Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:25:11 (2606)

2001-12-06 18:25:11# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég nefndi hér áðan, þennan plagsið hv. þm. Kristjáns L. Möllers, þar sem hann alhæfir afskaplega mikið um fjarveru þingmanna. Ég vil líka vekja athygli hv. þm. á því, hafi hann ekki áttað sig á því, að starfslag þingsins er með þeim hætti að málum er vísað til fagnefnda eftir 1. umr. Þar fer fram hin efnislega umræða um einstök mál með fulltrúum allra flokka. Síðan koma málin út úr nefnd, ef þm. hv. hefur ekki áttað sig á því, og þar skrifa menn undir nál. eða þeir skrifa ekki undir nál.

Ég vil hvetja hv. þm. annars vegar til þess að gerast nú örlítið málefnalegri og hætta þessum plagsið sínum og hins vegar til að lesa þau þingskjöl sem lögð eru fyrir þingið. Það er ekki þinginu sæmandi að þingmenn skuli koma fram með slíku háttalagi sem hv. þm. Kristján Möller gerir sig ítrekað sekan um.