Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 13:07:44 (2572)

2001-12-06 13:07:44# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[13:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir afskaplega yfirgripsmikla og góða ræðu þó að ég sé í flestum atriðum ekki sammála henni.

Það er eitt sem mig langar til að spyrja hv. þm. sem situr í hv. efh.- og viðskn. --- hún hefur væntanlega kynnt sér umsögn mína um þetta frv. í nefndinni --- og spurning mín er hvort hún fallist á útreikninga mína, að hagnaður ríkissjóðs af sölu ríkisfyrirtækja verði 12 milljarðar vegna lækkunarinnar úr 30% í 18%. Og hvort hún fallist enn fremur á það að ríkissjóður mundi hagnast til viðbótar um 7 milljarða ef farið yrði niður í 11% og hvort hv. þm. með hliðsjón af velvild hennar gagnvart velferðarkerfinu væri ekki tilbúin til að styðja lækkun niður í 11% til að geta nýtt þessa 7 milljarða til að bæta stöðu fatlaðra og annarra í velferðarkerfinu.

Síðan segir hv. þm. að skattasniðganga muni aukast mikið, og las það upp. Spurning mín til hv. þm. er: Hefur hv. þm. einhverjar tölur í því sambandi? Hve margir munu ,,sníða fram hjá skattinum`` eins hún kallar það eða svíkja undan skatti eins og það heitir á íslensku? Og telur hún að þessi skattsvik mundu aukast enn frekar ef farið yrði í 11% skatta á hagnað fyrirtækja?