Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:09:09 (2603)

2001-12-06 18:09:09# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Kristján L. Möller (frh.):

Hæstv. forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég var að ræða um tryggingagjaldið og áhrif þess á sveitarfélögin í landinu og var að tala um að að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga muni hækkun tryggingagjalds hafa áhrif á afkomu sveitarfélaga sem nemur 500--550 millj. kr. Þetta eru sannarlega miklir peningar sem á að taka þarna af sveitarfélögunum í ríkiskassann og ég hafði lagt spurningar fyrir þá hv. þm. Vilhjálm Egilsson, formann efh.- og viðskn., og Kristin H. Gunnarsson, talsmann Framsfl. í efh.- og viðskn.

En það er líka ansi sérstakt hvað Samtök atvinnulífsins segja um þetta tryggingagjald, en í nál. 1. minni hluta efh.- og viðskn. segir, með leyfi forseta:

,,Samtök atvinnulífsins benda á í umsögn sinni að hækkun tryggingagjaldsins feli í sér verri rekstrarskilyrði hjá mörgum fyrirtækjum, einkum í vinnuaflsfrekri starfsemi þar sem erfitt eða ógerlegt sé að bæta kostnaðarhækkanir upp með verðhækkunum.``

Þetta eru stór og mikil orð, aðvörunarorð sem Samtök atvinnulífsins leggja fram. Verslunarráð Íslands bendir einnig á þetta, en m.a. segir í nál., með leyfi forseta:

,,Í því sambandi má hins vegar benda á, að samkvæmt lögum um tryggingagjald skal það renna til ákveðinna skilgreindra verkefna, en ekki til að standa straum af almennum útgjöldum ríkissjóðs. Skýring sú sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu stenst því ekki lög.

Að mati Verslunarráðs er ríkisstjórnin að ganga gegn lögum landsins með þessari tillögu. Verslunarráðið vekur líka athygli á því að þessi hækkun leiði til verulegs útgjaldaauka fyrir alla atvinnustarfsemi í landi hvernig svo sem aðkoman er. Lýsir ráðið áhyggjum sínum af þessari hækkun og getur ekki stutt hana.``

Virðulegi forseti. Svo segir m.a. í áliti Verslunarráðs Íslands sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn. er framkvæmdastjóri fyrir. Maður spyr bara: Er ekkert mark tekið á áliti frá Verslunarráði eða hvað? Hvernig stendur á því að menn hlusta ekki á það álit sem þar kemur fram?

Herra forseti. Hér á árum áður var rukkað aðstöðugjald af fyrirtækjum. Það eru ansi mörg ár síðan það var lagt niður. Það var aðstöðugjald sem var rukkað og menn töldu mjög ósanngjarnan skatt vegna þess að hann var rukkaður burt séð frá því hvort fyrirtækið var rekið með bullandi hagnaði eða á hvínandi hausnum. Tryggingagjaldið er svipað. Tryggingagjaldið er skattur sem leggst á launaútgjöld fyrirtækja og hefur áhrif á hagkvæmni rekstrarins og rekstrarafkomu fyrirtækjanna. Það er með öðrum orðum, burt séð frá því hvað gerist í fyrirtækjarekstrinum, hvernig mál þróast, en fyrirtæki með mikinn launakostnað þarf að borga ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga, miklu meira í tryggingagjald eftir þessa breytingu.

Miðað við það sem hér hefur verið sagt og kemur fram í nál. 1. minni hluta, þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar, í lok þess um tryggingagjaldið sem ég ætla að lesa upp, með leyfi forseta:

,,Af framansögðu er morgunljóst að hækkun tryggingagjalds er algjörlega vanhugsuð og mun leiða til erfiðleika og jafnvel uppsagna starfsfólks hjá mörgum fyrirtækjum.

Samfylkingin er mótfallin hækkun tryggingagjalds við núverandi aðstæður. 1. minni hluti lýsir sig andvíga henni. Hækkun tryggingagjalds mismunar atvinnufyrirtækjum og getur leitt til verulegra rekstrarerfiðleika hjá fjölda fyrirtækja. Átelur 1. minni hluti ríkisstjórnina sömuleiðis fyrir að leggja sérstakan skatt á landsbyggðina með þessum hætti.``

Það þarf í raun og veru ekki að hafa, herra forseti, fleiri orð um tryggingagjaldið. Það er íþyngjandi, skekkir samkeppnisstöðu og er mjög ósanngjarn skattur, og eins og hér hefur verið sagt landsbyggðarskattur, og nóg var af þeim fyrir frá hæstv. ríkisstjórn.

Nokkur orð um fjármagnstekjuskattinn sem hér er fjallað um í tillögum okkar jafnaðarmanna. Það er með öðrum orðum, herra forseti, alveg ótrúlegt sem kemur fram á fylgiskjali sem er merkt nr. XII, um fjölda gjaldenda en það eru í dag rúmlega 55 þúsund aðilar sem greiða fjármagnstekjuskatt, þennan 10% flata skatt. Ég vek athygli á því að þessi fjármagnstekjuskattur er einnig greiddur af verðbótaþættinum sem er náttúrlega mjög ósanngjarnt.

[18:15]

Í tillögum Samfylkingarinnar er fjallað um að ef fjármagnstekjuskatturinn færi í 16% og frítekjumark yrði yfir 100 þús. kr. hjá einstaklingum og 200 þús. kr. hjá hjónum, þá mundi greiðendum fjármagnstekjuskatts fækka og þeir yrðu rúmlega 22 þús. En tekjurnar mundu samt sem áður aukast. Með öðrum orðum, herra forseti, er mjög mikilvægt að benda á það við þessa umræðu sem fram kemur í fylgiskjali XII, frá ríkisskattstjóra, í nál. 1. minni hluta. Þær upplýsingar sem þar koma fram eru mjög athyglisverðar. Menn hafa m.a. þær í huga þegar þeir nefna að full ástæða væri fyrir ríkisstjórnina til að taka þessar tillögur, nál. og fleira, töluverðan hluta þeirra nú milli umræðna og gera að sínum tillögum. Þá held ég að ríkisstjórnin mundi komast betur út úr þessu máli.

Í lokin vil ég taka fram, herra forseti, að ég hef gagnrýnt hv. þm. Framsfl. fyrir að hafa ekki verið hér í salnum við þessa umræðu. Þeir hafa lítið látið sjá sig. Ég hef nefnt það áður að Framsfl. hefur falið Sjálfstfl. að ganga frá sínum málum. En það er annar flokkur sem hefur skilað algjörlega auðu í þessu máli líka, fyrir utan framsögu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. Ég vek athygli á því, herra forseti, að hér hefur maður varla séð þingmann frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í allan dag, að maður tali ekki um brtt. þeirra sem hér er lögð fram og ég hef spurst fyrir um hvort sé virkilega eina brtt. frá Vinstri grænum. Svo er.

Ég get ekki séð annað, herra forseti --- það er leitt að þeir skuli ekki sjá sér fært að vera hérna í þingsalnum nú þegar er verið að ræða þetta mikilvæga mál, þessa skattkerfisbreytingu --- en þeir skili algjörlega auðu í því. Það er kannski táknrænt, enda hafa Vinstri grænir meira verið í því að spreða og eyða, gert tillögur um það, frekar en að afla tekna eða skoða breytingar á skattkerfinu. Í þessum mæltum orðum gengur formaður Vinstri grænna í salinn og ég geri ráð fyrir því að við eigum eftir að heyra í þeim hv. þm. á eftir, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Við munum að líkindum heyra álit hans á þessu máli. En ég vildi kasta fram þeirri spurningu og fá svar við henni á eftir, þ.e. hvort það sé virkilega rétt að sú brtt. sem hér er flutt á þskj. 473 frá 2. minni hluta efh.- og viðskn., hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem er við 54. gr. sé eina tillaga þeirra. Og 54. gr. þessa frv. hljóðar svo, með leyfi forseta, í 7. kafla og er um gildistöku laganna:

,,Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2003.``

En brtt. Vinstri grænna er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,, Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2004.``

Með öðrum orðum, herra forseti, ef ég les ekki hér vitlaust eða er ekki með eitthvert vinnugagn sem e.t.v. hefur verið prentað upp, þá get ég ekki séð annað, herra forseti, en að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sé sammála þessum tillögum. Ágreiningurinn sé bara um hvort þær eigi að taka gildi einu ári seinna.

Ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hvort þetta sé virkilega rétt. Reyndar er í brtt. að auki minnst á ákvæðin um húsaleigubæturnar og lækkun tekjuskattsins um 0,33%, sem ég gleymdi að lesa og skal gera hér, með leyfi forseta:

,,Þó skulu ákvæði e-liðar 17. gr. og 30. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2002.``

Mér kemur þetta ákaflega spánskt fyrir sjónir. Ég skil ekki hvernig Vinstri hreyfingin -- grænt framboð getur verið sammála þessum tillögum að öðru leyti en því að þær eigi að taka gildi einu ári seinna. Að í stað þess, eins og ríkisstjórnin leggur til, að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 2002 og komi til framkvæmda á árinu 2003, þá sé viðsættanlegt samkvæmt brtt. að lögin öðlist gildi 1. janúar 2003 og komi til framkvæmda á árinu 2004.

Ef þetta er rangt hjá mér vil ég gjarnan fá að heyra það hér á eftir og heyra hvað virkilega er átt við með þessari brtt. og hvort Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er sammála þessum skattalagapakka ríkisstjórnarinnar. Er eingöngu ágreiningur um hvort lögin eigi að taka gildi einu ári seinna?