattframtölum, allt eftir því hvort er hagstæðara fyrir þá sem sýnir okkur að þeir geta raunverulega ákveðið sjálfir hve mikið þeir áætla sér í tekjur og hve mikið í hagnað með lægra skatthlutfalli. Við bendum á það í nefndarálitinu hvernig þessi þróun hefur verið allt frá 1985.

Ríkisskattstjóri var beðinn um álit á breyttum reglum um reiknað endurgjald, en í breytingartillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir hertum reglum þar að lútandi. Og hvað segir ríkisskattstjórinn um það? Ég vitna orðrétt til hans, með leyfi forseta:

,,Reglur um reiknað endurgjald eru tilraun til að draga úr tilfærslum úr launum í rekstrarhagnað. Bættar reglur um þær eru mikils virði en munu aldrei leysa úr vandamálinu. Eðli máls samkvæmt verða slíkar matsreglur ætíð lágmark þannig að einhver hluti launa mun færast yfir í rekstrarhagnað. Auk þess eru slíkar reglur erfiðar í framkvæmd og munu kosta mikið. Fjöldi einstaklinga í rekstri er yfir 25.000 og einkahlutafélög og sameignarfélög eru yfir 10.000. Búast má við að álag á skattstofur og yfirskattanefnd aukist stórlega og verður óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því í fjárveitingum þegar á næsta ári.

Hluti af þeim fyrirsjáanlega tekjutilflutningi sem bent hefur verið á er þess eðlis að reglur um reiknað endurgjald eða aðrar aðgerðir skattyfirvalda hafa ekkert að segja. Breyting á einkarekstri í sameignarfélag eða einkahlutafélag er eingöngu háð ákvörðun viðkomandi aðila og hafa skattyfirvöld ekkert um slíka formbreytingu að segja. Tilfærsla á tekjum úr hagnaði af einkarekstri í hagnað félags er því alveg óháð reglum um reiknað endurgjald og þær því engin vörn gagnvart tekjutapi sveitarfélaga og ríkis af þeim ástæðum.``

Herra forseti. Ljóst er af framangreindu að vandamálið stendur að stærstum hluta eftir þótt reynt sé að herða að reglum um reiknað endurgjald, auk þess sem það skapar mikil vandamál í allri framkvæmd í skattkerfinu, enda reglurnar mjög matskenndar.

Herra forseti. Meira jafnræði í skattlagningu milli lögaðila og einstaklinga og milli tekna af fjármagni og launa mundi girða fyrir óeðlilega yfirfærslu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög með tilheyrandi skattasniðgöngu.

Fyrsti minni hluti leitaði eftir útreikningum hjá embætti ríkisskattstjóra á áhrifum þess að einkarekstri væri breytt í einkahlutafélög. Þar kemur fram að ef allir þeir sem við álagningu þessa árs hefðu haft skattalegt hagræði af því, og höfðu tekjur yfir skattleysismörkum, hefðu breytt einkarekstri í einkahlutafélag hefði það þýtt rúmlega 1 milljarðs kr. tekjutap fyrir sveitarfélög og 500 millj. kr. tap fyrir ríkissjóð.

Spurningin er hvort tekjuáhrifin af þessum breytingum sem fram koma í fylgiskjali frá fjmrn. séu ekki vanáætluð.

Herra forseti. Við vörum því alvarlega við afleiðingum þessara breytinga og teljum að þessi skattaaðgerð ríkisstjórnarinnar muni í senn auka ójafnræði í skattlagningu og stuðla að skattasniðgöngu með tilheyrandi tapi fyrir ríki og sveitarfélög.

Herra forseti. Sýnt er fram á það í nál. sem ég ætla ekki að fara ítarlega í hvaða áhrif þetta getur haft á gróða kvótaeigenda vegna skattalækkana. Þar er sýnt fram á með útreikningum bæði Þjóðhagsstofnunar og embættis ríkisskattstjóra að þetta gæti þýtt 18--26 milljarða skattalækkun miðað við markaðsvirði aflaheimilda í dag ef þær yrðu allar seldar og um leið og Alþingi samþykkir þessa skattalækkun hefur kvótaeigendum verið færð á silfurfati skattalækkun upp á 18--26 milljarða kr., hvort sem þeir svo kjósa að eiga kvótann lengur eða skemur eða hvort þeir leysa strax til sín skattalækkunina með því að selja kvótann.

Þar sem skattkvöðin sem á kvótanum hvílir lækkar mun þessi breyting leiða til þess að verð mun hækka jafnt á kvóta sem hlutabréfum í fyrirtækjum sem eiga kvóta. Þar með mun söluhagnaður eigendanna hækka.

Ekki er ólíklegt, herra forseti, að eigendur fyrirtækja nýti sér þessa miklu skattalækkun og selji úr þeim eignir sem hafa verið afskrifaðar og fela því í sér óskattlagðan hagnað frá fyrri árum. Sama á við um kvótann. Vel má því vera að kvótaeigendur nýti þá hagstæðu stöðu sem skapast með skattalækkuninni og innleysi fyrr en seinna til sín gróðann af þessari gjöf sem ríkisstjórnin er að færa þeim.

Herra forseti. Ég vík þá næst að tryggingagjaldinu. Við teljum varhugavert við núverandi aðstæður að hækka tryggingagjald. Fram kemur í nál. útreikningar frá embætti ríkisskattstjóra á áhrifum hækkunar á tryggingagjaldi. Þar er að finna töflu sem ég fór aðeins yfir í upphafi þessara umræðna. Hún sýnir ljóslega að það eru fyrst og fremst fyrirtæki sem skila verulegum hagnaði á höfuðborgarsvæðinu sem hafa ávinning af breytingunni. Norðurland eystra, Austurland og Vestmannaeyjar tapa á henni. Hér er því greinilega á ferðinni sérstakur landsbyggðarskattur. Hann staðfestir betur en allt annað að það er engin innstæða á bak við tal stjórnarliða um að nauðsynlegt sé að rétta hlut landsbyggðarinnar.

Útreikningar embættis ríkisskattstjóra sýna líka að hækkun á tryggingagjaldi verður þungbær fyrir fyrirtæki, sennilega flest lítil og meðalstór, sem eru með mikla launaveltu og greiða þar af leiðandi hátt tryggingagjald. Sömuleiðis á einyrkja og þá sem taka laun samkvæmt verktakagreiðslum. Hækkun tryggingagjalds á þessa aðila stendur í verulegum mæli undir tekjuskattslækkun stórra fyrirtækja sem skila miklum hagnaði, en þau hagnast fyrst og fremst á þessum skattbreytingum ríkisstjórnarinnar.

Fyrsti minni hluti varar mjög við því að fyrirtæki í nýsköpun og þekkingariðnaði fara sérstaklega illa út úr fyrirhugaðri hækkun á tryggingagjaldinu. Það er röng skattastefna og gengur gegn því sem Samfylkingin vill leggja áherslu á. Allir vita að framtíðarmöguleikar þjóðarinnar og bætt lífskjör liggja fyrst og fremst í því að hlúa að mannauð og menntun þjóðarinnar.

ASÍ, eins og ég hef farið hér inn á, gagnrýnir hækkun tryggingagjaldsins í umsögn sinni og telur að með því sé verið að hækka launakostnað fyrirtækja án þess að það skili sér í bættum kjörum launafólks. Með þessu sé ríkissjóður líka að þrengja að því svigrúmi sem aðilar vinnumarkaðarins hafa til að semja um bætt kjör launafólks. ASÍ bendir á, eins og ég nefndi áðan, að áhrif hækkunar tryggingagjalds á vísitölu neysluverðs séu þau sömu og ef um launahækkun til launafólks væri að ræða. Með þessari breytingu yrði því kaupmáttur launafólks skertur. Alþýðusamband Íslands leggst eindregið gegn því að þessi breyting verði að lögum. Orðrétt segir í umsögn ASÍ, og er ástæða til að vísa til þess með tilliti til þess í hvaða stöðu kjarasamningarnir eru:

,,Um slíka breytingu hlýtur að verða grundvallarágreiningur og er hún lítt til þess fallin að stuðla að sátt á vinnumarkaði.``

Samtök atvinnulífsins gagnrýna hækkun á tryggingagjaldi og telja að hún feli í sér verri rekstrarskilyrði hjá mörgum fyrirtækjum, einkum í vinnuaflsfrekri starfsemi þar sem erfitt eða ógerlegt sé að bæta kostnaðarhækkanir upp með verðhækkunum.

Sama gildir um Samtök ferðaþjónustunnar. Um afstöðu Verslunarráðsins fór ég yfir áðan. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur í umsögn sinni lagt mat á áhrifin og telur að áhrifin af tryggingagjaldinu þýði verri afkomu fyrir sveitarfélögin sem nemi 500--550 millj. kr. Síðan benda þeir á að þetta hafi áhrif til skerðingar á tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og, eins og ég hef farið yfir varðandi einstaklingsreksturinn, þá hefur sérstaklega Reykjavíkurborg gert sérstaka útreikninga og telur að þetta geti þýtt tekjutap upp á 1.300 millj. fyrir sveitarfélögin, þ.e. bara breyting á yfirfærslunni yfir í einkahlutafélög.

Herra forseti. Ég held að það sé því alveg ljóst að hækkun tryggingagjalds sé vanhugsuð af ríkisstjórn og muni leiða til erfiðleika og jafnvel uppsagna starfsfólks hjá mörgum fyrirtækjum. Samfylkingin er því mótfallin hækkun tryggingagjalds og lýsir sig andvíga henni og við teljum að með þessu, eins og ég hef bent á, sé verið að leggja sérstakan skatt á landsbyggðina.

[12:45]

Ég hef farið yfir tekjutapið hjá sveitarfélögunum, herra forseti. Við fögnum því sem snýr að húsaleigubótum þó að það þýði tekjutap fyrir sveitarfélögin. Það var löngu kominn tími til að stíga það skref að afnema skattlagningu á húsaleigubótum en við teljum að ekki sé nógu langt gengið í að afnema skatta á þá sem verst hafa það í samfélaginu. Samfylkingin hefur margsinnis lýst yfir að af hennar hálfu komi ekki til greina að lækka skatta á fyrirtæki nema einnig verði felld niður skattskylda á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem er ekkert annað en fátækraskattur, skattur sem vefur upp á sig vegna þess að fólkið getur ekki staðið undir skattinum og kemur til sveitarfélaganna til að leita fjárhagsaðstoðar til að standa undir skattinum. Svona hringavitleysa er þetta nú. Við teljum fráleitt að skattleggja þessa fjárhagsaðstoð til fátæks fólks sem ekki á fyrir allra brýnustu nauðþurftum. Hér er ekki um stórar fjárhæðir að ræða þótt farið yrði sömu leið með þetta og húsaleigubætur en þetta mundi þýða tekjutap fyrir ríkið um 120--135 millj. kr. samkvæmt lauslegu mati Þjóðhagsstofnunar.

Herra forseti. Lagðar eru til veigamiklar breytingar á lækkun á eignarsköttum. Í fyrsta lagi er eðlileg og sjálfsögð breyting gerð á hækkun fríeignarmarka í eignarskatti um 20% vegna eigna í árslok 2001 til að koma í veg fyrir hækkun eignarskatta vegna sérstakrar hækkunar á fasteignamati. En herra forseti, með því er ekki að okkar viti uppfyllt loforð fjmrh. frá í sumar um að hækkun á fasteignamati muni ekki hafa áhrif til hækkunar á sköttum eða skerðingar á bótum. Ég er að rukka inn, herra forseti, loforð hæstv. fjmrh. um að gerðar yrðu ráðstafanir til að vaxtabætur mundu ekki skerðast vegna hækkunar á fasteignamati. Eftir því hefur verið ítrekað kallað í efh.- og viðskn. Herra forseti, umræðu um þetta mál má ekki ljúka án þess að fyrir liggi hvernig á því er tekið. (Fjmrh.: Það liggur fyrir í þingskjölum.) Ekki varðandi vaxtabæturnar, herra ... (Fjmrh.: Ég svaraði fyrirspurn ...) Það liggur ekki fyrir varðandi vaxtabæturnar, við höfum margítrekað farið yfir það í nefndinni. Það verður auðvitað gert aftur milli 2. og 3. umr.

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. verður þá að sýna fram á það í ræðustólnum að það sé alveg ljóst að vaxtabæturnar skerðist ekki vegna þess að samkvæmt því sem við höfum farið yfir hafa ekki verið gerðar þær ráðstafanir sem duga til þess að áhrifin af fasteignamatinu komi ekki fram í skerðingum á vaxtabótum. (Fjmrh.: Þær eiga ekkert að gera það. ... Það liggur fyrir í þingskjölum.)

(Forseti (ÍGP): Má forseti biðja hæstv. ráðherra um að gefa ræðumanni frið?)

Herra forseti. Við höfum ekki séð þess stað í efh.- og viðskn. Við höfum farið yfir það, ég og formaður efh.- og viðskn., að þetta mál þurfi að skoðast milli 2. og 3. umr. Mér finnst ekkert skrýtið, herra forseti, þó að hæstv. fjmrh. líði illa undir þessum umræðum vegna þess að ég vona að hæstv. ráðherra sé að uppgötva það á hvílíkum villigötum ríkisstjórnin er varðandi þessar skattalagabreytingar. (Fjmrh.: Þingmaðurinn hefur ekki fylgst með umræðunni fyrr í vetur um þetta.) Mér þykir nú bara gaman, herra forseti, að þessum frammíköllum hæstv. fjmrh. vegna þess að það staðfestir og sýnir mér að honum líður illa undir þessari umræðu. (Fjmrh.: Mér líður illa undir röfli.) Herra forseti. Hæstv. fjmrh. kallar það röfl þó að hér sé verið að fara ítarlega og efnislega, lið fyrir lið yfir þær skattalagabreytingar sem hæstv. ráðherra leggur til þar sem vitnað er í umsagnir og álit stofnana í þjóðfélaginu, sem hæstv. ráðherra á að bera virðingu fyrir, eins og Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka, ríkisskattstjóra og fleiri aðila eins og ég hef hér gert. (Fjmrh.: Ég er að tala um þetta síðasta atriði, hv. þm. Það liggur fyrir.) Það er ágætt að hann dregur í land, hæstv. ráðherrann. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÍGP): Enn á ný biður forseti þingheim að gefa hljóð þannig að hv. þm. geti haldið áfram ræðu sinni.)

Herra forseti. Ég ítreka að þetta þarf að skoðast milli 2. og 3. umr. Líka það að fasteignamatið hefur áhrif á erfðafjárskattinn og stimpilgjöldin, og ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að það hafi ekki áhrif á þá skattstofna.

Verið er að lækka almenna eignarskattinn á lögaðila um helming eða úr 1,2% niður í 0,6% í árslok 2002 sem hefur í för með sér 3,1 milljarðs kr. tekjutap fyrir ríkissjóð. Afnám sérstaka eignarskattsins á einstaklinga og lögaðila leiðir til 800 millj. kr. tekjutaps ríkissjóðs. Herra forseti. Við í Samfylkingunni teljum skynsamlegra að fara hægar í að lækka eignarskatt á lögaðila en stíga fremur skref í að afnema stimpilgjöld sem nýtast mun bæði einstaklingum og atvinnurekstri, ekki síst minni fyrirtækjum eins og ég hef nefnt. Við leggjum því til í 1. minni hlutanum að lækkun á eignarskatti fyrirtækja verði með þeim hætti að hann lækki úr 1,2% í 0,9% en ekki 0,6% eins og frv. gerir ráð fyrir. Í stað þess er lagt til að þriðjungur stimpilgjalds verði afnuminn 1. janúar 2003. Af því að boðuð er lækkun á stimpilgjaldi sem á að kosta 900 millj. kr. og taka gildi 1. janúar 2003 væri fróðlegt, herra forseti, að fá fram hjá hæstv. fjmrh. --- ég vænti þess að hann hlýði á mál mitt --- hvernig á að fjármagna þá lækkun.

Í umsögn ASÍ er það gagnrýnt að dregið sé úr skattlagningu á eignum og fjármagni án þess að endurskoðun sé gerð á skattlagningu fjármagnstekna. Rök ASÍ eru þau að skoða þurfi skattlagningu eigna og fjármagnstekna út frá því markmiði að það sé afrakstur eignanna sem verði skattlagður, hvort sem það er leiga, vextir eða arður, en ekki eignin sem slík. Í umsögn þeirra kemur fram að hefði áætluðu tekjutapi verið mætt að hluta til eða öllu leyti með hækkun fjármagnstekjuskatts hefði yfirbragð þessara aðgerða verið allt annað og betra. Slík skattkerfisbreyting hefði stuðlað að því að jafna samkeppnisstöðu mismunandi eignarforma á fjármálamarkaði, og einkennst af innbyrðis jafnvægi á kostum og göllum.

Það er skoðun fyrsta minni hluta líkt og ASÍ að skoða eigi mikla skattalækkun eignarskatta í samhengi við fjármagnstekjuskatt. Fjármagnstekjuskattur er hvergi lægri en á Íslandi í löndum OECD, eins og ég hef rakið fyrr í máli mínu. Í löndum OECD er algeng skattlagning á arð 25%--40% og raunar allt upp í 48%. Fyrsti minni hluti telur að fremur en að hækka tryggingagjald eigi að fara þá leið til að afla tekna vegna þessara skattkerfisbreytinga, að hækka fjármagnstekjuskatt lítillega á móti verulegri lækkun á eignarskatti. Það nær mun betur markmiði jafnræðis og sanngirni í skattkerfinu. Það dregur líka úr óeðlilegum hvata til yfirfærslu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög í þeim tilgangi að komast hjá eðlilegri skattlagningu launatekna. Slíkar skattbreytingar stuðla líka að því að bilið milli skattlagningar á laun og fjármagn verði ekki óeðlilega mikið eins og margir hafa varað við. En því meira sem bilið er, því meiri er hvatinn til að nota slíka yfirfærslu fyrst og fremst til skattasniðgöngu.

Loks felst í slíkri skattkerfisbreytingu meira jafnræði í skattlagningu milli atvinnugreina. En hækkun tryggingagjalds gengur þvert á slík markmið. Fyrsti minni hluti leggur því til að í stað hækkunar á tryggingagjaldi verði fjármagnstekjuskattur hækkaður úr 10% í 16% sem gefur brúttó um 2,4 milljarða í tekjur. Er þá miðað við endurskoðaða tekjuáætlun fjárlaga fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur gefi einum milljarði meira í tekjur á ári en áætlað var. Á móti komi sérstakt frítekjumark í fjármagnstekjuskatti. Þannig greiði einstaklingar með fjármagnstekjur að 100 þús. kr. og hjón með fjármagnstekjur að 200 þús. ekki fjármagnstekjuskatt. Með þessari leið væri verið að létta fjármagnstekjuskatti af hóflegum sparnaði en fá samt viðbótartekjur upp á 1,7 milljarða kr.

Þessar tillögur mundu leiða til þess að fjármagnstekjuskattur mundi fyrst og fremst aukast hjá þeim sem eru með miklar fjármagnstekjur. Það er sýnt í töflu 11 í nál. en þar kemur fram að af 24,5 milljarða fjármagnstekjuskattsstofni eigi 10% framteljenda 16 milljarða af stofninum. 8 milljarðar skiptist því á þau 90% framteljanda sem eftir eru. Einnig má benda á að verið er að lækka verulega eignarskatt og afnema sérstakan eignarskatt. Má ætla að að verulegu leyti sé um sama fólk að ræða sem á miklar eignir, bæði í fjármagni og föstum eignum.

Þannig er ljóst að í heildina tekið er ekki verið að auka skattbyrðina þrátt fyrir lítillega hækkun á fjármagnstekjuskatti sem skila mun nettó um 1,7 milljörðum eftir að tillit hefur verið tekið til frítekjugólfs. Á móti lækkuðu eignarskattar um 3,4--3,5 milljarða kr. samkvæmt þeim tillögum sem fyrsti minni hluti setur fram.

Samkvæmt útreikningum frá embætti ríkisskattstjóra eru greiðendur fjármagnstekjuskatts 78.566 en þeir greiða samtals 3.290 millj. kr. Ef fjármagnstekjuskattur færi í 16% og frítekjumark yrði 100 þús. hjá einstaklingum og 200 þús. hjá hjónum, eins og fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til, fækkaði þeim sem greiða fjármagnstekjuskatt um 55.800 manns og yrðu um 22 þús. í stað 78 þús. Hér er því um að ræða tillögu sem fækkar verulega í hópi þeirra sem greiða fjármagnstekjuskatt og er því um beina skattalækkun að ræða á stóran hóp fólks eða um 55 þús. manns miðað við skattálagningu þessa árs. Með þessari tillögu er þannig verið að stuðla að tekjuauka fyrir ríkissjóð, hlífa hóflegum sparnaði og minnka það bil sem er orðið á milliskattlagningu á fjármagni og launum.

Nú kynni einhver að spyrja: Mun þetta ekki leiða til fjárflótta úr landi? Við spurðum ríkisskattstjóra um það og óskuðum eftir svörum frá embætti hans um hvort hætta væri á að hækkun fjármagnstekjuskatts mundi leiða til fjárflótta úr landi og tekjutaps af þeim sökum. Svör ríkisskattstjóra eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Varðandi hættu á því að breyting á fjármagnstekjuskatti muni hafa í för með sér fjárflótta úr landi af skattalegum ástæðum skal bent á eftirfarandi:

Fjármagnstekjur íslenskra skattborgara eru skattskyldar hér á landi með sama hætti hvort sem þær eru upprunnar hér eða erlendis. Til að koma þeim undan skatti nægir því ekki að flytja féð úr landi heldur þarf einnig að leyna því og tekjum af því fyrir skattyfirvöldum hér og skattyfirvöldum viðkomandi lands sem oft eru skuldbundin til að veita íslenskum skattyfirvöldum upplýsingar. Tilfærsla á fé er því ekki nægileg heldur þarf skattsvik til viðbótar.

Skattar á fjármagnstekjur eru í flestum löndum verulega hærri en hér á landi. Það hefur í þeim löndum ekki leitt til fjárflótta úr þeim í þeim mæli að það hafi verið talið tilefni til að lækka þá skatta.``

Þetta er tilvitnun í ríkisskattstjóra sem ég tel athyglisverða, að skattar á fjármagnstekjur í flestum löndum sem eru verulega hærri en hér hafa ekki leitt til fjárflótta úr þeim í þeim mæli að það hafi verið talið tilefni til í þeim löndum að lækka fjármagnstekjuskattana þess vegna. Mér finnst þetta vera lykilatriði.

Skattstjóri segir hér áfram:

,,Það þýðir enn fremur að flutningur á fé til þessara landa án áframhaldandi skattskyldu hér hefði ekki skattalegt hagræði í för með sér.

Til að meta líkurnar á fjárflutningum úr landi þarf að hafa í huga hvernig fjármagnstekjur hér eru samsettar og hversu líklegt er að þær verði fluttar. Um 40% fjármagnstekna eru vaxtatekjur af innstæðum í íslenskum bönkum, önnur 40% eru söluhagnaður af hlutabréfum í íslenskum félögum og um 20% eru arður af hlutabréfum í íslenskum félögum.``

Ég tel, herra forseti, að öll rök standi því til þess að fara þá leið sem við leggjum til sem þýðir að við þurfum ekki að fara þá leið að hækka tryggingagjaldið sem er óskynsamleg skattbyrði í þeirri stöðu sem við erum í núna. Þetta mun leiða til tekjuauka hjá ríkissjóði á sama tíma og við erum að létta sköttum af hóflegum sparnaði hjá 55 þúsund einstaklingum.

Herra forseti. Afnám verðbreytingarfærslu er einn liður í skattatillögum ríkisstjórnarinnar. Við flytjum fyrir því rök í ítarlegu máli í greinargerðinni að ekki sé skynsamlegt við þessar aðstæður að fara út í verðbreytingarfærslu nú og er m.a. ástæða til að vitna til þess sem fram kom í DV í gær, 5. desember. Þar segir Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að skattalækkunin verði ónýt í verðbólgunni og afnám verðbólgureikningsskila sé ótímabær eins og nú horfir.

Herra forseti. Í ítarlegu máli skýrum við sjónarmið okkar líka í nál. Ég vitna þar til Seðlabanka, til Þjóðhagsstofnunar og ASÍ og það er niðurstaða okkar að geta ekki mælt með því, miðað við núverandi aðstæður, að afnema verðbólgureikningsskil.

[13:00]

Herra forseti. Ég vil þá næst víkja að stimpilgjaldi.

(Forseti (ÍGP): Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?)

Fimm til tíu mínútur.

(Forseti (ÍGP): Þá bið ég hv. þm. um að halda áfram ræðunni og við munum síðan taka matarhlé eftir á að giska tíu mínútur.)

Samfylkingin er þeirrar skoðunar að stimpilgjöld séu í eðli sínu ranglát og leggist þyngra á fólk í fjárhagsþröng en aðra í samfélaginu, og þyngra á lítil fyrirtæki en stór. Við leggjum því áherslu á að þegar á næsta ári verði stigið skref í að afnema stimpilgjöld og teljum rétt að um þriðjungur stimpilgjalda verði afnuminn 1. janúar 2003. Við vísum þar til frv. sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur flutt um afnám stimpilgjalda í áföngum en í greinargerð með frv. kemur fram að skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD-ríkjunum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur í för með sér neikvæð áhrif, svo sem að mismuna aðilum innan lands og veikja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins og íslenskt viðskiptaumhverfi hefur þróast er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Þetta er líka, eins og orðað er í frv. Margrétar Frímannsdóttur, fátækraskattur vegna þess að þetta er kostnaður sem leggst t.d. á fólk í íbúðakaupum. Þess vegna teljum við að afnám á þessum skatti sem við viljum stíga myndarlegt skref í gagnist einstaklingum og heimilunum og sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem síður en stærri fyrirtæki geta leitað eftir lánsfé erlendis.

Tekjur af stimpilgjaldi eru áætlaðar 3,3 milljarðar kr. á næsta ári. Samkvæmt lauslega áætluðu mati greiða einstaklingar 35--40% af stimpilgjaldinu en fyrirtæki 60--65%.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli. Niðurstaða okkar af þessu sem ég hef rakið hér ítarlega er að með vísan í fjölda álita og umsagna sem nefndinni bárust eru skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar að verulegu leyti vanhugsaðar, þær byggjast á þröngri hugmyndafræði og á þeim eru stórir gallar. Þær virðast fyrst og fremst henta stórfyrirtækjum í þéttbýlinu en hvorki sprotafyrirtækjum, smáum fyrirtækjum né landsbyggðinni. Hætta er líka á að áhrifin af landsbyggðarskattinum í formi tryggingagjalds geti leitt til uppsagna og aukið þannig atvinnuleysi auk þess sem verðlagsáhrifin eru verðbólguhvetjandi. Skattalagabreytingarnar fela einnig í sér stórfellt tekjutap fyrir sveitarfélögin.

Fyrsti minni hluti leggur því fram viðamiklar breytingartillögur á frv. sem ná því markmiði að mismuna ekki atvinnugreinum, tryggja meira jafnræði, auka sanngirni í allri skattlagningu en ná jafnframt því markmiði að viðhalda alþjóðlegu skattaforskoti íslenskra fyrirtækja.

Tillögum okkar er ítarlega lýst hér í lok nefndarálitsins og ætla ég í örstuttu máli að hlaupa á þeim.

Við viljum lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 30% í 25%. Það kostar 1,1 milljarð kr. í stað 2,7 milljarða kr. tekjuskattslækkunar á fyrirtækin í tillögum stjórnarflokkanna.

Við leggjumst gegn hækkun tryggingagjalds.

Við viljum að hækkun á frítekjumarki af hátekjuskatti verði frestað um tvö ár.

Við styðjum hækkun fríeignamarka eignarskatts og sérstaks eignarskatts um 20% vegna eigna í árslok 2001 til að koma í veg fyrir hækkun eignarskatta vegna sérstakrar hækkunar á fasteignamati.

Við styðjum afnám sérstaks eignarskatts á lögaðila og einstaklinga og lækkun á almennum eignarskatti á einstaklinga úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002 en leggjum til að almennur eignarskattur á lögaðila lækki einungis úr 1,2% í 0,9%. Á móti er lögð til hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10% í 16% með sérstöku frítekjumarki þannig að fjármagnstekjur einstaklinga að 100 þús. kr. og hjóna eða sambýlisfólks að 200 þús. kr. verði ekki skattlagðar. Miðað við álagningu þessa árs fækkar þeim sem greiða fjármagnstekjuskatt úr 78.566 í 22.725 eða um 55.841 manns með þessari breytingu. Hækkun fjármagnstekjuskatts með frítekjumarkinu gefur tæplega 1,7 milljarða kr. í auknar tekjur miðað við endurskoðaða tekjuáætlun fyrir næsta ár.

Við styðjum lækkun á tekjuskatti einstaklinga um 0,33% um næstu áramót sem samið var um í tengslum við kjarasamninga en teljum rétt að stigið verði fyrst skref í lækkun á almennum tekjusköttum sem fjármögnuð verði með hækkun kostnaðargjalda í sjávarútvegi. Þannig verði á árinu 2003 lækkaður almennur tekjuskattur einstaklinga um 0,25% til viðbótar 0,33% um næstu áramót.

Við styðjum afnám skattskyldu húsaleigubóta.

Við viljum afnema skattlagningu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga en með því nemur tekjutap ríkissjóðs 120--135 millj. kr.

Loks leggjum við til að skipuð verði nefnd með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokka, aðila vinnumarkaðarins og samtaka öryrkja og aldraðra sem hafi það verkefni að kanna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega skatta á launafólk og lífeyrisþega með tekjur undir lágmarkslaunum.

Herra forseti. Í fylgiskjali XIII stillum við upp þessum tillögum okkar og metum áætluð áhrif af þessum skattalagabreytingum.

Ljóst er að breytingartillögur okkar kalla á minni útgjöld fyrir ríkissjóð og minni útgjöld fyrir sveitarfélögin en tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir, og munar þar verulegu.

Í tillögum okkar er tekið tillit til lækkunar á stimpilgjöldum sem komi til framkvæmda um þarnæstu áramót. Miðað við hana er niðurstaða okkar sú að útgjöldin yrðu tæpir 6 milljarðar kr. en hjá ríkisstjórninni eru útgjöldin um 7,1 milljarður og þá hefur ekki verið gert ráð fyrir hvernig afla eigi tekna vegna stimpilgjaldslækkunar.

Við setjum ekki inn í tillögur okkar mat af áhrifum tillagnanna á aukin efnahagsumsvif sem ég fullyrði að yrðu ekki minni en í tillögum ríkisstjórnarinnar. Við teljum hins vegar að óvissan sé svo mikil í því efni að ekki sé rétt að stilla upp neinni tölu í því sambandi eins og ríkisstjórnin gerir. Í heildina tekið, herra forseti, kostar þetta ríki og sveitarfélög minna en tillögur stjórnarflokkanna.

Herra forseti. Loks leggjum við áherslu á að þær breytingar sem ég hef hér lýst nái fram að ganga en þessar skattbreytingar tryggja mun betur jafnræði og sanngirni í skattlagningu og tryggja vel starfsskilyrði og samkeppnishæfni atvinnuveganna án þess að hafa í för með sér verðbólguáhrif sem rýra kjör almennings og þrengja að atvinnuvegum.