Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 14:14:23 (2584)

2001-12-06 14:14:23# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það sem hv. þm. kallar vúdú-hagfræði liggur nú bara í augum uppi. Ef hluthafinn sér 82% af hagnaði fyrirtækis síns í staðinn fyrir 70% þá hlýtur hann að meta það sem því nemur meira, því að þegar hluthafinn leggur fram hlutafé, hvort sem hann er að kaupa hlutabréf á markaði eða stofna hlutafélag, metur hann hagnaðinn eftir skatt. Hann sér því þarna 17% meiri tekjustraum til sín og hann hlýtur að meta það 17% meira. Það hlýtur að vera. Annað er ekki rökrétt.

Mörg önnur atriði koma inn í þetta, margir aðrir þættir, framboð og eftirspurn o.s.frv. En þetta atriði eitt sér á að valda þeirri hækkun sem um er talað. Mér finnst slæmt ef hv. efh.- og viðskn., sem hv. þm. á sæti í, hafi snúið sér eingöngu til opinberra aðila sem hafa ekki mikla reynslu af verðbréfamarkaði yfirleitt, þ.e. fjmrn. og ríkisskattstjóra. Það eru ekki aðilar sem eru fremstir í flokki þeirra sem starfa á verðbréfamarkaði í heiminum. Miklu skynsamlegra hefði verið að snúa sér til heimsfrægra endurskoðunarskrifstofa sem hafa hér aðsetur eða aðila sem eru að vinna á markaðnum og spyrja þá, spyrja t.d. hvernig þessi ríkisfyrirtæki hafi verið verðmetin. Þau voru verðmetin akkúrat svona. Og lækkun á skattprósentu þýðir hreinlega að verðmatið hækkar.