Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 17:25:55 (2602)

2001-12-06 17:25:55# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það frv. sem hér hefur verið til umræðu í dag, skattalagabreytingar sem ríkisstjórnin flutti fljótlega eftir að þing kom saman og við erum að ræða hér við 2. umr. eftir meðferð hjá efh.- og viðskn., er um margt athyglisvert og hefur verið farið allvel í gegnum það eins og það lítur hér út. Það vekur hins vegar athygli mína, herra forseti, hvað þær tillögur sem hér liggja fyrir hafa litla athygli þingmanna fengið ef svo má að orði komast.

Ég hef fylgst með umræðum hér í dag og held að ég muni það alveg rétt að hér hefur enginn fulltrúi Framsfl., annars stjórnarflokksins, talað. Ég hef áður getið þess og sagt að mér finnist eins og Framsfl. sé orðinn einhver b-deild í Sjálfstfl., að Framsfl. hafi afsalað sér öllu hér og feli Sjálfstfl., hinum stjórnarflokknum, að fara með mál sín á hinu háa Alþingi nema í þeim örfáu tilfellum þegar framsóknarmenn eru að flytja mál sjálfir. Þannig hefur það verið í dag, herra forseti. Við höfum ekki heyrt í nokkrum hv. þm. Framsfl. og því miður verð ég að segja að ég sakna þess mjög að þeir séu ekki í salnum, að enginn framsóknarmaður skuli vera í salnum, vegna þess að ég mundi mjög gjarnan vilja spyrja framsóknarmenn út í ýmsa þætti hér, t.d. hvað tryggingagjaldið varðar sem landsbyggðarskatt sem það sannarlega er eins og komið hefur fram bæði við 1. umr. og svo núna í meðförum hv. efh.- og viðskn. Ég kem að því síðar. Framsfl. virðist algerlega dæma sig frá þessu máli. Það er náttúrlega mjög undarlegt að það sé ekki einu sinni hægt að eiga orðastað við fulltrúa Framsfl. í efh.- og viðskn., að maður tali ekki um ráðherra félagsmála sem fer með málefni sveitarfélaganna vegna þess að eins og hér kemur fram íþyngir tryggingagjaldið mjög öllum sveitarfélögum í landinu. Ég benti strax við 1. umr. á ákveðna vankanta á þessu máli hvað varðar sveitarfélögin og spurðist fyrir um hvernig menn hygðust lagfæra það gagnvart sveitarfélögunum. Mér fannst hæstv. félmrh. --- ég ætla bara að segja það --- koma af fjöllum varðandi þær fyrirspurnir sem ég lagði þá fram.

Hæstv. fjmrh. sem hér situr tók undir það atriði sem ég benti þá á varðandi skatta af einstaklingsrekstri, varðandi breytinguna yfir í einkahlutafélög og tekjutap sem sveitarfélögin yrðu fyrir og fannst það athyglisverð ábending og hvatti til þess að nefndin skoðaði það mál. Því vil ég leyfa mér að leggja fram þá fyrirspurn til hæstv. fjmrh., sem hefur setið hér manna mest yfir þessari umræðu og ber að þakka fyrir, hvað hafi komið út úr þeirri vinnu gagnvart sveitarfélögunum og því tekjutapi sem þau óneitanlega verða fyrir við þessa breytingu á skattalögunum eins og ég hef hér rætt um. Tryggingagjaldið hækkar hjá þeim um 500--550 millj., og meira þegar tekið er tillit til keyptrar þjónustu. Hvernig á að bregðast við þessu, hvert verður tekjutapið vegna breytinganna úr einstaklingshlutafélögum yfir í einkahlutafélög og hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn sér að breyta þeim atriðum og koma til móts við sveitarfélögin?

[17:30]

Ég trúi því ekki að það sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar að koma þannig fram við sveitarfélögin, að draga út úr rekstri þeirra rúman milljarð eða meira og skerða þannig möguleika þeirra á að veita þjónustu sína. Ég þekki það vel til stöðu sveitarfélaga úti á landi að þau munu ekki geta dregið úr þjónustu sinni til að mæta þessum aukna kostnaði. Þá mun hefjast skuldasöfnun nema menn ætli hreinlega að leggja þá þjónustu af, ekki skera hana niður heldur leggja hana af. Ég held að það sé ekki gott fyrir byggðirnar ef smærri sveitarfélög um allt land þurfa að hætta rekstri ágætrar þjónustu eða skerða þjónustuna við íbúana í byggðarlagi sínu. Það gæti kallað á að einhverjir telji sig ekki geta búið í viðkomandi sveitarfélagi og vilji flytjast á brott. Þetta er mjög mikilvægt atriði og ég vil endilega heyra frá hæstv. fjmrh. á eftir hvernig þessu verði mætt.

Virðulegi forseti. Ég sagði að ýmislegt í þessum tillögum virkaði á mig sem hreinn landsbyggðarskattur. Hér er verið að leggja á nýja landsbyggðarskatta. Eins og hér hefur verið rakið er talið að fyrirhuguð hækkun á tryggingagjaldi um 0,77% muni að sjálfsögðu leggjast af fullum þunga á fyrirtæki á landsbyggðinni sem auk þess eru ekki þannig stödd að þau fái mikinn skattalegan ávinning af lækkun á tekjuskatti og eignarskatti.

Ég ætla svo sannarlega að taka undir það sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur sagt um landsbyggðafyrirtækin. Ég ætla rétt að vona að þau fari að skila verulegum tekjuafgangi. Hann nefndi áðan að sjávarútvegsfyrirtækin græddu vel í dag. Við höfum séð það, t.d. að Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, hefur skilað 30% framlegð fyrir afskriftir og skatta. Það er sannarlega gósentíð hjá sjávarútvegsfyrirtækjum í dag. Ég er hins vegar ekki viss um að gengishrunið, sem orðið hefur og hefur styrkt rekstur þessara fyrirtækja þannig að þau fá meira fyrir seldar afurðir í dag en áður, verði til þess að þau skili hagnaði á næsta ári. Ég vona þó sannarlega að eitthvað muni breytast í þá átt.

Afleiðingar þessara breytinga hafa verið reiknaðar út af ríkisskattstjóra og það kemur fram í gögnum í nál. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar --- um leið og ég nefni nöfn þeirra vil ég nefna að nál. þeirra er mjög viðamikið og vel unnið og eiga þeir hv. þm. heiður skilinn fyrir þetta nál. Ég hefði sagt að stjórnarmeirihlutinn hefði getað reddað sér út úr þessu klúðri með því að gera tillögur okkar í Samfylkingunni að sínum, þ.e. hefðu fulltrúar meiri hlutans í efh.- og viðskn. gert nál. okkar að sínu.

Tryggingagjaldið eins og það kemur fyrir, ég nefndi það áðan, samkvæmt skýrslu og útreikningar úr henni koma fram í nál. 1. minni hluta, hefur þau áhrif að fyrirtæki í Reykjavík, sem eru 11.502, munu fá lækkun eignarskatta upp á 861 millj., lækkun á tekjusköttum upp á 2,5 milljarða en munu hins vegar, ef tillögur ríkisstjórnarflokkanna verða samþykktar, þurfa að borga 1.728 millj. kr. meira í tryggingagjald. Þau munu hagnast á þessu um 1.637 millj. kr. Út af fyrir sig er það kannski ágætt að fyrirtæki skuli hagnast svo mikið á þessu. En ekki er allt gull sem glóir. Þar kem ég að þessum mismun milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Sama má segja um Reykjanes. Þar eru 4.540 félög sem telja fram. Þau munu njóta eignarskattslækkunar upp á tæpar 260 millj. Þau munu njóta þess að tekjuskattar þeirra lækka um 1.266 millj. Þau munu hins vegar aðeins greiða tæplega 500 millj. kr. meira í tryggingagjald og ávinningur þeirra verður þar um einn milljaður. Þá er Ísal-dæmið ekki tekið inn í, sem við kannski komum að síðar. Ef Ísal mundi banka upp á og fá að njóta hagsbótanna af þessum tillögum, ef samþykktar verða, þá mun þetta breytast töluvert.

Öðru máli gildir um landsbyggðarkjördæmin. --- Nú sakna ég þess, herra forseti, að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., 1. þm. Norðurl. v., skuli ekki vera í salnum. Mig langar mjög til þess að leggja fyrir hann nokkrar spurningar í þessu efni. (JóhS: Láta ná í manninn.) Það er spurning hvort Vilhjálmur sé í húsinu. Hann er búinn að vera hér í allan dag.

(Forseti (GÁS): Hann er í húsi. Forseti gerir ráðstafanir til að ná í hann.)

Ég gat um það í upphafi að sá ágæti stofn sem telur sig til framsóknarmanna, þ.e. hv. þm. sem sitja á þingi og ég man ekki hve margir eru, hefur ekki sést mikið í dag.

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni fyrir að koma í salinn. Ég tek þó skýrt fram að hann hefur setið hér í allan dag sem formaður efh.- og viðskn. og ég ætla ekkert að skammast yfir því að hann hafi fengið sér kaffibolla eða eitthvað þess háttar. En ég var, hæstv. forseti, að ræða um þessar tryggingagjaldsbreytingar og um hvernig það gagnast fyrirtækjum í Reykjavík og á Reykjanesi upp á tæplega 2,7 milljarða. Ég var hins vegar kominn að því að fjalla um hve illa þessar skattkerfisbreytingar munu koma við mörg fyrirtæki á landsbyggðinni. Það var það sem ég vildi spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson út í, formann efh.- og viðskn. sem jafnframt er 1. þm. Norðurl. v., þess landsbyggðarkjördæmis.

Í ljós kemur varðandi skattalegan ávinning fyrirtækja á Norðurl. v. og félaga sem telja fram, sem eru 727 talsins, að þau munu lækka í eignarskatti um 37 millj., lækka í tekjuskatti um 44 millj. en munu hins vegar þurfa að borga 78 millj. kr. meira í tryggingagjald. Þau munu einungis hagnast um 2 millj. kr. á þessari skattkerfisbreytingu. Er þetta einhver ný landsbyggðastefna þingmanna Sjálfstfl. og hæstv. ríkisstjórnar? Telja menn að þær breytingar sem hér er verið að boða með hækkun tryggingagjalds verði til að létta á fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni?

Ef við förum í önnur kjördæmi sem eiga eftir að sameinast í hinu nýja Norðvesturkjördæmi, tökum t.d. Vesturland þar sem eru 1.360 félög, munu þau lækka í eignarskatti um 59 millj., í tekjuskatti 62 millj., en munu hins vegar þurfa að borga tryggingagjald upp á 118 millj. Þau munu hagnast um 4 millj. Ef við förum til Vestfjarða, þá er svipað upp á teningnum. Ef við tökum þessi þrjú kjördæmi þá er skattalegur ávinningur þessara þriggja kjördæma 18 millj. kr. Það er allt og sumt. Þess vegna er rétt, herra forseti, sem menn hafa sagt og þingmenn landsbyggðarkjördæma, sama hvort þeir eru í Norðurl. v. eða Vesturl. --- ég sé ekki þingmenn úr fleiri kjördæmum --- ættu að hafa í huga að hér er enn einu sinni verið að ívilna fyrirtækjarekstri höfuðborgarsvæðisins.

Fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni mun sitja eftir, mun ekki fá skattalegan ávinning. Samkeppnisstaða fyrirtækja á landsbyggðinni verður stórlega skert. Rekstrarskilyrði þessara fyrirtækja eru stórlega skert. Þegar þetta bætist svo við önnur afrek ríkisstjórnarflokkanna, sem m.a. hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, 1. þm. Norðurl. v. hefur stuðlað að, t.d. að breyta þungaskattskerfi landsmanna, þá spyr maður bara: Fer ekki að verða komið nóg? Væri ekki gott að staldra við og minnka álögur á fyrirtæki á landsbyggðinni? Væri ekki betra að gera eitthvað sem mundi létta byrðum af fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni sem lið í áætlun um að snúa vörn í sókn gegn þeim mikla þjóðarvanda sem við höfum búið við undanfarin ár?

Ég fullyrði, herra forseti, að hækkun þungaskatts, sem m.a. hv. þm. Vilhjálmur Egilsson átti þátt í sem formaður efh.- og viðskn., frá 1998 er í kringum 45% á flutningabíl með tengivagni sem keyrir á lengstu leiðum, hvort sem það er frá Reykjavík austur á land eða vestur á firði --- 45% hækkun. Hvert hefur þessi hækkun farið annað en þráðbeint út í verðlagið? Þessi ráðstöfun hefur hækkað verð á nauðsynjavörum hjá landsbyggðarfólki, hækkað verð á flutningsgjöldum til fyrirtækja á landsbyggðinni og hækkað það tvöfalt, séu það fyrirtæki sem eru að flytja vörur frá innflutningshöfnum í Reykjavík út á land til að vinna eitthvað úr því og senda það e.t.v. hingað suður á höfuðborgarsvæðið, stærsta markaðssvæðið. Þannig kemur þetta út.

Er nema von, herra forseti, að fyrirtæki og fólk í forustu fyrirtækja á Norðurlandi hafi nú nýlega, í byrjun nóvember sl., stofnað samtök til þess að berjast gegn auknum álögum og áframhaldandi árásum núverandi ríkisstjórnarflokka á landsbyggðina og fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni? Meðal helstu atriða hjá þessum samtökum er að berjast fyrir breytingum á þungaskatti og lækkunum þar á. Þess vegna vil ég gjarnan fá að heyra það frá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni hér á eftir, talsmanni ríkisstjórnarflokkanna, formanni efh.- og viðskn.: Er ekki komið nóg? Er ekki kominn tími til að hætta? Viljið þið ekki hætta að auka þessa landsbyggðarskatta sem íþyngja og draga lífsþróttinn úr atvinnurekstrinum á landsbyggðinni og stórhækka vöruverð, sama hvort það er á Sauðárkróki, Ísafirði, Siglufirði eða Neskaupstað? Það er komið nóg.

Ofan á þetta allt saman bætast --- sem ég skal viðurkenna að er kannski ekki ríkisstjórninni að kenna eða ríkisstjórnarflokkunum --- miklar breytingar á flutningskerfi landsmanna þar sem eitt fyrirtæki er enn þá að sigla við ströndina, Eimskipafélag Íslands. Þetta félag hefur verið að breyta gjaldskrá sinni, hækka gjöldin á sjóflutningum hér við ströndina sem hefur m.a. þær afleiðingar í för með sér, eins og hér hefur komið fram, að t.d. löndun á 400 tonna farmi úr frystitogara norður á Sauðárkróki mun þýða 900 þús. kr. til 1 millj. kr. hærri flutningsgjöld fyrir að koma því hingað suður í umskipunarhöfn til þess að flytja þessar vörur út --- 1 millj. kr. hækkun á þessum flutningsgjöldum.

[17:45]

Það hefur líka komið fram hjá forsvarsmönnum atvinnurekstrar á Norðurlandi að þeir þurfa að flytja inn vörur til landsins, hráefni sitt, og það er frekar þungt. Það kemur hingað til Reykjavíkur, því umskipað í skip sem fer á ströndina og siglt með það norður í land. Sú breyting sem þarna átti sér stað við sjóflutningana og þungaskattsbreytingin, vegna þess að ekki er hægt að nota hana lengur þar sem það er dýrara, hefur gert það að verkum að flutningskostnaður til þessa tiltekna fyrirtækis hækkar um 10--11 millj. kr. bara við þessar breytingar. Þetta er fyrirtæki sem veltir 200--300 millj. með 40 manns í vinnu. Það hefur ekki borgað mikinn tekjuskatt, örlítinn eignarskatt. Það fær ekki skattalegan ávinning. Það mun þurfa að borga hærra tryggingagjald og hækkunin á flutningsgjöldunum á þessum framleiðsluvörum til að skapa þessa vinnu, til að vinna úr því vöru til að selja á höfuðborgarsvæðinu, hefur þær afleiðingar að forsvarsmenn fyrirtækisins verða að grípa til uppsagna, stórbreytinga eða jafnvel það sem er allra verst, hugsa um að hætta atvinnustarfsemi sinni norður í landi og flytja hana til höfuðborgarsvæðisins. Ég fagna því að sjá hv. þm. framsóknarmanna, Hjálmar Árnason, í þingsalnum. (Gripið fram í.) Gleði mín er því mikil yfir því að sjá hv. þm. ganga í salinn vegna þess að ég hef saknað þess mjög í dag hve lítið hefur verið hér um framsóknarmenn. (Gripið fram í: Það er tæknin ...) (Gripið fram í: Það er orðið býsna lítið um þá.) (Gripið fram í: Litlu verður Vöggur feginn.)

Þannig er það nú. En hér hefur ekki verið hægt að spyrja framsóknarmenn út í þá landsbyggðarskatta sem verið er að setja á. Það er með öðrum orðum, herra forseti, alveg með ólíkindum að hv. stjórnarþingmenn sem kosnir eru af fólkinu úti á landi og eru úr þessum landsbyggðarkjördæmum sem við teljum vera, Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurl. v., Norðurl. e., Austurlandi og Suðurlandi, skuli láta lemja svo ofan í sig þessar skattkerfisbreytingar sem gagnast ekki atvinnurekstri á landsbyggðinni og skekkja mjög samkeppnisstöðu atvinnurekstrar á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Í guðanna bænum, hv. þingmenn, reynið nú að sporna gegn þessari ískyggilegu þróun.

Herra forseti. Hér hefur ekki oft verið talað --- nei, ég verð bara að segja að hér er örsjaldan talað um byggðamál af stjórnarflokkunum. Í gildi er einhver byggðaáætlun. Það er ágætisbók til að fletta upp í með mikið af gögnum. En frekar lítið hefur orðið úr framkvæmdinni á tillögunum sem þar voru nefndar og átti að fara eftir.

Mér finnst stundum eins og þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem koma úr landsbyggðarkjördæmum skammist sín hreinlega fyrir að tala fyrir málefni fólksins í kjördæmum sínum, atvinnurekstri og öðru og mér þykir mjög slæmt að menn skuli ekki gæta betur hagsmuna þess fólks sem byggir þessi kjördæmi, vill vera þar, vill fá að vera þar í friði en krefst þess að hafa atvinnu og krefst þess að atvinnustarfsemi og annað gangi og fái að þróast eins og á höfuðborgarsvæðinu.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, herra forseti, um þau loforð og tal um að flytja atvinnustarfsemi út á land, að maður tali nú ekki um t.d. fjarvinnsluna sem ekkert hefur orðið úr.

Herra forseti. Af því að ég sé hér hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, fulltrúa Framsfl. í efh.- og viðskn., vil ég ítreka þær spurningar sem ég bar fram áðan og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., hefur hlustað á. Ég vil ítreka þær spurningar til fulltrúa Framsfl. í þessari nefnd og spyrja hvort þeir séu virkilega stoltir af þeim tillögum sem hér eru lagðar fram sem eru þannig að þær íþyngja atvinnurekstri á landsbyggðinni og munu, ef þær taka gildi, verða atvinnulífi á landsbyggðinni til trafala. Þar er ég að tala um tryggingagjaldið og það sem ég nefndi áðan um þungaskatt og annað sem hefur verið að íþyngja atvinnurekstri á landsbyggðinni.

Herra forseti. Eitt atriði í viðbót sem kemur fram í nál. 1. minni hluta, þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar, fjallar um skatta á einstaklinga, þ.e. um að þeir lækki. Það er að ef skattleysismörk hefðu fylgt launaþróun frá árinu 1995 væru þau í dag 89.808 kr. Þetta sýnir okkur að hæstv. ríkisstjórn hefur með stefnu sinni í skattamálum verið að íþyngja láglaunafólki og ná í skatt til þess, enda er það svo í dag að lífeyrisþegar sem eingöngu hafa sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga greiða nú um 70 þús. kr. í skatt á ári eða sem svarar til eins mánaðar lífeyrisgreiðslu þeirra. Á árinu 1995 þegar þessi ríkisstjórn komst til valda illu heilli greiddu lífeyrisþegar með lágmarkslífeyri engan skatt.

Herra forseti. Ég er að tala um það sem gerst hefur frá því að við jafnaðarmenn, frá því að alþýðuflokksmenn fóru úr stjórn þessa lands og við tóku sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Þeir hafa fundið sér breiðu bökin til að skattleggja, taka nú u.þ.b. 70 þús. kr. í skatt af hverjum ellilífeyrisþega á ári og eru sennilega stoltir af. Þess vegna er það athyglisvert sem hér kemur fram í tillögum og nál. fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. að þeir leggja þar til að kosin verði nefnd sem hafi m.a. það verkefni að skoða hvernig hægt verði að finna leið í gegnum skattkerfið til að útrýma tekjuskatti af 90 þús. kr. launum og lægri, þ.e. lágmarkslaunum. Og því skyldi það ekki vera hægt, herra forseti, með því að gera það eftir á í gegnum skattkerfið, ekki með því að breyta prósentunni til að byrja með, heldur þegar skatturinn er lagður á. Hver er munurinn á því, herra forseti, að leggja á hátekjuskatt eftir á, þegar framteljendur hafa talið fram, og því hreinlega að leggja þá bara á lágtekjuskatt? Eftir því sem ég hef kannað það mál skilst mér að ekki sé erfitt að gera það gagnvart skattkerfinu, þeim prógrömmum öllum sem eru í gangi, ef menn ákveða þetta og ég held að það sé kannski eitt af mikilvægari atriðum í skattamálum að breyta þessu atriði vegna þess að ég trúi því ekki að nokkur einasti stjórnmálaflokkur sem vill láta taka sig alvarlega sé hreykinn af því og stoltur að skattleggja lífeyrisþega og gamalt fólk, öryrkja eins og gert er í dag. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnarflokkarnir séu ánægðir með þann 1 milljarð sem fólk með undir 90 þús. kr. á mánuði borgar í skatt á ári. Það er verið er að ná 1 milljarði í skatt af þessu fólki með þessari aðferð. Þess vegna lýsi ég yfir mikilli hrifningu minni með að lagt skuli vera til í þessu nefndaráliti að kjósa nefnd þar sem í eru aðilar vinnumarkaðarins og aðrir til þess að skoða þessi mál vegna þess að það er sennilega eitt það brýnasta í skattkerfisbreytingum í dag. Með þessu er verið að fara leið varðandi hækkun á persónuafslætti eða öðru sem stundum hefur verið farin, þó að hún hafi sjaldan verið farin af núverandi ríkisstjórn, þ.e. að hækka persónuafsláttinn. En þá þyrfti að finna leið til þess að persónuafsláttarhækkun verði ekki notuð til að jafna þetta heldur verði það gert á annan hátt. Með öðrum orðum, það er ekki verið að tala um að fara þá leið að hækka á persónuafslátt til að lækka skatta á þessu fólki, sem yrði þá um leið til þess að milljón krónu fólkið mundi lækka í leiðinni. Það er ekki verið að tala um þá leið.

Herra forseti. Ég minntist lítillega á tryggingagjaldið áðan og hvernig það mundi íþyngja atvinnurekstri á landsbyggðinni. Nú ætla ég að snúa mér að því sem snýr að sveitarfélögunum og nefnt var strax í upphafi við 1. umr., þ.e. annars vegar tryggingagjaldi á beinar launagreiðslur og hins vegar breytingu á einstaklingsfyrirtækjunum yfir í einkahlutafélög og því tekjutapi sem sveitarfélögin verða fyrir á þeim tíma.

Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga mun hækkun tryggingagjalds hafa áhrif á afkomu sveitarfélaga sem nemur 500--550 millj. kr. og þar til viðbótar komi hækkun tryggingagjalds í tengslum við verktakavinnu fyrir sveitarfélögin, bæði að því er varðar rekstur og fjárfestingar. Ekki hef ég séð í gögnum hvað þetta yrði mikil breyting ef allir breyttu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög, en það yrði mikið. Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson, formann efh.- og viðskn., vegna þess að það kom fram og því lofaði hæstv. fjmrh. eftir spurningar mínar við 1. umr. þegar frv. var lagt fram, að efh.- og viðskn. ætti að skoða sérstaklega hvernig sveitarfélögunum yrði bætt þetta tekjutap og kostnaður við aukið tryggingagjald. Fram hefur komið og það kemur fram hér í fylgiskjali að það séu í kringum 380 millj., eins og hér er talið upp eftir nokkrum sveitarfélögum, sem tryggingagjaldið muni hækka laun þeirra. Ég hef ...

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar. Af sérstökum ástæðum þarf nú að fresta fundi um tíu mínútna skeið ef það kemur ekki illa við hv. þm. Forseti frestar þessum fundi til kl. 18.10.)