Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 16:55:16 (2601)

2001-12-06 16:55:16# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem hér talaði síðast, talaði um þá sem hefðu talað af hálfu stjórnarmeirihlutans í þessari umræðu. Ég hef fylgst með þessari umræðu í dag, herra forseti. Ég skil ekki af hverju hv. þm. sagði ekki bara ,,sá`` (RG: Það er rétt.) vegna þess að hér hefur einungis einn maður talað fyrir hönd stjórnarmeirihlutans (Gripið fram í: Formaður nefndarinnar.) (Gripið fram í.) og það var formaður nefndarinnar sem talaði í u.þ.b. 20 mínútur um þetta mál, sem hann þó taldi vera stærsta mál þingsins. Síðan hafa stjórnarliðar, eða kannski réttara að segja, þeir sem tala af hálfu stjórnarmeirihlutans, ekki talað. Pétur Blöndal tók reyndar til máls ...

(Forseti (GuðjG): Háttvirtur þingmaður.)

Hv. þm. Pétur Blöndal tók til máls til þess að undirstrika sérstöðu sína hvað varðar þessi mál eins og reyndar flest önnur mál sem hér koma fram, hvort sem það eru mál af hálfu ríkisstjórnar eða mál okkar stjórnarandstæðinga.

Hann hefur kvartað undan því að naumt væri skammtaður tíminn fyrir stjórnarflokkana, sakir þess að hann kemst ekki alltaf að til þess að marka sérstöðu sína. Það er nú öll samstaðan í Sjálfstfl. eða stjórnarliðinu. En einhverra hluta vegna hefur í þessu stærsta máli þingsins, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson orðaði það, þeim ekki þótt ástæða til þess að tala um það nema í 20 mínútur og þá var málið afgreitt að því er virðist.

Ég held að það sé ekki svo einfalt, herra forseti. Ég vil áður en ég fer að tala um frv. nota tækifærið og óska Sjálfstfl. til hamingju með að nú þegar þeir eru búnir að vera tíu ár í fjmrn. sjái kannski fyrir endann á ekknaskattinum illræmda. Ástæða er til að nefna það hér vegna þess að mér er það minnisstætt þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu og sá ekkert verra og ekkert eitraðra og ekkert mikilvægara markmið í skattamálum en að afnema þennan ekknaskatt, sem þeir sjálfir nefndu svo. En eftir tíu ár, herra forseti, hafa þeir loksins séð ljósið hvað varðar þá sjálfa og nú virðist loks sjást fyrir endann á ekknaskattinum.

Herra forseti. Þingmálið sem við ræðum hér er vissulega stórt. Ég tek undir það að við erum hér að ræða eitt stærsta mál þingsins og á morgun ræðum við líklega stærsta málið sem er fjárlagafrv. Þessi mál eru stór vegna þess að þau taka til þess hvernig menn ætla sér annars vegar að hafa áhrif hér á hagstjórnina og hins vegar hvernig þeir ætli sér að deila út byrðunum.

Tilgangur frv. sem við ræðum hér í dag og breytinganna sem það boðar í skattamálum er yfirlýstur sá að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Um það er ekkert nema gott að segja. Það er afskaplega mikilvægt að menn hafi hugann við að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. En miðað við það sem hér hefur verið rakið í dag, og kemur mjög glöggt fram í nál. 1. minni hluta, nál. fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn., virðist sem samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs sé sæmilega tryggð, séu skattprósentur bornar saman. Það kemur fram þegar það er skoðað að í skattprósentu, hvort sem um er að ræða skatta fyrirtækja, tekjuskatta, skatta af arði eða aðra skatta sem lúta að fyrirtækjum í landinu og fjármagni, virðumst við vera samkeppnisfær.

Því hlýtur maður að spyrja, herra forseti: Af hverju á að lækka skattprósentuna svo mikið, niður í 18%? Hver er tilgangurinn? Hvað er ríkisstjórnin að reyna að gera?

Það er augljóst, af því sem fram hefur komið, að sú staða að við stöndum nokkurn veginn jafnfætis, reyndar dálítið betur hvað varðar skattprósentu, dugir ekki. Það þarf að fara neðar með skattprósentuna. Jú, herra forseti, það er nefnilega svo að íslenskt atvinnulíf býr að mörgu leyti við býsna flóknar aðstæður. Þær munu ekki verða einfaldari eða betri þegar fram líða stundir.

[17:00]

Herra forseti. Mér sýnist að menn séu hér eftir ýmsum leiðum að takast á við hinn litla gjaldmiðil, krónuna, þ.e. menn eru að reyna að mæta með skattalækkunum því óhagræði íslensks atvinnulífs sem felst í því að það skuli þurfa að vinna með svo lítinn gjaldeyri, að það skuli þurfa þar með að búa við svo hátt vaxtastig, svo ótryggt efnahagsástand, svo mikið flökt á krónunni --- það er kallað flökt núna þó sveiflan sé 30%, þetta var kallað gengisfelling hér á árum áður --- menn eru að reyna að mæta þeirri stöðu sem íslenskt atvinnulíf býr við, en ekki má tala um af hverju.

Herra forseti. Ég held hins vegar að það sé alveg nauðsynlegt að við setjum þetta allt í samhengi. Þá vil ég nefna í leiðinni það frv. sem hér var dreift í dag um breyting á lögum um bókhald. Í 2. gr. þess frv., herra forseti, er fjallað um breytingar sem miða að því að heimila fyrirtækjum færslu bókhalds og ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Gefin voru fyrirheit af hálfu ríkisstjórnarinnar um að íslensk fyrirtæki fengju að gera þetta og þau hafa fagnað því. Þau hafa jafnframt komið fram með þá kröfu að þau fái þá einnig að skrá hlutabréf sín í erlendri mynt og sömuleiðis að gera launasamninga í þeirri sömu mynt.

Herra forseti. Þetta segir okkur nokkuð um það hvern áhuga íslensk fyrirtæki hafa á því að tengjast erlendri mynt eða fá að vinna í annarri mynt en krónunni.

Ég held að þessum þrýstingi linni ekki, herra forseti, þó svo að skattprósentan fari niður í 18% vegna þess að skattprósenta í 18% getur verið góð fyrir þau fyrirtæki sem hafa nokkurn hagnað. Einhvers staðar kemur hér fram að einungis tiltekin stórfyrirtæki muni njóta þess. Ég held, herra forseti, að áfram verði ákveðinn þrýstingur á að menn skoði í alvöru aðra möguleika og að menn haldi áfram að þrýsta á að fá þá frekari breytingar í framhaldi af þeim breytingum sem hér eru boðaðar í frv. til laga um breyting á lögum um bókhald, þ.e. að fyrirtæki geti fært bókhald og ársreikninga í erlendum gjaldmiðli.

Herra forseti. Menn eru hér sem sagt að mæta ákveðnum erfiðleikum íslenskra fyrirtækja sem skapast af því að við erum að vinna við lítinn gjaldeyri sem gerir það að verkum að efnahagsástandið er að mörgu leyti mun erfiðara fyrir íslensk fyrirtæki en þau fyrirtæki sem þau eiga í samkeppni við. Þá finnst mér líka að menn eigi að segja það og fyrst aðrir urðu ekki til þess þá geri ég það hér með vegna þess að ég held að mjög mikilvægt sé að umræða eins og þessi sé notuð til þess að setja fram tilteknar hugmyndir og ræða þær, setja fram skoðanir eða setja hlutina í nýtt samhengi.

Fyrir ári síðan var eðlilega verið að ræða hér skattamál líka. Þetta er sá tími. Þá lýstum við í Samfylkingunni því yfir að við værum tilbúin til að skoða eignarskattana og að við værum jafnframt tilbúin til þess að fella niður stimpilgjöldin.

Þessa sér stað í þeim tillögum sem við leggjum hér fram og kynntar hafa verið. Ég vil aðeins fara yfir, herra forseti, hvernig frv. sem hér er nálgast þennan veruleika fyrirtækjanna og sömuleiðis einstaklinganna og þá líka út frá því sem áður hefur verið rætt.

Verið er að tala mikið um samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og ég er búin að fara yfir það að mér finnst það eðlilegt en teldi kannski að rétt væri að ríkisstjórnin orðaði nálgun sína þannig að mönnum væri þá ljóst hvað þeir eru að hugsa og hvernig.

En ég vil líka nefna, herra forseti, að við þurfum ekki bara að hugsa um samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvaða samkeppnisstöðu einstaklingarnir og fjölskyldurnar hafa og við þurfum að velta fyrir okkur þeim sköttum sem bæði einstaklingar og þá fjölskyldur og heimili þurfa að greiða.

Þetta frv. tekur ekki á þeirri samkeppni, ekki hvað varðar tekjuskattana, nema að sáralitlu leyti sem samið hafði verið um í kjarasamningum. Og ég er ansi hrædd um það, herra forseti, að menn verði að fara að horfa meira á þessa hlið eins og við í Samfylkingunni reynum að gera með okkar tillögum, þ.e. horfa á þá hlið að líka er samkeppni um einstaklinga. Einstaklingarnir eru orðnir mjög hreyfanlegir, ef það má orða það svo. Það eru ekki bara fyrirtækin sem leita að betri aðstæðum. Það gera líka einstaklingar og fjölskyldur. Þess vegna er dálítið skammsýnt, herra forseti, að einblína svo mjög á fyrirtækin, en gleyma nánast einstaklingunum og fjölskyldunum.

Ég ætla þó ekki að forsóma það sem gert er hér til bóta eins og að fella niður skatt af húsaleigubótum, sem hefur lengið verið baráttumál okkar þingmanna Samfylkingarinnar og er nú loks að komast í höfn.

Herra forseti. Mig langar til þess að ræða hér fyrst um þessa hækkun á tryggingagjaldinu. Í greinargerð með frv. ríkisstjórnarinnar kemur beinlínis fram að tryggingagjaldið sé hækkað á móti skattalækkunum, þ.e. um leið og menn lækka skattinn á fyrirtækjunum með annarri hendinni, hækka þeir skattinn á fyrirtækjunum með hinni hendinni, svona á móti, eins og þeir orða það. Og skattinn, segi ég, herra forseti, vegna þess að eins og tryggingagjaldið er skilgreint í frv. ríkisstjórnarinnar er ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að hér sé um skattahækkun að ræða. Í skilningi OECD væri þetta skilgreint sem skattahækkun, einfaldlega vegna þess að það vantar skilgreiningu á bak við þessa hækkun gjaldsins.

Það kemur fram í lögum um tryggingagjald að ráðstöfun þess er algjörlega sundurgreind, enda er það flokkað sem gjald en ekki skattur. Og í 3. gr. laganna um tryggingagjald er farið nákvæmlega í gegnum það hvaða aðilar, eða hvaða verkefni, hvaða viðfangsefni, fá þær tekjur til ráðstöfunar sem inn koma vegna tryggingagjaldsins. Þær renna m.a. til Atvinnuleysistryggingajóðs, þær renna í Fæðingarorlofssjóð og þær renna m.a. til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eftir reglum sem fjmrh. setur með reglugerð.

Herra forseti. Þess vegna er mikilvægt að það komi fram hér í umræðunni, ef menn eiga ekki að sitja eftir með þá tilfinningu að hér sé eingöngu verið að hækka skatta, að hækka skatta þegar um tryggingagjaldið er að ræða, hvernig ríkisstjórnin hafi hugsað sér að verja þessum hluta tryggingagjaldsins, þessum 2,5 milljörðum.

Ef ekkert kemur fram um það, herra forseti, þá er hér einfaldlega um skattahækkun að ræða og þá verður þetta dálítið fyndið vegna þess að menn eru þarna að hækka skatta á fyrirtækjum með annarri hendinni, um leið og þeir lækka þá með hinni.

Það eru hins vegar ekki sömu fyrirtækin sem njóta eða verða fyrir. Stór skuldlítil fyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem eru búin að byggja upp eignir og skila hagnaði, munu njóta skattbreytinga ríkisstjórnarinnar. Ung fyrirtæki sem eru að byggja sig upp, ég tala nú ekki um fyrirtæki sem byggja fyrst og fremst á mannauði, munu hins vegar líða fyrir hækkun tryggingagjaldsins.

Herra forseti. Mér finnst að þetta sé kannski ekki sú ráðstöfun sem menn hefðu átt að fara í núna. Mikilvægara hefði verið, að mínu mati, að menn reyndu að hlúa að vaxtarsprotunum og færu ekki í þær æfingar að hækka á þeim skattana á meðan verið er að lækka þá af hinum stærri og stöndugri fyrirtækjum. En þetta er atvinnustefna hæstv. ríkisstjórnar og hún liggur þá fyrir með þessum hætti.

Herra forseti. Mér finnst líka mikilvægt þegar við erum að skoða tryggingagjöldin á Íslandi og horfum á rök ríkisstjórnarinnar fyrir hækkuninni sem þau að tryggingagjald sé tiltölulega lágt á Íslandi, að við veltum því aðeins fyrir okkur hvar menn eigi þá að flokka t.d. lífeyrisiðgjöld. Nú eru greidd 10% plús af launum fólks í lífeyrissjóði. Þessar greiðslur --- þ.e. sambærilegar greiðslur, því ekki eru nú aðrir með sambærilegt eða eins lífeyrissjóðakerfi --- en sambærilegar greiðslur eru flokkaðar sem tryggingagjald eða launaskattar annars staðar og því væri eðlilegt að þessi tala, 10% plús, yrði tekin inn í og að menn litu á þetta í heild sinni þegar verið er að skoða tryggingagjaldið og bera það saman við það sem gerist annars staðar.

En þetta ásamt hinu, herra forseti, að hér vantar skilgreiningar á þessa hækkun, gerir það að verkum að mér finnst a.m.k. að af hálfu stjórnarmeirihlutans þyrfti að hafa frekari orð um það sem menn eru að gera og að röksemdin eða það sem menn færa fram sem rök fyrir þessari breytingu, standist ekki þegar farið er að skoða málið betur.

Við sjáum það á töflu sem er fylgiskjal VIII í nál. 1. minni hluta efh.- og viðskn., nál. fulltrúa Samfylkingarinnar, þar sem verið er að bera saman hlutfallslega skiptingu skatttekna hins opinbera í OECD-löndunum, að þar er jú tryggingagjaldið frekar lágt. En eins og ég sagði áðan, eru lífeyrisiðgjöldin þar ekki innifalin. Þessi tafla er afar athyglisverð að ýmsu leyti vegna þess að hún sýnir mjög glögglega hver staða Íslands raunverulega er í hinu skattalega umhverfi OECD og þar kemur vel fram það sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar, þ.e. ef menn eru bara að horfa á samkeppnishæfnina hvað varðar fyrirtækin þá þarf ekki að breyta skattprósentunni þess vegna. Annað liggur til grundavallar. Hins vegar er alveg ljóst af þessari töflu að einstaklingarnir hvað varðar tekjuskatt, eru nokkuð skattpíndir á Íslandi og sömuleiðis fjölskyldurnar, ef við getum talað um skatta á vöru og þjónustu eða virðisaukaskattinn sem sérstakan fjölskylduskatt, vegna þess að það er neysluskattur og líklega langstærsti hluti skattgreiðslna flestra fjölskyldna.

Herra forseti. Ég vildi láta þetta koma fram sem skoðun mína á þessari breytingu á tryggingagjaldinu. Ég geri kröfu til þess að það sé skilgreint í hvað þetta gjald eigi að fara og að menn umgangist þá röksemd sem þeir hafa fyrir því að hækka gjaldið svolítið varlegar en gert er hér í textanum vegna þess að hann er í rauninni alls ekki í samræmi við þann veruleika sem menn ættu að vera að tala út frá.

Annað mál er hér inni, herra forseti, sem ég vildi gjarnan nefna og það er stimpilgjaldið. Eins og ég gat um áðan lýstum við fulltrúar Samfylkingarinnar því yfir í umræðum fyrir ári síðan að við værum tilbúin að skoða afnám stimpilgjalds sem er úreltur skattur í engu samræmi við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur og hefði vissulega átt að horfa til ef menn væru í alvöru að horfa til samkeppnishæfni, hvort sem fjölskyldur eða fyrirtæki eiga í hlut. Stimpilgjald er, eins og menn þekkja, skattur sem lagður er á í hvert skipti sem menn eru með eignabreytingar. Varaformaður Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir, hefur í tvígang flutt frv. um afnám stimpilgjalds í áföngum og nú liggur einmitt slíkt frv. fyrir Alþingi. Það er, eins og segir, með leyfi forseta, í greinargerð þess frv.: ,,... óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum.``

Þarna erum við komin að samkeppnishæfninni beint, herra forseti.

[17:15]

Hér kemur einnig fram að stimpilgjöld séu mjög ósanngjarn skattur gagnvart einstaklingum, einkum þeim sem eru að koma sér upp húsnæði. Með innheimtu stimpilgjalds af lánum einstaklinga til húsnæðiskaupa eða annarra nauðsynja er í raun verið að innheimta nokkurs konar fátækraskatt. Þessi lán eru oftast veitt þeim sem ekki hafa efni á að fjármagna húsnæðiskaup eða aðrar nauðsynjar af eigin fé. Það er ítrekað, herra forseti, að það sé óeðlilegt að við skuldbreytingar á lánum sem fjölskyldur hafa tekið sé stimpilgjald innheimt æ ofan í æ. Þar er á ferðinni gjaldtaka sem er langt umfram það sem þjónustan kostar í raun. Það er einnig fullyrt, herra forseti, í nefndaráliti Samfylkingarinnar, þeirra fulltrúa hennar sem eru í efh.- og viðskn., að afnám stimpilgjalda kæmu sér sérstaklega vel bæði fyrir fyrirtæki og heimili.

Það er líka ljóst, herra forseti, að afnám stimpilgjalda mundi sérstaklega gagnast litlum og meðalstórum fyrirtækjum vegna þess að þau geta síður en hin stærri fyrirtæki leitað sér lánsfjár erlendis. Það er þess vegna, herra forseti, sem Samfylkingin leggur til að stimpilgjöldin verði afnumin í áföngum. Við erum með tillögu beinlínis þess efnis sem hluta af þeim tillögupakka sem við leggjum fram í þessa skattaumræðu og vísum þar að sjálfsögðu í það frv. sem varaformaður Samfylkingarinnar hefur flutt.

Þegar þetta er lagt saman, þ.e. annars vegar það hvernig ríkisstjórnin fer í skattbreytingarnar með því að lækka tekjuskatt á fyrirtækin, lækka eignarskatta og hækka á móti tryggingagjaldið og hins vegar hitt að hirða ekki um stimpilgjaldið, finnst mér að verið sé að sýna hér ákveðna atvinnustefnu eins og ég sagði áðan, atvinnustefnu sem liggur þá fyrir og er í rauninni þveröfug miðað við þá stefnu sem við höfum viljað fylgja. Við höfum gjarnan viljað sjá að menn reyndu frekar með þeim aðgerðum sem farið væri í að hlúa að hinum minni fyrirtækjum, að hlúa að þeim vaxtarsprotum sem hér eru til í atvinnulífinu, hlúa að fyrirtækjum þar sem mannvitið er það verðmætasta en eins og menn þekkja í mörgum þeim fyrirtækjum sem hér hafa haslað sér völl í tölvutækni ýmiss konar, hugbúnaðargerð --- þar er kostnaður vegna tækja eða húsnæðis tiltölulega lítill og verðmætið sem liggur í þeim fyrirtækjum liggur í þekkingu einstaklinganna sem þar starfa. Ég er ansi hrædd um að tryggingagjald geri þessum fyrirtækjum nokkurn óleik en þau geti hins vegar ekki notið þess hagræðis sem önnur fyrirtæki geta, annaðhvort með lækkaðri skattprósentu eða lægri eignarsköttum.

Herra forseti. Það kemur fram og hefur komið fram í þessari umræðu að skattbyrðinni hefur í auknum mæli verið velt af fjármagni og fyrirtækjum yfir á laun og vinnuafl hér á Íslandi undanfarinn áratug og það er enn stefnan í þessu frv. Það er vísað til þess að þróunin hafi verið þveröfug í ýmsum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í greinargerð þess nefndarálits sem ég hef verið að vitna til, nefndarálits fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn., eru nefnd lönd eins og Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð þar sem skattar á einstaklinga hafa verið að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu en aukast á fyrirtæki. Þó eru fyrirtækjaskattar í þessum löndum lægri en á Íslandi.

Mér finnst, herra forseti, eins og ég sagði áðan, mjög nauðsynlegt að við horfum líka til einstaklinganna, að horft sé til þess að það er líka samkeppni um þá. Það er ekki nóg að líta bara til samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Við þurfum líka að gæta að því að einstaklingar og fjölskyldur vilji eiga heima á Íslandi, vilji verja kröftum sínum og nýta þekkingu sína hér vegna þess að það verður lítið um íslenskt atvinnulíf ef við náum ekki að halda í okkar vel menntaða unga fólk sem hefur alla burði til að setjast að mjög víða um heiminn og getur þá valið sér land rétt eins og fyrirtækin. Þetta er eitthvað sem mér finnst að ríkisstjórnin hafi gleymt þegar hún var að stilla upp skattamálum sínum núna.

Herra forseti. Ég held að ég sé komin yfir það sem ég ætlaði mér að nefna í þessari umræðu. Það er fyrst og fremst það að skatthlutfallið er í sjálfu sér ekki það sem ríkisstjórnin er í rauninni að tala um vegna þess að það er í sjálfu sér í góðu lagi ef horft er á það í hlutfalli við skatt annars staðar hvað varðar fyrirtæki. Það hefur líka komið fram af því að menn eru að tala um fjárflótta að hann virðist ekki standa í beinu samhengi við hlutfall skattanna.

Það er annað sem menn þurfa að ræða um og mér finnst eðlilegt, herra forseti, að við ræðum í þessari umræðu. Þess vegna hef ég komið inn á það sem og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Við þurfum að ræða í þessari umræðu þau vandkvæði sem stafa af því að við erum með mjög lítinn og veikan gjaldmiðil og það skiptir vissulega máli fyrir íslensk fyrirtæki þegar við horfum á efnahagsumhverfi þeirra og þar með samkeppnisstöðu. Þó að menn vilji horfa fram hjá þessari augljósu staðreynd með því að reyna að tala um aðra hluti liggur þetta eigi að síður fyrir sem staðreynd. Til þess að þoka umræðunni áfram, herra forseti, held ég að æskilegt væri að menn ræddu það einnig og hefðu sem hluta af þeirri umræðu sem hér fer fram um samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og hvað það er sem við þurfum að gera til að mæta þörfum fyrirtækjanna fyrir stöðugra efnahagslíf, lægri vexti og minni gengisáhættu. Fyrir sumum liggur það svar í augum uppi en augljóslega má ekki nefna það í þessari umræðu, a.m.k. virðist það ekki vera vilji hæstv. ríkisstjórnar.

Herra forseti. Tillögur Samfylkingarinnar liggja hér fyrir sundurliðaðar. Nálgunin er önnur og í henni kristallast önnur sýn varðandi fyrirtækin í landinu, fjölskyldurnar og einstaklingana, og það er kannski það mikilvæga við slíka umræðu að hér sem og í umræðu um t.d. fjárlögin skýrast hinar pólitísku línur betur en í umræðu um ýmis önnur mál. Kannski má frekar segja þar sem ekki er hægt að marka jafnklára pólitíska línu og gerist þegar menn eru að tala annars vegar um möguleika fjárlagafrv. til hagstjórnar og hvernig því tæki hefur þá verið beitt og hvernig menn vildu beita því og hins vegar skattbreytingar, það er sem sagt spurningin um hverjir eiga að bera þær byrðar sem íslenskt samfélag gerir kröfu um á meðan við ætlum að vera hér með velferðarsamfélag.

Ég er alveg sannfærð, herra forseti, um að ekkert þýðir að bjóða íslensku samfélagi upp á þá mismunun sem óhjákvæmilega leiðir af því að skatttekjur minnki hér, þ.e. ef við þurfum að fara það langt niður með skattprósentuna á íslenskum fyrirtækjum til að laga efnahagsumhverfi þeirra svo þau geti staðist samkeppni við það umhverfi sem fyrirtæki erlendis búa við, og skiljum síðan launamenn eftir eina með skattbyrðina. Ég er ekki viss um, herra forseti, að það yrði þolað til lengdar en það er líka eitt af því sem við þyrftum að ræða í þessari umræðu.