Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 14:16:09 (2585)

2001-12-06 14:16:09# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Þær hugmyndir sem hv. þm. Pétur H. Blöndal reifaði hafa heyrst áður og reyndar verið í framkvæmd á tímum Ronalds Reagans í Bandaríkjunum og Margrétar Thatcher í Bretlandi. Þær voru reifaðar á ráðstefnu hægri sinnaðra frjálshyggjuprófessora í hagfræði í háskólanum ekki alls fyrir löngu og hafa birst á prenti í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, kennara við Háskóla Íslands.

Vandinn er sá að þær hafa ekki leitt til þeirrar niðurstöðu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal telur að þær muni óhjákvæmilega gera. Með því að lækka skatta á fyrirtæki og efnamenn muni allt samfélagið hagnast.

En það var eitt sem vakti sérstaklega athygli mína í ræðu hans. Hann sagði að pólitískt væri ekki gerlegt að lækka skatta á fyrirtæki niður í 10%. Hvers vegna er það ekki pólitískt gerlegt? Jú, við mundum, eins og ég skildi það, sæta gagnrýni erlendis frá, því að við yrðum grunuð um græsku að við værum að skjóta skjóli yfir þá sem vildu komast hjá að greiða skatt í heimalandi sínu.

En spurning mín til hv. þm. Péturs H. Blöndals er þessi: Nú höfum við orðið fyrir gagnrýni fyrir nákvæmlega þetta, fyrir að gera tilraun, viðskrn. og Verslunarráðið standa að þeirri tilraun, að lokka til okkar fyrirtæki með því að bjóða þeim upp á skattaívilnun 5% í tekjuskatt, ef ég man rétt. Finnst hv. þm. það vera pólitískt gerlegt eða siðferðilega réttlætanlegt?