Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 14:21:49 (2588)

2001-12-06 14:21:49# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þeir starfsmenn í atvinnulífinu sem starfa hjá fyrirtækjum með góðum hagnaði gætu sagt hv. þm. hver er munurinn á því að starfa hjá fyrirtæki með góðum hagnaði og hjá öðru fyrirtæki sem er rekið með tapi eða stefnir í gjaldþrot, þar sem uppsagnir og annað er yfirvofandi. Þeir munu geta sagt hv. þm. um lífsgæðin sem felast í því að fyrirtækin skili góðum hagnaði og eru vel rekin.

Varðandi það að fækka um helming í heilbrigðisstofnunum þá nefndi ég það að sjávarútvegsfyrirtækin hafa orðið að hagræða vegna samkeppni og þau hafa gert það. Ég nefndi sem dæmi Granda sem er búinn að fækka starfsfólki um meira en helming og framleiðir meira og borgar hærri laun öllum til góða. Það eru lífsgæði, herra forseti.

Það er nefnilega þannig að betri stjórnun, líka hjá opinbera geiranum, skilar sér í meiri hagræðingu og þá geta fyrirtækin borgað hærri laun. Og það eru lífsgæði, herra forseti, ekki að halda öllum í sömu lágu, lélegu laununum hjá gjaldþrota fyrirtækjum.