Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 13:17:58 (2577)

2001-12-06 13:17:58# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[13:17]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil líka þakka hv. þm. fyrir ágætt samstarf í nefndinni.

Varðandi tryggingagjaldið og hækkun á því þá hef ég rökstutt það með vísan t.d. í umsögn ASÍ, með vísan í verðlagsáhrifin af tryggingagjaldinu, sem er 0,3--0,4%, að þessi skattlagning íþyngir fyrirtækjunum verulega. Ég nefndi hér að þegar verið er að setja auknar álögur á félög með mikla launaveltu geti það hugsanlega leitt til uppsagna og haft þau áhrif. Ég vitna líka til þess að ASÍ segir hreinlega í umsögn sinni að þetta sé mjög vont innlegg inn í kjarasamninga, m.a. vegna þeirra áhrifa sem þetta hefur á verðlag og einnig á minni getu fyrirtækjanna til þess að greiða laun.

Varðandi mismunandi skattlagningu á eignarskatti lögaðila þá teljum við að skynsamlegra sé að fara þá leið núna að lækka skattana á lögaðilana minna en tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Við teljum skynsamlegra að verja þá þeim hluta í að lækka stimpilgjöldin um þriðjung sem gagnast fyrirtækjunum mjög vel. Líka má segja um lágan fjármagnstekjuskatt, eins og við erum að tala um, að raunverulega megi líta á eignarskattana sem staðgengil fjármagnstekjuskatts og lagfæringu á ranglátu tekjuskattskerfi. Þeir tekjuhæstu og eignamestu sleppa best og eignarskattur einkum á fyrirtæki er bara smávegis leiðrétting. Ég held því að öll rök mæli með því að fara þessa leið.