Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 14:10:23 (2582)

2001-12-06 14:10:23# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þær kenningar sem ég er að tala um eru lagðar til grundvallar við verðmat t.d. á Landssímanum, á Landsbankanum og öðrum þeim fyrirtækjum sem menn eru að verðmeta. Þá er litið á framtíðartekjuflæði og það er lagt til grundvallar verðinu. Þetta er notað alls staðar við mat á fyrirtækjum, alls staðar.

Síðan hafa mörg önnur atriði áhrif á gengið. Ég nefni sem dæmi að í fyrsta lagi var íslenska krónan að lækka, hún er búin að vera að lækka stöðugt, kannski vegna þess hve sumir stjórnmálamenn tala þunglyndislega þessa dagana, þ.e. að þeir tali upp kreppu. Síðan þegar tillögurnar eru lagðar fram þá virka ýmis atriði í þeim illa, t.d. afnám verðbólgureikningsskila, t.d. hækkun á tryggingagjaldi o.s.frv. þannig að heildarpakkinn var ekki bara lækkun á tekjusköttum fyrirtækja.

Það sem mér finnst eiginlega verst er að hv. efh.- og viðskn., sem í sátu fulltrúar flokks hv. þm., bað ekki um staðfestingu á þessum kenningum. Hún bað ekkert um að láta skoða hvort þetta væri rétt. Mér fannst mjög slæmt og eiginlega allt að því vítavert að hv. efh.- og viðskn. skyldi ekki ganga eftir því og fá sérfræðinga til þess að segja sér hvort þetta sé rétt eða rangt. Hún horfir fram hjá fleiri milljörðum í tekjum fyrir ríkissjóð og gerir ekkert í því.