Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 13:21:56 (2579)

2001-12-06 13:21:56# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[13:21]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. stendur fyrir því að hækka hér tryggingagjald. Á hverjum bitnar það? Litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Við viljum koma í veg fyrir það.

Hv. þm. stendur að skattalagafrv. sem segir að það eigi að lækka stimpilgjöld, en hvergi er gert ráð fyrir fjármagni til þess. Við viljum lækka stimpilgjöldin strax vegna þess að það kemur best við lítil og meðalstór fyrirtæki sem þurfa að sækja lánsfé sitt innan lands. Okkar tillögur stuðla þess vegna að því að lækka skatta á lítil og meðalstór fyrirtæki.

Við höfum ekki sagt, og það kom ekki fram í máli mínu, að við værum að leggjast gegn eðlilegri tilfærslu og yfirfærslu á einstaklingsrekstrinum yfir í einkahlutafélög. Við viljum bara búa þannig um hnútana að ekki sé verið að misnota slíkt skattform. Það er t.d. niðurstaða þeirra sem hafa skoðað þetta, t.d. hjá Reykjavíkurborg, að einstaklingsreksturinn muni hreinlega leggjast af af því að því fylgir svo mikið skattalegt hagræði að færa þetta yfir í einkahlutafélög. Við viljum búa svo um hnútana að ekki sé verið að misnota þennan möguleika.

Eins og hverjir nefna það? Í umsögnum Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka, allra skattstjóra og ríkisskattstjóra, er varað við því hvernig búið er um hnútana að því er þetta varðar. En við teljum alls ekki að koma eigi í veg fyrir að sé hægt að færa einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélög eðlilega. Með þeirri leið m.a. sem við erum að fara með því að hækka lítillega fjármagnstekjuskatt með ákveðnu frítekjugólfi er nokkuð dregið úr hvatanum á því að með óeðlilegum hætti sé verið að misnota það að færa einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélög.

Ég frábið mér það, herra forseti, að hv. þm. sé að halda því hér fram að við séum með einhverjar tillögur sem ganga gegn því að lækka skatta á lítil og meðalstór fyrirtæki.