Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 13:11:50 (2574)

2001-12-06 13:11:50# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[13:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. að það sé meira um vert að ná peningum af þeim sem hafa háar tekjur en að bæta velferðarkerfið með auknum tekjum af skattkerfinu. Það sé meira um vert að ná fram einhverju réttlæti en að auka tekjur ríkissjóðs til að standa undir velferðarkerfinu. Þetta er mjög athyglisvert og þetta hefur svo sem komið fram víða og oft. Það sé meira atriði að skipta kökunni en stækka hana.

Hv. þm. horfir ekki á það og metur það einskis þó að bent sé á að ríkissjóður gæti hagnast um 18 milljarða með sölu á þessum þrem fyrirtækjum með því að fara með skattprósentuna niður í 11%. Og tapar ekki nema 3,4 milljörðum á móti þannig að hún hefði 14 milljarða til ráðstöfunar, annaðhvort til að greiða niður skuldir barnanna okkar í útlöndum eða til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

Síðari spurningin varðar skattsvikin. Er það virkilega svo að hv. þm. reikni með því að það séu 20 þúsund Íslendingar sem skattkerfið gerir að glæpamönnum? Það er glæpur að brjóta lög. Það er glæpur að svíkja undan skatti. Og er hv. þm. að segja að af kjósendum hennar séu 20 þús. manns sem ætli að fremja þann glæp að sniðganga skattalögin eða svíkja undan skatti?