Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 13:20:03 (2578)

2001-12-06 13:20:03# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[13:20]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þm. ekki skýra út af hverju rétt væri að mismuna fyrirtækjum í skattlagningu á eigið fé þeirra eftir því hvort nafnverð hlutafjár er hærra eða lægra. Mér fannst ekki koma fram nein skýring á því af hverju slík mismunun væri æskileg. Af hverju á að skattleggja fyrirtæki, þar sem nafnverð hlutafjár er tiltölulega hátt hlutfall af eigin fé, minna en eigið fé fyrirtækis þar sem nafnverð hlutafjár er tiltölulega hátt eða lágt eftir atvikum. En svona er nú þetta.

Eitt kom mér sérstaklega á óvart í ræðu hv. þm. og því nefndaráliti sem hér kemur fram, þ.e. andstaðan við að einstaklingsrekstur geti færst yfir í hlutafélag án þess að það hafi í för með sér skattalegar afleiðingar við sjálfa yfirfærsluna. Þetta finnst mér algjörlega á skjön við þær yfirlýsingar flokks hv. þm. að hann sé flokkur smáatvinnurekenda og lítilla fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri. En svo þegar hér kemur loksins fram frv., eftir langa bið og langa mæðu, sem felur í sér að auðvelt verði að færa einstaklingsrekstur yfir í hlutafélag þá er ekkert nema vont við það. Maður hefur á tilfinningunni að þeir sem standa í slíkum rekstri séu skilgreindir sem skattsvikarar áður en annað kemur í ljós.