Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 14:23:08 (2589)

2001-12-06 14:23:08# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég gera þessi ummæli hv. þm. Péturs Blöndals að umræðuefni áður en ég vík að meginefni máls míns.

Það er alveg rétt að í fyrirtækjum eru menn stöðugt að leita eftir hagræðingu og sums staðar hefur það tekist prýðilega. Hið sama á að sjálfsögðu að eiga við um opinbera starfsemi og opinberan rekstur. En við verðum að gá að því að ekki er hægt að setja alla starfsemi undir sama hattinn og mæla árangur samkvæmt sömu mælistikunni.

Ég skal taka sem dæmi að sá starfsmaður á elliheimili sem sýnir eða hefur til að bera þolinmæði og sýnir alúð og umhyggju kann að vera mun verðmætari starfsmaður en hinn sem er fljótur að skipta á rúmunum, svo tekið sé einfalt dæmi. Sá lögreglumaður sem kemur í veg fyrir að fólk fremji afbrot er árangursríkari í starfi en hinn sem er duglegur við að hneppa fólk í varðhald. Þannig getum við ekki borið saman ólíka þætti. Það er ekki hægt að mæla árangur jafnan á grundvelli færibandsins í verksmiðjunum. Á þetta vildi ég leggja áherslu og koma að hér í upphafi máls míns.

Við ræðum nú stóran tekjuskattapakka frá ríkisstjórninni og meiri hlutanum hér á Alþingi. Þegar hann upphaflega birtist var margt mjög óljóst í efnahagsmálum okkar og reyndar blikur þar á lofti. Á síðustu vikum hefur síður en svo birt til því miður, þvert á móti hafa núna komið fram álitsgerðir og greinargerðir frá þeim aðilum sem gaumgæfa efnahagsmálin án þess að hafa pólitísk gleraugu ríkisstjórnarinnar á nefinu. Í áliti Þjóðhagsstofnunar frá því í fyrradag segir að gera megi ráð fyrir að samdráttur á næsta ári verði um 1%, en áður hafði stofnunin spáð því að samdráttur mundi nema um 0,3%. OECD hafði þá einnig sett fram sína spádóma um 0,6% samdrátt á næsta ári. Það er því ljóst að aðstæður eru allar mjög óljósar.

Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal í því að við eigum að reyna að forðast að tala hér upp kreppu eða stuðla að svartsýni. En við þurfum engu að síður að vera raunsæ, að leggja raunsætt mat á nútíðina og á framtíðina, vegna þess að --- ég man nú ekki hvernig hv. þm. orðaði það sjálfur --- að lántökur í dag eru skuldbindingar og útgjöld á morgun, og við verðum að reyna að gera okkur grein fyrir því hver hagur okkar verður þegar fram líða stundir.

Tillögur ríkisstjórnarinnar um skattkerfisbreytingar hafa verið mjög harðlega gagnrýndar og úr mörgum áttum og sumum óvæntum, eins og ég mun koma að síðar.

Samtök launafólks hafa helst fundið að því að þessar skattkerfisbreytingar séu ranglátar, þær ívilni fjársterkum aðilum og í stað þess að gera stórátak til að bæta kjör þeirra sem illa eru settir í þjóðfélaginu, láglaunafólki, öryrkjum og öldruðum, þá sé hinum fjársterku ívilnað með þessum skattapakka. Reyndar er ein undantekning þar á og það eru húsaleigubæturnar. Gert er ráð fyrir að afnema skattlagningu á húsaleigubætur og öll samtök sem tjá sig um skattapakkann þar sem almenningur kemur að, Alþýðusambandið, BSRB, Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara fagna þeirri ráðstöfun en gagnrýna hinar þegar á heildina er litið. Reyndar vil ég nefna sérstaklega þó að lækkun tekjuskattshlutfallsins um 0,33% er almennt vel tekið, enda litið á hana í samhengi fyrri ráðstafana þar sem ákveðið var að veita sveitarfélögunum heimild til að hækka útsvar. Í því samhengi skoða menn þá ráðstöfun.

Þá hafa samtök launafólks bent á að tillögurnar séu ekki til þess fallnar að treysta atvinnustigið í landinu. Þvert á móti sé líklegt að skattkerfisbreytingarnar mundu veikja þau fyrirtæki sem standa illa og kæmu þar af leiðandi til með að leiða til vaxandi atvinnuleysis.

Atvinnuleysi er mjög lítið nú um stundir. Það er rétt rúmlega 1%, 1,2%, ef ég man rétt og hefur ekki verið lægra í langan tíma. En spár sem nú eru gerðar sýna fram á eða gera ráð fyrir, því miður, vaxandi atvinnuleysi. Og menn eru núna að gera því skóna að atvinnuleysi á næsta ári verði um 2%.

Í þessum skattapakka hefur einnig verið bent á að ýmis tæknileg vandkvæði séu því samfara þegar misræmi er á milli skattlagningar á fjármagn, fyrirtæki og launafólk. Í tillögum ríkisstjórnarinnar er enn aukið á þetta misræmi --- sem margir vildu kalla misrétti að auki --- launafólki í óhag.

Þá hafa sveitarfélögin sett fram gagnrýni sum hver vegna rýrnandi tekna þeirra sem þessi skattapakki leiðir af sér.

Af hálfu Þjóðhagsstofnunar --- reyndar er tekið undir það sjónarmið einnig hjá Seðlabankanum --- hefur verið bent á að ríkissjóður stæði tæpt ef ekki væri vegna tímabundinnar sölu á ríkiseignum. Og það er varað við því að ráðist verði í grundvallarbreytingar á skattkerfinu í ljósi mjög tímabundinna aðstæðna. Vegna þess að ríkissjóður sé tímabundið að hagnast á því að selja eignir ríkisins þá eigi menn ekki að láta blekkjast af því.

[14:30]

Í ljósi þessarar gagnrýni og þeirrar óvissu sem nú er uppi í efnahagsmálum hef ég gert tillögu um að þessum skattkerfisbreytingum verði skotið á frest með undantekningum þó, með þeirri undantekningu að skattlagningu á húsaleigubætur verði hætt og að tekjuskattslækkunin til einstaklinga komi til framkvæmda. Ég held að það væri mjög skynsamlegt vegna þess að raunsætt talað held ég að menn séu búnir að læsa sig svo rækilega niður í þessar lausnir sínar að litlu verði hnikað nema menn ræði hlutina ofan í kjölinn og gefi sér til þess tóm. Þá held ég að hyggilegt væri að stofnað yrði til víðtæks samstarfs, bæði þverpólitískt á þingi og í þjóðfélaginu almennt, fulltrúar verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnurekenda yrðu kallaðir að borði til að móta hér skattastefnu sem samstaða gæti verið um.

Ég held að samstaða sé um það, bæði hér á þingi og hjá fulltrúum atvinnulífsins, að menn vilji hafa hér skatta og skattaumhverfi sem sé hagstætt samfélaginu öllu, atvinnurekstrinum og fólkinu sem býr í þessu landi. Mönnum gremst að hér skuli keyrðar í gegn skattkerfisbreytingar sem ívilna hinum tekjuhærri en eru sannanlega á kostnað hinna sem minni hafa tekjurnar.

Að mínum dómi ætti við slíka endurskoðun að hafa eftirfarandi atriði að leiðarljósi: Það verði stefnt að því að samræma skatta á lögaðila, fjármagn og laun. Til að ná því markmiði væri nauðsynlegt að hækka fjármagnstekjuskatt frá því sem nú er en jafnframt hækka persónuafslátt og tryggja með því móti hækkun skattleysismarka fyrir einstaklinga. Þetta er reyndar í þeim anda sem Samfylkingin hefur gert tillögur um, að hækka t.d. fjármagnstekjuskattinn úr 10% í 16%, ef ég man rétt. Samfylkingin vill líka lækka tekjuskatt fyrirtækja, fara með hann úr 30% í 25%. Þetta er allt skoðunarvert ef samstaða skapast einnig um aðra þætti.

Þess vegna þótti mér hyggilegast að gera tillögu um það núna á þessu stigi að við skytum þessum grundvallarskattkerfisbreytingum á frest og freistuðum þess að ná um það þjóðarsamstöðu að skapa hér skattkerfi sem sátt gæti orðið um.

Nú ætla ég að víkja að einstökum efnisatriðum í þessu frv. og þáttum sem hafa komið til umræðu. Ég sagði að tillögur ríkisstjórnarinnar ívilnuðu sérstaklega fjársterkum fyrirtækjum og einstaklingum. Hvernig gerist það? Jú, tekjuskattur fyrirtækja er lækkaður úr 30% í 18%. Síðan gerist það einnig gagnvart einstaklingunum að viðmiðunarmörk hátekjuskattsins eru hækkuð um 15%, þ.e. úr tæpum 280 þús. kr. í rúmar 322 þús. kr. Þetta er sá hópur sem ríkisstjórnin vill svona fyrst og fremst standa vörð um, það er fólkið sem er með yfir 280 þús. kr. á mánuði. En handa hinum sem minna hafa og minnstar tekjurnar hafa, sem eru með undir 70 þús. kr. eins og atvinnulaust fólk er með, eru engar bætur. Það er enginn í Stjórnarráðinu sem stendur vörð um hag þess fólks, ekki nokkur maður. En endilega þarf að færa viðmiðunarmörk hátekjuskattsins upp og færa hann úr 280 þús. í 322 þús. kr. Mér finnst þetta vera fullkomið siðleysi.

Þetta er með öðrum orðum, eins og ég gat um, án þess að samsvarandi breyting sé gerð á skattleysismörkum þeirra sem hafa minni tekjur en þessu nemur. Það er verið að ívilna fólkinu sem er með yfir 280 þús. kr. á mánuði, færa skattleysismörk þess upp í 322 þús., en hinir eru skildir eftir sem minnstar tekjurnar hafa. Það er ekki hreyft við skattleysismörkunum, persónuafslátturinn er ekki færður til og stendur ekki til að gera.

Þetta er harðlega gagnrýnt í greinargerðum sem efh.- og viðskn. bárust. Í töflum sem fylgja þessum álitum er okkur ágætlega sýnt fram á hvernig skattar hér hafa breyst á liðnum árum. Það er ekkert mjög langt síðan tekjuskattar fyrirtækja voru yfir 50%. Síðan voru þeir færðir niður í 33%, úr 33% voru þeir færðir niður í 30% og nú stendur til að fara með þá niður í 18%.

Ef litið er á tekjuskatta einstaklinganna voru þeir 35,20% fyrir rúmum tíu árum, árið 1988. Hvað skyldu þeir vera nú? Þeir eru 38,76%. Tekjuskattar einstaklinganna hafa hækkað. Þegar hæstv. fjmrh. gumar af því að hann sé að lækka stórlega tekjuskatta einstaklinga er það alveg rétt --- að því marki að þeir voru hærra hlutfall um miðjan áratuginn. Árið 1993 voru þeir komnir upp í 41,34% og fóru reyndar hæst 1997 upp í 41,98%. Sé miðað við þá tölu eru þeir lægri nú eins og ég nefndi, 38,76%. Ef við förum hins vegar lengra aftur í tímann var þetta skatthlutfall miklu lægra. Árið 1988, á sama tíma og tekjuskatturinn var í 35,20% hjá einstaklingum, var fyrirtækjaskatturinn 50%, og hann er kominn niður í 30%. Við þessu ætla þeir að hreyfa núna eða þau, sem sitja í ríkisstjórninni, og meiri hlutinn sem þau styðjast við hér á Alþingi. Þau ætla að færa þennan skatt enn þá lengra niður en láta einstaklingana standa í stað, aðra en þá sem hafa hæstu tekjurnar, eru með yfir 280 þús. kr. á mánuði. Það þarf að standa sérstaklega vörð um þá.

Í greinargerðum sem okkur hafa borist er síðan tíundað mjög rækilega hvaða afleiðingar þetta hefur. Í ályktunum sem samtök launafólks og önnur almannasamtök hafa sent frá sér er víða vakin athygli á því ranglæti sem ég hef tíundað og þessar tillögur fela í sér. Í umsögn ASÍ er farið yfir valkosti við þessar skattatillögur ríkisstjórnarinnar. Þar er einnig fjallað um það misrétti sem í tillögunum er, og er í því sambandi sérstaklega vísað til breytinga á hátekjuskattinum. Og ég ætla að vitna aðeins í þetta álit Alþýðusambands, með leyfi forseta:

,,Þegar tölur um greiðendur hátekjuskatts vegna tekna árið 2000 eru skoðaðar, kemur í ljós að tæplega 7% tekjuskattsgreiðenda greiða hátekjuskatt eða um 14 þúsund af þeim 214 þúsund sem gefa upp tekjur til skatts. Ef einungis eru skoðaðir þeir sem greiða tekjuskatt nettó, þ.e. greiða tekjuskatt umfram bætur, þá eru þeir 156.600. Hlutfall þeirra sem greiða hátekjuskatt, reiknað af þeim hópi, er 9,3%. Einungis um 3% kvenna greiða hátekjuskatt og aðeins 2,9% giftra kvenna. Um 10,7% karla greiða hátekjuskatt og af giftum körlum greiða um 11% hátekjuskatt. Fjölmennasti hópurinn sem greiðir hátekjuskatt er í hópnum hjón eða 11,8%.

Af þessum tölum má ljóst vera að mikill minni hluti greiðir hátekjuskatt. Með þessari breytingu er því verið að setja 600 milljónir til að lækka sérstaklega skatt hjá minna en 10% þjóðarinnar. Með hækkun viðmiðunarmarka lækkar skattur þeirra sem hafa tekjur yfir 320 þúsund kr. á mánuði í ár um 3.000 kr. á mánuði eða um 35 þúsund krónur á ári og á næsta ári um 3.600 krónur á mánuði eða um 43 þúsund á ári.``

Hvað var það mikið sem þeir höfðu af öryrkjunum í upphafi árs? Voru það ekki tölur á þessu bili sem þeir með handafli færðu niður eftir að Hæstiréttur hafði kveðið upp úrskurð sinn? En nú eru þeir að reiða þessar sömu upphæðir fram til þeirra einstaklinga í þjóðfélaginu sem mestar hafa tekjurnar. Og það verður fróðlegt að sjá hvernig menn greiða atkvæði hér á Alþingi þegar þessar tillögur verða bornar upp. Þeir eru sem sagt að færa þessum hópum 35 þús. kr. núna og 43 þús. kr. á næsta ári.

Síðan segir áfram í álitsgerð ASÍ, með leyfi forseta:

,,Fyrir 600 milljónir hefði mátt hækka skattleysismörkin um 800 krónur á mánuði, úr 65.132 kr. í 65.932 kr. Hækkun skattleysismarka lækkar vissulega skattbyrði allra sem hafa tekjur yfir skattleysismörkum en lækkar þó hlutfallslega mest skattbyrði þeirra tekjulægstu. Hækkun skattleysismarka um 800 krónur hefur í för með sér að allir sem hafa tekjur yfir skattleysismörkum greiða 310 króna lægri skatt á mánuði.

Alþýðusamband Íslands leggst gegn því að skattleysismörk í hátekjuskatti séu hækkuð eins og lagt er til í frumvarpinu og telur að almenn aðgerð eins og t.d. hækkun skattleysismarka eða lækkun almennu tekjuskattsprósentunnar sé betur fallin til tekjujöfnunar.``

Þetta er umhugsunarvert. Þetta eru pólitískar áherslur fyrst og fremst. Ekki nóg með það náttúrlega, þessar klukkustundirnar er verið að kynna nýjar tillögur um að taka skatta, notendagjöld á sjúkrahúsunum, að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvarnar og gjöldin til sérfræðinga.

Ég verð að segja að ég hef ákveðna samúð með hæstv. heilbrrh. vegna þess að hart er að honum sótt. Ég geri mér fulla grein fyrir því. Hann hefur verið að reyna að standa hér vörð um velferðarþjónustuna og gegn haukunum í Sjálfstfl. sem þar vilja allt einkavæða, setja allt á markað. Og ég tek ofan fyrir honum fyrir að standa í fæturna gegn þessum aðilum. Nú hefur það greinilega gerst að að honum er lagt að færa komugjöldin upp og tilkostnað sjúklinganna. Ég er því mjög andvígur að fara inn á þessa braut vegna þess að staðreyndin er að þegar útgjöld heimilanna eru skoðuð undangenginn áratug, bæði hvað varðar lyfjakostnað og beinan notendakostnað, komugjöld á heilsugæslustöðvar og greiðslur fyrir röntgenmyndir og aðra þjónustu og aðhlynningu sem fólk fær í heilbrigðiskerfinu, hafa þessi útgjöld stóraukist. Og við minnumst þess þegar landslæknisembættið lét fyrir fáeinum árum gera könnun á því hvaða afleiðingar þetta hefði haft í þjóðfélaginu. Þá kom í ljós að tekjulægsta fólkið var farið að veigra sér við að leita læknisþjónustu vegna þess að það hafði ekki ráð á henni. Það var fyrst og fremst í tannlækningum en þess var farið að gæta einnig á öðrum sviðum. Við erum þannig að fara inn á mjög varasama braut með því að hækka þessi gjöld.

[14:45]

Ég vitnaði hér í álitsgerð ASÍ. BSRB tekur undir þetta, er með mjög svipaða tóna í álitsgerð sinni. Bæði samtökin fagna niðurfellingu á skattlagningu húsaleigubótanna og segir í umsögn BSRB, með leyfi forseta, að hún sé til þess fallin ,,að auka jafnræði á milli heimila í landinu óháð eignarformi á húsnæði. Aðrar skattkerfisbreytingar sem hér eru lagðar til eru flestar til þess fallnar að bæta stöðu fjársterkra aðila hvort heldur um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. Þannig eru viðmiðunarmörk svokallaðs hátekjuskatts hækkuð langt umfram verðlagsþróun í stað þess að hækka persónuafslátt og þar með skattleysismörk sem gagnast hefði öllum almenningi í landinu. Þetta gengur þvert gegn áherslum BSRB um að nýta skattkerfið til tekjujöfnunar.``

Þetta segja þessi samtök launafólks á Íslandi, benda á aðra valkosti, aðrar leiðir sem hefði mátt fara ef á annað borð stóð til að lækka skatta, sem ég reyndar hef ákveðnar efasemdir um, ég tel að við eigum að fara mjög varlega þar í sakirnar. En hinar pólitísku áherslur, þessar áherslur ríkisstjórnarinnar, áherslur hæstv. fjmrh. eru náttúrlega forkastanlegar. Það eru ekki bara heildarsamtök launafólks sem gagnrýna þær, það eru nánast öll samtök sem standa vörð um almannahagsmuni, t.d. Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara. Allir gagnrýna þessar áherslur, hinar pólitísku áherslur ríkisstjórnarinnar mjög harðlega.

Þá hefur verið á það bent að tillögur ríkisstjórnarinnar komi til með að veikja stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga. Að mati fjmrn. munu skattbreytingarnar hafa í för með sér tekjurýrnun sem nemur rúmum 7 milljörðum, 7,1 milljarði kr., en ráðuneytið telur þó að breytingarnar muni hafa í för með sér aukin efnahagsumsvif sem metin eru á 3,5 milljarða. Þetta leyfi ég mér nú reyndar að draga stórlega í efa að standist. Þvert á móti er líklegt að þessar skattkerfisbreytingar muni þrengja að fyrirtækjum sem eiga í rekstrarerfiðleikum, því skattaívilnanir sem er að finna í frv. og í tillögunum munu fyrst og fremst falla í skaut þeirra fyrirtækja sem hafa hagnað af rekstri sínum. Öllum fyrirtækjum verður hins vegar gert að greiða hærra tryggingagjald óháð rekstrarstöðu. En þess skal getið að 7 milljarðarnir sem ég vék að taka til þessa tímabils, þessara tveggja ára sem skattbreytingarnar koma til framkvæmda.

Varðandi afkomu sveitarfélaganna í tengslum við skattkerfisbreytingarnar þá er meiri óvissa um hvaða áhrif þær muni hafa á hag þeirra en á við um ríkið. Það eru að vísu óvissuþættir gagnvart ríkinu. Við heyrðum það hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, og það hefur komið fram hjá stjórnarmeirihlutanum, að þessir aðilar telja að með því að lækka skatta á fyrirtæki muni þeim vegna betur og þau munu þar af leiðandi verða líkleg til að veita skattfé inn í fjárhirslur ríkisins á komandi tímum.

En ég er að leggja áherslu á, og það eru margir sem taka undir það sjónarmið, að einmitt vegna þess að skatta\-ívilnanir koma fyrst og fremst þeim til góða sem hafa þegar hagnað, ekki hinum sem berjast í bökkum, sem eiga í rekstrarerfiðleikum, á þau eru settar auknar klyfjar með hækkun tryggingagjaldsins, og þar hefði náttúrlega átt að bera niður fyrst og fremst.

Varðandi afkomu sveitarfélaganna er staðan óvissari og þar stangast á álitsgerðir sem fram hafa verið reiddar. Þannig metur Reykjavíkurborg tekjutap sveitarfélaganna mun meira en Þjóðhagsstofnun gerir. Reykjavíkurborg metur þetta tekjutap sveitarfélaganna tvisvar eða þrisvar sinnum meira en Þjóðhagsstofnun. Reyndar er ein tala sem Þjóðhagsstofnun sleppir. Þetta gerist þannig að sveitarfélögin eru launagreiðendur sem þurfa að greiða tryggingagjald fyrir starfsmenn sína og það mun koma fram í auknum úgjöldum þeirra. Þjóðhagsstofnun metur að slík útgjöld fyrir sveitarfélögin í landinu muni nema um 400--450 millj. á ári fyrir tryggingagjaldið. Og Reykjavíkurborg nefnir svipaða tölu.

Þetta á að sjálfsögðu líka við um ríkið. Ríkið greiðir tryggingagjald fyrir starfsmenn ríkisins. En ríkið fær síðan þessar tekjur á móti aftur inn sem skatttekjur, þannig að þegar upp er staðið er ríkissjóður að sjálfsögðu í plús en þetta er einvörðungu útgjöld fyrir sveitarfélögin.

Þjóðhagsstofnun og Reykjavíkurborg nefna svipaða tölu hér, 400--450 millj., vegna hækkunar tryggingagjaldsins. Báðir þessir aðilar telja að tekjur sveitarfélaganna geti minnkað um 90 millj. vegna skattfrelsis húsaleigubóta, vegna þess að hætt er að skilgreina húsaleigubætur sem tekjur og hætt að skattleggja þær og þá verða sveitarfélögin þarna af 90 millj. kr.

Það er mat beggja aðila að með því að sjálfstæður atvinnurekstur færist í auknum mæli í einkahlutafélagsform og að tilfærsla verði á milli launa og hagnaðar muni tekjur af útsvari skerðast.

Þjóðhagsstofnun telur tekjuáhrif sveitarfélaganna vegna lækkunar útsvarstekna óviss. Þjóðhagsstofnun nefnir engar tölur í þessu sambandi.

Reykjavíkurborg telur hins vegar að vegna þessara breytinga á rekstrarformi einstaklingsreksturs muni tekjur sveitarfélaganna rýrna um 1.320 millj. kr. Þarna hafa verið nefndar ýmsar aðrar tölur og mun lægri. Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ef ég man rétt og ýmsum öðrum aðilum sem hafa sett fram tölur en þessi tala er nefnd af hálfu reiknimeistara Reykjavíkurborgar.

Þá má nefna að Þjóðhagsstofnun telur að þessar breytingar muni rýra tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Alls metur Þjóðhagsstofnun bein áhrif á afkomu sveitarfélaganna nema a.m.k. 500--550 millj. kr. á ári, en samkvæmt útreikningum Reykjavíkurborgar er þessi upphæð 1,7 milljarðar eða þar um bil. En þarna eins og ég gat um er að sjálfsögðu mikil óvissa. Eitt er það að menn vita ekki hve mikil brögð verða að því að einstaklingar sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur og hafa verið skattlagðir sem einstaklingar á grundvelli tekjuskatts, færa sig yfir í þetta nýja rekstrarform og gera sjálfa sig að einkahlutafélagi sem greiðir mun lægri skatta, bæði lægri skatta og annars konar skatta, ekki tekjuskatta sem sveitarfélögin fá útsvar af heldur fyrirtækjaskatta sem renna til ríkisins.

Þetta eru ástæðurnar, meginástæðurnar fyrir því að hagur sveitarfélaganna mun skerðast, verður slakari. Bent hefur verið á það m.a. í tengslum við umræðu um fjárlögin hve erfiður hagur sveitarfélaganna víða er. Hv. þm. Jón Bjarnason gat um það að skuldir sveitarfélaganna hefðu vaxið mjög á undanförnum árum og að gert væri ráð fyrir því, þetta kemur fram í minnihlutaáliti hans með fjáraukalögunum, að skuldir sveitarfélaganna aukist úr 49,5 milljörðum í 53 milljarða kr. á þessu ári. Þetta er þróunin hjá sveitarfélögunum. Og það er mjög varasamt við þessar aðstæður að draga úr tekjumöguleikum þeirra eins og gert er ráð fyrir í tekjupakka ríkisstjórnarinnar. Það er ekki aðeins óráðlegt, það er mjög óábyrgt að gera það við þessar aðstæður. Mjög óábyrgt.

Og þar kem ég að kafla í álitsgerð minni sem ég nefni: Óskynsamleg skattheimta -- efnahagslegt glapræði.

Skattatillögur ríkisstjórnarinnar hafa verið gagnrýndar á þeirri forsendu að þær séu ekki skynsamlegar og það er tvennt sem hefur sérstaklega verið nefnt í því samhengi.

Í fyrsta lagi hafa verið bornar brigður á að lækkun tekjuskatta fyrirtækja jafnhliða hækkun tryggingagjalds sé skynsamleg með hliðsjón af því efnahagsástandi sem nú blasir við. Ljóst er að vaxandi fjöldi fyrirtækja á við rekstrarörðugleika að etja. Í þessu sambandi er vísað í rökstuðning sem fram kemur í þeim álitsgerðum sem hafa verið gerðar að umræðuefni sérstaklega hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ég mun víkja að hér á eftir. Gagnrýnin byggir á því að með tillögum ríkisstjórnarinnar sé sérstaklega komið til móts við þau fyrirtæki sem sýna hagnað en auknar klyfjar settar á hin sem engan hagnað hafa. Og þar kemur sem sagt tryggingagjaldið til sögunnar.

Ég vil þó taka fram að þegar við ræðum um tryggingagjaldið, hið illa tryggingagjald, að tryggingagjaldið fjármagnar að sjálfsögðu þætti sem við hljótum öll að leggja mikið upp úr að séu í lagi, að fjármunir séu fyrir hendi til að standa straum af kostnaðinum við. Atvinnuleysisbætur eru fjármagnaðar með tryggingagjaldinu. Fæðingarorlofið er fjármagnað af tryggingagjaldinu. Af tryggingagjaldinu er greitt til almannatrygginga. Þetta eru skattpeningar sem við þurfum á að halda.

Spurningin er einvörðungu þessi: Er hyggilegt við þær aðstæður sem við búum við í þjóðfélaginu núna, fyrirsjáanlegan samdrátt, er hyggilegt við þær aðstæður að leggja auknar klyfjar á þau fyrirtæki sem engan hagnað hafa? Og ekki síður hitt að setja á skattlagningu sem tengist launafólki, launagjöldum? Verður það ekki til þess að rýra möguleika þeirra til að halda fólki í vinnu? Eru þetta ekki rangar áherslur? Hefðum við ekki átt að fresta ákvörðunum um lækkun tryggingagjalds, það kemur reyndar ekki til sögunnar fyrr en að ári, en ættum við ekki að fresta þessu, en jafnframt fresta því að fara með tekjuskattinn niður eins og hér er lagt til?

Það eru mjög athyglisverð sjónarmið sem fram koma í greinargerðum Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar. Þetta eru nú ekki róttækustu stofnanir í landinu, Seðlabankinn sérstaklega, hann er ekki vanur að hafa uppi mjög harða gagnrýni á ríkisstjórnina, en ég fæ ekki betur séð en að í álitsgerð Seðlabankans og álitsgerð Þjóðhagsstofnunar, sé mjög þungur, alvarlegur aðvörunartónn. Um líklegar afleiðingar þessara skattkerfisbreytinga segir m.a. í áliti frá Seðlabanka Íslands, með leyfi forseta:

[15:00]

,,Skattalækkanir sem boðaðar eru í frumvarpinu munu minnka tekjur ríkissjóðs á árinu 2002 og hugsanlega lengur. Þessi áhrif verður að skoða í ljósi stöðu ríkissjóðs og hagsveiflunnar. Afkoma ríkissjóðs hefur veikst á þessu ári vegna nýrra útgjalda ríkisins og samdráttar í neyslu almennings. Að frátöldum tekjum af eignasölu er nú því sem næst jöfnuður á ríkisbúskapnum, þrátt fyrir að þjóðarútgjöld séu enn meiri en þjóðartekjur og ríkið njóti þess í skatttekjum. Af þessum sökum er óæskilegt að rýra frekar afkomu ríkissjóðs á þessu stigi.`` En það er verið að leggja það til. Það er verið að biðja þingið að samþykkja nákvæmlega þetta. Og ég held áfram:

,,Af þeim sökum er óæskilegt að rýra frekar afkomu ríkissjóðs á þessu stigi og æskilegra væri að skattbreytingarnar hefðu ekki áhrif á heildartekjur.

Þótt boðaðar skattbreytingar miði að því að örva framboðshlið þjóðarbúskaparins mun áhrifanna gæta fyrst á eftirspurnarhlið. Því er almennt æskilegra að gera slíkar breytingar þegar lægð er í þjóðarbúskapnum fremur en uppsveifla. Sem stendur gætir enn umtalsverðrar framleiðsluspennu í þjóðarbúskapnum. Á meðan hún er fyrir hendi eru aðgerðir sem tafið gætu óhjákvæmilega aðlögun þjóðarútgjalda að þjóðartekjum óæskilegar.``

Er ekki alveg skýrt hvað verið er að segja hér? (Gripið fram í: Mótsögn.) Mótsögn, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, og verður fróðlegt að heyra hann skýra fyrir okkur þessar mótsagnir sem hann er að uppgötva hér hjá Seðlabankanum. En um sama efnir segir í greinargerð Þjóðhagsstofnunar, með leyfi forseta:

,,Rétt er að vekja athygli á nokkrum álitamálum. Þar skiptir tvennt mestu máli. Annars vegar veikja þessar breytingar afkomu ríkissjóðs og sveitarfélaga, þótt mat á áhrifum á afkomu sé nokkurri óvissu háð, einkum að því er varðar nettóáhrifin, og fyrir vikið kunna þær að leiða til hærri vaxta en ella. Þetta stafar af því að stjórnvöld hafa í meginatriðum tvö tæki til að halda aftur af þenslu og verðbólgu, þ.e. vexti og afkomu ríkissjóðs. Það leiðir því af sjálfu sér að eftirgjöf á öðru sviðinu felur að öðru óbreyttu í sér þörf fyrir aukið aðhald á hinu sviðinu.``

Einhverjir kunna að segja að ríkissjóður og ríkisstjórnin eigi tveggja kosta völ hér, þ.e. annars vegar að falla frá þessum áformum eða skera niður ríkisútgjöldin. Það er það sem þau eru að reyna að gera. Og ég hélt, herra forseti, að sá tími væri liðinn að það yrði reyndur flatur niðurskurður til að spara í ríkisútgjöldum. Ég hélt að sá tími væri liðinn. En menn ætla að fara þá leið núna.

Ég veit ekki betur en að stjórnsýslunni sé almennt gert að skera niður um 1%, alveg óháð því hver staðan er, og reksturinn. Ég vona að einhver leiðrétti mig ef þetta er rangt. Ég hélt að þetta væri liðin tíð. Ég hélt að menn skoðuðu hvert tilvik fyrir sig, hverja stofnun, athuguðu hvort hægt væri að hagræða í starfseminni og tækju ákvörðun í kjölfarið, í stað þess að beita svona mistýrðri reglustikuaðferð. Þetta er eitt sem hefur verið gagnrýnt varðandi skattheimtuna, að hún sé óskynsamleg.

Hitt atriðið sem hefur verið nefnt í því sambandi er að þetta séu óskynsamlegar ráðstafanir, þ.e. gagnrýnt hefur verið að skattapakkinn auki á misræmi í skattkerfinu. Sú staðreynd að launafólk býr við mun hærri skatta en fyrirtæki ýtir undir gerviverktöku og að einstaklingar með rekstur flytji sig yfir í hlutafélagsform til að geta greitt lægri skatta. Æskilegt væri að stefnt væri að jafnari skattlagningu og, eins og ég gat um áðan og kemur fram í upphafi minnihlutaálitsins sem ég rita nafn mitt undir, tel ég æskilegt að hækka fjármagnstekjuskatt en fráleitt að samanlagðir fjármagnstekjuskattar og tekjuskattur fyrirtækja séu lægri en skattur á einstaklinga. Það er lágmarkskrafa að þarna búi einstaklingar ekki við þyngri skattlagningu. Og þegar ég tala um samræmingu finnst mér eðlilegt að leitað sé eftir samræmingu þarna á milli, tekjuskatta einstaklinga annars vegar og hins vegar samanlagðra rekstrarskatta fyrirtækja og fjármagnstekjuskatts. Þetta er nokkuð sem ég hefði talið að þingið ætti að taka sér góðan tíma í að gaumgæfa.

Við höfum ákveðið að setja ekki fram ákveðnar tillögur um þetta á þessu stigi til þess eins að láta sópa þeim út af borðinu en viljum vekja athygli á þessum meginmarkmiðum sem við teljum mikilvægt að fleiri komi að til þess að móta hér skattastefnu, skattaumhverfi sem sæmileg sátt gæti orðið um.

Í þessari umræðu um skatta má ekki gleymast að skattar eru til margs brúks til þess að afla ríki og sveitarfélögum, almannasjóðum, tekna. Þeir eru líka til þess að auka á jöfnuð í þjóðfélaginu. Þeir hafa gildi í þá veru og þegar lækkun skatta og skattkerfisbreytingar ber á góma er nauðsynlegt að ræða það í samhengi við hugsanlegar afleiðingar.

Og þá þarf að spyrja hvorn kostinn menn velja, að greiða fyrir þjónustu með sköttum eða notendagjöldum. Þetta eru valkostirnir. (Gripið fram í.) Í viðamikilli könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi haustið 1998 fyrir BSRB þar sem könnuð voru viðhorf fólks til velferðarríkisins á Íslandi kom fram afdráttarlaus vilji til að greiða fyrir velferðarþjónustu með sköttum en ekki notendagjöldum. Og 67% þeirra sem voru spurðir voru reiðubúnir að greiða hærri skatta en þeir greiða nú til að bæta velferðarþjónustuna á Íslandi. Það var gerð svipuð, heldur minni, könnun árið 1989 og þegar þessar tvær eru bornar saman, annars vegar könnunin 1989 og hins vegar hin 1998, kom í ljós að andstaðan gegn notendagjöldum fer vaxandi. 1989 voru 60% landsmanna sem lýstu andstöðu við notendagjöld. Í könnuninni 1998 var þessi hlutfallstala komin upp í 71%. Andstaðan gegn notendagjöldunum hefur farið vaxandi eftir að menn fóru að kynnast þeim.

Góð velferðar- og almannaþjónusta gagnast öllu samfélaginu og er forsenda kröftugs atvinnulífs. Það er svolítið gaman að segja frá könnun sem framkvæmd var í Danmörku árið 1996, ég held að danska atvinnumálaráðuneytið hafi látið gera þá könnun meðal atvinnurekenda þar í landi. Þeir voru spurðir: Hvað er það sem skiptir ykkur máli þegar þið takið ákvörðun um hvar þið setjið fyrirtæki á stofn? Yfir 90% sögðu að skólamál skiptu mestu máli. Á svipuðu róli var afstaðan til heilbrigðismála og löggæslu. Fast á hæla þessara þriggja þátta með yfir 80% komu leikskólarnir og ýmsir þættir í stoðkerfi samfélagsins. Menn vildu hafa samgöngur í lagi, veitur, síma og póst. Tæplega 80% lögðu áherslu á öldrunarþjónustu.

Oft eru menn að stilla þessu upp sem andstæðum, annars vegar fyrirtækjum á markaði og hins vegar almannaþjónustunni. Þetta eru engar andstæður. Til þess að atvinnureksturinn geti blómstrað þarf þetta stoðkerfi að vera í lagi. Og til að það sé í lagi þarf að greiða fyrir það. Og þjóðin vill gera það með sköttum en ekki með notendagjöldum.

Menn hafa verið að velta vöngum yfir því hvernig við getum tryggt að íslensk fyrirtæki vilji vera hér á landi og jafnvel hvernig við förum að því að laða erlend fyrirtæki til landsins. Þá hafa menn einblínt á skattaráðstafanir í þeim efnum og sagt: Við skulum reyna að lækka skattana, þá munu fyrirtækin streyma hingað.

En þegar allt kemur til alls er það þetta sem þau eru að horfa til, þ.e. ef um er að ræða einhvern atvinnurekstur, ef ekki er um að ræða skúffu í skrifborði þar sem menn eru að færa til fjármuni. Ef menn eru að tala um atvinnurekstur sem hefur starfsmenn innan borðs eru þetta einfaldlega þær kröfur sem fólk gerir. Það vill hafa samgöngur í lagi, það vill geta tengst netinu, sent börnin sín á leikskóla, fengið aðhlynningu í heilbrigðisstofnunum, löggæslan þarf að vera í lagi o.s.frv.

Ég held að þetta skipti miklu meira máli fyrir atvinnureksturinn heldur en hver skattprósentan er.

Staðreyndin er sú að við erum á alveg kolvitlausri leið þegar við erum að velta fyrir okkur hvernig eigi að byggja hér upp atvinnulíf. Við eigum að fara í ríkari mæli út á þá braut að veita stofnstyrki og aðstoða fyrirtæki við að koma undir sig fótunum, treysta rekstrargrundvöllinn undir sér en þegar þau fara að hagnast, þegar þau fara að skila arði, eiga þau að sjálfsögðu að greiða til samfélagsins. Hér er ríkisstjórnin að fara alveg þveröfuga leið. Hún heldur að menn hugsi um það eitt hvernig þeir geti hagnast og grætt á fyrirtækinu. Þetta er ekki hið almenna viðhorf. Menn vilja hafa traustan rekstur í fyrirtæki sínu og sjá fram á varanleika og þá eru það þessir þættir sem skipta máli.

Ég man eftir því að ég var á ráðstefnu sem EFTA stóð fyrir fyrir hálfu öðru ári, held ég, á Hótel Sögu. Þangað kom maður frá Írlandi sem hélt mikla ræðu um írska undrið, hversu stórvel þeim hefði vegnað eftir að þeir lækkuðu þar skatta, sem eru reyndar hærri en þeir eru á Íslandi --- þetta eru svolitlar blekkingar sem þarna hafa verið hafðar í frammi --- en hann sagði að það væri alveg stórkostlegt hvað þeim hefði vegnað vel. Og hann hélt sína ræðu. Síðan stóð upp maður, þrútinn mjög í framan, rauður og reiður, íhaldsmaður frá Evrópu. Hann sagði: Gerir þú þér ekki grein fyrir því að írska efnahagsundrið byggir að verulegu leyti á þeim tugmilljörðum sem Evrópusambandið hefur dælt inn í írska hagkerfið úr skattpyngju Evrópumanna? Þarna er komin ástæðan, sagði þessi maður, og taldi þetta nánast ósiðlegan málflutning.

Staðreyndin er sú að Íslendingar eru almennt með lægri skatta en gerist á Írlandi. Ég er með töflu yfir þetta en ég ætla ekki að þreyta menn með því að fara að lesa hana upp.

Þetta er sem sagt um mikilvægi skattanna. Og hvers vegna er ég að eyða tíma í þetta? Vegna þess að mér finnst að í þessari umræðu vilji menn gleyma þessu, til hvers við erum að leggja skatta á þjóðina, hvers vegna við greiðum skatta til samfélagsins. Innflutningurinn í seinni tíð á hægri sinnuðum frjálshyggjupostulum --- ég held að þeir hafi fundið þá allra hægri sinnuðustu í heiminum og safnað þeim saman í háskólann ekki alls fyrir löngu þar sem þeir voru að dásama skattaskjólin sem þeir vildu koma á fót hér á Íslandi. Þessir aðilar virtust alveg gleyma því til hvers fólk greiðir skatta til samfélagsins. Það er til þess að við getum hlúð að góðu mannlífi og haldið áfram að smíða velferðarþjóðfélagið okkar.

Í rauninni er þetta ömurleg þróun, sú stefnubreyting sem hefur orðið hér á síðasta áratug. Frá stríðslokum eða þar um bil var um það sæmileg sátt í þjóðfélaginu hvert skyldi stefna. Menn deildu um það hversu miklu ætti að verja til uppbyggingar, til vegagerðar, til að byggja skóla og sjúkrahús o.s.frv., hversu hratt skyldi farið. Menn skiptust í pólitískar fylkingar hvað þetta snertir og áherslur voru mismunandi en það var til þess að gera sátt um þennan grunn. Allir Íslendingar ættu að hafa jafnan aðgang að velferðarstofnunum samfélagsins, að skólunum og heilbrigðisþjónustunni o.s.frv.

Nú er verið að færa þetta í aðra átt. Nú er verið að gera alla þessa þjónustu að verslunarvöru. Ég minnist þess að í einkavæðingar- eða einkaframkvæmdarbæklingi ríkisstjórnarinnar sem nú er orðinn frægur að endemum er rætt sérstaklega um þetta. Þessi bæklingur er heiðarlegur. Þar segir að menn skuli gera sér grein fyrir því að samfara einkaframkvæmdinni verði notendagjöld innleidd í ríkara mæli en við höfum búið við. Þetta vildi ég minnast á, hæstv. forseti. Við skulum ekki gleyma til hvers við viljum yfirleitt greiða skatta, bæði sem einstaklingar og sem fyrirtæki.

[15:15]

Þegar skattar eru bornir saman hér á landi við það sem gerist erlendis kemur í ljós að skattlagning er hér almennt mun lægri en í öðrum ríkjum, hvort sem litið er til Norðurlandanna eða OECD. Tekjuskattar einstaklinga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru 9,5% á Íslandi, þeir eru 15,7 á Norðurlöndum, 12,2 í Evrópuríkjum OECD. Tekjuskattarnir sem nú er verið að lækka eru 1% af landsframleiðslunni hér á landi. Þeir eru 2,5% á Norðurlöndunum. Og þeir eru 3,4% í Evrópuríkjum OECD. Það er þetta sem er enn verið að lækka núna. Þetta 1% hlutfall sem er á móti 2,5 og 3,4 á Norðurlöndum og OECD er verið að lækka núna. Launa- og tryggingagjöldin eru líka miklu lægri hér, 2,5 á móti 8,6 og 14% hjá Norðurlöndunum og Evrópuríkjum OECD.

Það eru helst skattar á vöru og þjónustu sem eru á svipuðu róli. Þá erum við t.d. að tala um virðisaukaskattinn. Hann er 15,1% hér sem hlutfall af landsframleiðslu, 13% á Norðurlöndum og 15,7% í Evrópuríkjum OECD. Almennt eru skatttekjur hér miklu lægri en gerist í þessum viðmiðunarríkjum, 30,9% hér á móti 40,8 á Norðurlöndum og 47,8 í Evrópuríkjum OECD.

Auðvitað segja þessar tölur ekki allan sannleikann, einfaldlega vegna þess að landsframleiðslan sveiflast til, og ég viðurkenni að varasamt er að nota þetta sem eitthvert vísindalegt viðmið. Því fer fjarri að hægt sé að gera það. En sem ákveðin vísbending eru þetta stærðarhlutföll til viðmiðunar þótt engan veginn sé hægt að taka þetta sem einhvern algildan sannleika.

Undir lokin vil ég nefna það sem ég hef áður aðeins vísað til að almannasamtök í landinu gagnrýna þessar skattkerfisbreytingar harkalega. Landssamband eldri borgara segir m.a. í sinni álitsgerð, með leyfi forseta:

,,Landssamband eldri borgara fagnar því að gert er ráð fyrir að afnema skattlagningu á húsaleigubætur. Einnig fagnar Landssamband eldri borgara því að gerð er tillaga um ráðstafanir til að koma í veg fyrir skattahækkanir vegna hækkunar á fasteignamati.`` Við eigum eftir að fá botn í það, held ég, hvort það er innstæða fyrir þessum mikla fögnuði. En hæstv. fjmrh. gaf a.m.k. þær yfirlýsingar á sínum tíma að gerðar yrðu ráðstafanir til að koma í veg fyrir skattahækkanir vegna hækkunar á fasteignamati, við eigum eftir að fara nánar yfir það. Síðan segir áfram í álitsgerð Landssambands eldri borgara: ,,Landssambandið saknar þess hins vegar að þess skuli ekki gætt, að nýta þá fjármuni sem ríkið telur sig geta lagt í að bæta skattalegt umhverfi til þess að laga kjör þess lágtekjufólks sem býr við hvað lökust kjör, t.d. með því að hækka skattleysismörk og/eða að búa til nýtt, miklu lægra skattþrep vegna tekna sem væru kannski undir 100 þús. kr. á mánuði, en það hvort tveggja hefur verið krafa Landssambands eldri borgara gagnvart stjórnvöldum um langan tíma. Landssambandinu finnst vera rangar megináherslur í þessu frumvarpi og leggur því til að það fái ekki við svo búið brautargengi gegnum hið háa Alþingi.``

Í áliti Öryrkjabandalags Íslands er vísað í meginályktun nýafstaðins aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn laugardaginn 6. október 2001, vekur athygli á að með margvíslegum aðgerðum og aðgerðaleysi hefur ríkisstjórn Íslands orðið þess valdandi að kaupmáttur öryrkja er almennt lakari í dag en hann var fyrir rúmum áratug.

Með raunlækkun skattleysismarka er ríkisstjórnin sú fyrsta í sögu lýðveldisins sem innheimtir tekjuskatt af þeim sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga --- bætur sem þó hafa dregist verulega aftur úr launaþróun. Er nú svo komið að umræddum einstaklingum er gert að endurgreiða rúmar 70 þúsund krónur á ári, sem jafngildir öllum tekjum þeirra á heilum mánuði.`` Það þarf náttúrlega að fjármagna lækkun á hátekjuskattinum. Þar vorum við að tala um 45 þús. kr. á ári ef ég man rétt. Síðan segir áfram, með leyfi forseta, í áliti Öryrkjabandalagsins: ,,Af framansögðu má ljóst vera að Öryrkjabandalag Íslands leggst eindregið gegn þeirri forgangsröðun í skattamálum sem lögð er til í framangreindu frumvarpi.``

Alþýðusamband Íslands segir m.a. í samantekt, með leyfi forseta:

,,Vegið að kjörum almenns launafólks og skattlagning færð af eignum og fjármagni yfir á laun og vinnu. Alþýðusambandið hefur sett fram alvarlega gagnrýni á fyrirhugaðar skattbreytingar ríkisstjórnarinnar og telur að með þeim sé vegið að kjörum almenns launafólks. Kjarni þeirrar gagnrýni sem Alþýðusambandið hefur sett fram er í raun þríþættur en snýst í grundvallaratriðum um að verði þessar tillögur að lögum, sé verið að færa skattbyrðina yfir á laun og vinnu, af eignum og fjármagni.``

Í áliti BSRB segir í samantekt, með leyfi forseta:

,,Þær skattkerfisbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu ívilna fjársterkum aðilum, án þess að tilraun sé gerð til þess að létta undir með láglaunafólki og millitekjuhópum að undantekinni tillögu um að afnema skatta á húsaleigubætur. BSRB vekur athygli á að á sama tíma og sköttum hefur jafnt og þétt verið létt af fjársterkum fyrirtækjum og arðgreiðslum í atvinnurekstri hefur fjölgað í þeim hópi láglaunafólks og öryrkja sem nú greiða skatta en voru áður undir skattleysismörkum. BSRB væri því fylgjandi að við skattkerfisbreytingar væri byrjað á þessum enda.``

Í þessum orðum Aþýðusambandsins, um að verið sé að færa skattbyrðina yfir á laun og vinnu af eignum og fjármagni, felst kjarni máls. Það er þetta sem skattkerfisbreytingarnar ganga út á.

Í rauninni var byrjað á verki sem fékk ekki nógu góðar lyktir á sínum tíma þegar ráðist var í ákveðna samræmingarvinnu í skattkerfinu. Þegar skattur var lagður á fjármagn á sínum tíma kveinkuðu fjármagnseigendur sér óskaplega og fannst afskaplega illa með sig farið. Þeir sögðu að þetta væri eina landið í heiminum sem væri svona óskaplega grimmt við þá sem ættu peninga. Í því sambandi langar mig til að nefna það svona sem lítið innskot að í einni af þeim töflum sem fram hafa verið reiddar í þessu upplýsingaflóði sem við höfum kallað eftir og fengið yfir okkur að undanförnu kemur fram að skattlagning arðgreiðslna sem voru samræmdar við fjármagnstekjuskattinn á sínum tíma og nema 10% á Íslandi eru 40% í Bandaríkjunum og samsvarandi tala í Þýskalandi er 48%. Við erum með 10%. En mikil krafa hafði verið um það í þjóðfélaginu á þessum tíma, undir lok níunda áratugarins og í byrjun þess tíunda, að hér yrði tekinn upp fjármagnstekjuskattur. Hugsunin að baki þeim breytingum sem þá voru gerðar var sú að í stað þess að skattleggja eignir fólks ætti núna að fara inn á nýja braut og skattleggja það sem eignirnar gæfu af sér, tekjurnar sem menn hefðu af eignum sínum, hvort sem var í fjármagni, og þá raunvextina, eða arðinn sem menn hefðu af eignum sínum. Mér finnst þessi hugsun vera skynsamleg.

Ef það gerist, eins og lagt er til í þessum skattapakka, að skatthlutfallið á eignirnar verði fært niður, á þá ekki að færa upp skattinn á arðinn? (Gripið fram í.) Er þá ekki eðlilegt að hækka fjármagnstekjuskattinn og skatt á arðgreiðslur? Væri ekki eðlilegt að fara með þann skatt upp í 15--20%? Vel mætti hugsa sér að þar kæmu skattleysismörk á móti, að þeir sem væru innan tiltekinna marka, að þeir sem hefðu tiltölulega litlar tekjur af fjármagni, væru undanþegnir skatti á sama hátt og launafólk býr við skattleysismörk. Mér fyndist hyggilegt og eðlilegt og sanngjarnt að leita slíkra leiða.

Það er þessi samræmingarvinna sem ég er að auglýsa eftir. Ég hef hér gert grein fyrir þeim markmiðum sem mér finnst að hafa eigi að leiðarljósi þegar gengið er til þess verks, og á þessu stigi teljum við heppilegt að gera grein fyrir þessari meginhugsun. Við vitum því miður af fenginni reynslu að flestum breytingartillögum verður núna sópað af borðinu þótt við gerum veika tilraun til að fá frest í skattapakkann, að undanskildum tekjuskattinum og skattinum á húsaleigubætur. Við köllum eftir þessari þjóðarsátt, þverpólitískri samstöðu um að koma hér á skattkerfi sem er í senn hagstætt fyrir atvinnureksturinn í landinu og fyrir fólkið sem byggir þetta land ofar öllu, og það er réttlátt. Það verður því miður ekki sagt um skattapakka ríkisstjórnarinnar.