Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 14:20:15 (2587)

2001-12-06 14:20:15# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert hvernig hv. þm. metur atvinnustarfsemi almennt, eingöngu út frá því sjónarmiði að hún veiti eigendum sínum arð. Það er nú þannig að menn geta viljað styrkja og stuðla að atvinnustarfsemi sem veitir fólki lífsgæði. Þetta er sjónarhorn sem ég vil minna á en skortir yfirleitt hjá hv. þm.

En til að leggja áherslu mína á hve brotakennd framsetning hv. þm. Péturs H. Blöndals er á þeim kenningum sínum sem hann segir að muni gefa okkur gull og græna skóga, þá vil ég minna á að hann hefur líka sett fram aðrar mjög athyglisverðar kenningar. Hann sagði t.d. í ræðu 10. eða 11. okt. sl. að hægt væri að tryggja sömu þjónustu, sambærilega þjónustu á sjúkrahúsum landsins þótt við fækkuðum sjúkraliðum um helming, hjúkrunarfræðingum um helming, læknum um helming --- sama þjónusta.

Þetta er raunveruleikinn í málflutningi hv. þm. Og ef röksemdafærslan er reist á svipuðum grunni í þessum skattahugleiðingum hv. þm. þá verð ég nú að segja, herra forseti, að ég gef ekki mikið fyrir þær.