Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:42:03 (2621)

2001-12-06 18:42:03# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ræddi í fyrri ræðu minni í umræðunni eingöngu um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki og reifaði þá hugmynd mína og rökstuddi að lækka tekjuskattinn niður í 11% og sýndi fram á það að ríkissjóður mundi græða fleiri, fleiri milljarða á því. Nú ætla ég að ræða aðra þætti frv. sem að mínu mati er afskaplega bjartsýnt og afskaplega skemmtilegt að fá inn og ætti að auka landslýð bjartsýni í skammdeginu og ekki veitir af eftir umræðuna hér í dag, sem öll hefur verið meira og minna á svörtum nótum og alveg með ólíkindum. Það liggur við að maður leggist í þunglyndi eftir að hafa hlustað á þessa umræðu í dag, svo slæmt er ástandið. En það er náttúrlega bara í nösunum á þeim sem tala, herra forseti.

Undanfarin ár hafa skattar, sérstaklega á einstaklinga, hækkað mikið vegna þess að tekjur hafa hækkað sem aldrei fyrr í þjóðfélaginu. Þar sem frítekjumarkið hefur hækkað eins og verðlagið en ekki eins og tekjur, þá hefur tekjuskattsbyrðin þyngst og spurningin var hvenær komið væri að skattgreiðendum til að taka þátt í sínum hlut af þjóðarkökunni, taka þátt í því hvað þjóðarkakan hefði stækkað mikið.

Þar aftur á móti rekumst við á ákveðinn vanda vegna þess að flestar skattalækkanir auka á þenslu og margir segja, þrátt fyrir svartsýnishjalið í dag, að töluverð þensla sé í þjóðfélaginu, m.a. Seðlabankinn. Og þess vegna má ekki lækka neina skatta, hvorki tekjuskatt, virðisaukaskatt né aðra skatta, nema helst skatta á fyrirtæki og eignarskatta, þ.e. skatt á eignir. Skattar á hagnað fyrirtækja hemja fjárfestingu, koma í veg fyrir fjárfestingu og við þurfum einmitt fjárfestingu í dag, því þenslan sem við höfum upplifað undanfarin ár er aðallega vegna einkaneyslu. Eignarskattur, hár eignarskattur, er ekkert annað en hemill á sparnað. Það er refsing fyrir sparnað, það er refsing fyrir ráðdeild. Við þurfum síst á því að halda í dag, að refsa fólki fyrir ráðdeild og sparnað. Við þurfum að örva sparnað. Aukinn sparnaður vinnur á móti þenslu. Þannig að lækkun eignarskatta er einmitt tæki til að vinna á móti þenslu. Þetta frv. vinnur því nákvæmlega í þeim anda. Nákvæmlega.

[18:45]

Hér í dag hefur lítið verið rætt um ýmsa þætti þessa frv. sem eru þó mjög margir, og ég ætla að reifa nokkra þeirra.

Í fyrsta lagi verðbólgureikningsskil. Það er meiningin að leggja þau af og þó að þau séu á margan hátt mjög skynsamleg, vegna þess að þau taka tillit til verðrýrnunar peningalegra eigna í verðbólgu, er skynsamlegt að leggja þau af vegna samanburðar við útlönd. Fá lönd í heiminum, ef einhver, hafa verðbólgureikningsskil og þess vegna rekast íslensk fyrirtæki á veggi þegar þau eiga í samskiptum við erlend fyrirtæki, sérstaklega ef þau eru að reyna að selja þeim hlutabréf og erlendu fyrirtækin rekast á eitthvert fyrirbæri í reikningunum sem heitir verðbólgureikningsskil eða verðbreytingarfærsla.

Annað atriði sem nefnt hefur verið er að færa ársreikninga í erlendri mynt, og það frv. er þegar komið fram þannig að þetta hvort tveggja á eftir að auðvelda mikið fjárfestingar erlendra aðila innan lands.

Þá komum við að þeim þætti frv. sem ég tel vera þann mikilvægasta. Það er lækkun eignarskatta úr 1,2% niður í 0,6% og niðurfelling sérstaks eignarskatts upp á 0,25% sem var á sínum tíma ætlaður til að byggja Þjóðarbókhlöðuna. Sem kunnugt er er hún þegar risin fyrir nokkru en skatturinn hefur lifað ansi lengi engu að síður.

Eignarskattar eru mjög lúmskir. Þeir eru lúmskastir allra skatta vegna þess að skattstofninn er mjög stífur. Menn geta hætt að vinna ef þeim finnst tekjuskatturinn vera of hár. Menn geta minnkað neyslu ef þeim finnast neysluskattar of háir. Menn geta brugðist við flestum sköttum, ef bensínskatturinn er of hár geta þeir hætt að keyra o.s.frv., en þeir geta illa losað sig við eignir. Ef menn eiga eignir sem eru oft margra ára sparnaður geta þeir illa losað sig við þær á einu bretti, í hendingskasti, nema að fara að stunda óeðlilega mikla eyðslu. Þess vegna eru eignarskattar mjög lúmskir og þeir flytja eignir frá borgurunum til þess sem leggur skattinn á, þ.e. til ríkisins, vegna þess að ríkið gætir þess að sjálfsögðu að allar eignir þess séu undanþegnar eignarskatti. Þetta mátti sjá hér í eina tíð þegar tíundin var lögð á, þá voru eignir þjóðarinnar hægt og bítandi fluttar yfir til kirkjunnar vegna þess að tíundin var jú eignarskattur.

Segja má að núverandi eignarskattar séu hvorki almennir né rökréttir. Stærsti hluti eigna í landinu er undanþeginn skatti. Má þar nefna lífeyrissjóðina, orkufyrirtækin, opinber mannvirki, skóla, spítala og skrifstofur. Vegir, hafnir og flugvellir, þjóðlendurnar, er allt saman undanþegið eignarskatti. Ef spariskírteini og bankainnstæður einstaklinga eru umfram skuldir eru þær eignarskattsfrjálsar. Það er einungis 1/3 af eignum í landinu sem er eignarskattsskyldur, aðallega atvinnulífið svo og íbúðir einstaklinga og jarðir bænda. Þessi hluti eignanna er fluttur hægt og rólega til ríkisins.

Reyndar hefur verið til leið til að losna við eignarskattinn og ég hef bent á hana hér í ræðustól. Hún er sú að taka lán í banka með yfirdrætti, kaupa fyrir það spariskírteini og leggja spariskírteinin að veði fyrir yfirdrættinum --- það fellur ekki undir CAD-reglur bankanna, er þar af leiðandi afskaplega vinsælt þar og minnkar ekki möguleika á lánum til annarra, menn fá þarna mjög lága vexti og eignin lækkar sem nemur eignarskattinum. Þannig var það. Þetta var reyndar að mestu leyti lagað fyrir tveim árum.

Enn er til leið til að komast hjá því að greiða eignarskatt. Hún er dálítið flóknari, þ.e. að stofna fyrirtæki sem kaupir allar eignir manns og yfirtekur allar skuldir á nettóvirði, fær lán í banka fyrir þessari nettógreiðslu og það lán er lagt inn í banka í nafni eigandans sem sparisjóðsinnstæða og þá er hún skattfrjáls. Fyrirtækið borgar ekki eignarskatt þar sem eignir þess og skuldir eru jafnháar. Þetta er dálítið flókið og ekki fyrir almenning að stunda, a.m.k. ekki með háan eignarskatt.

Þetta er sem sagt möguleiki til að komast hjá því að borga eignarskatt fyrir þá sem ekki nenna. (Gripið fram í: Er þetta nokkuð kennsla í ... ?) (Gripið fram í: Kennsla í skattsvikum?) Nei, ég er að kenna hve órökrétt og vitlaust skattkerfið er (Gripið fram í: Þetta er löglegt.) og það hefur alltaf verið svona. Ég er á móti órökréttum og vitlausum skattkerfum sem hjálpa mönnum sem hafa til þess þekkingu og endurskoðendur að komast hjá því að greiða skatta. Ég vil að skattar séu réttlátir og allir greiði skatta, og þá hæfilega litla.

Ég vil eyða nokkrum orðum á áhrif eignarskatta á sparnað og þenslu og á kjör aldraðra sem ég vil nefna sérstaklega. Aldraðir sem margir hverjir búa í stórum eignum sem þeir hafa komið sér upp um ævina eru búnir að borga skuldir niður, skulda lítið og eru að borga eignarskatta af eignum sínum. Alveg sérstaklega hastarleg verður byrðin þegar annar aðilinn fellur frá, oftast nær karlmaðurinn, og konan stendur eftir með stóra húsið og þarf að borga enn meiri eignarskatta af því að hún nýtur ekki lengur eignarskattsfrelsis bóndans. Þetta verður oft svo þungbært að fólk neyðist til að gefa upp heimili sitt sem það hefur búið í kannski í 20, 30, 40 ár og flytja á stofnanir ríkisins sem oft og tíðum eru miklu dýrari. Þannig virkar eignarskatturinn til þess að auka útgjöld ríkissjóðs og neyða fólk inn á stofnanir sem það kærir sig ekki um og kemur í veg fyrir að fólk búi á heimilum sínum. Ég er því mjög ánægður með að eignarskattar skuli vera lækkaðir, og helst þyrfti að fella þá alveg niður.

Hér hefur nokkuð verið talað um landsbyggðina eins og oft áður. Ég held að eignarskattarnir komi eiginlega hvað verst við hana, og alveg sérstaklega koma þeir illa við bændur sem þurfa að borga eignarskatta af jörðum sínum þó að tekjurnar séu kannski litlar sem engar, þökk sé langvarandi landbúnaðarstefnu fjöldamargra ríkisstjórna. (Gripið fram í.)

Ég var búinn að ræða hér um lækkun tekjuskatta á fyrirtæki og ætla rétt aðeins að koma inn á lækkun tekjuskatts einstaklinga.

Ég tel mjög brýnt að strax og færi gefst verði unnið að því að lækka tekjuskatt einstaklinga. Tekjuskattur einstaklinga er ekkert annað en skattur á frumkvæði og dugnað. Þegar fólk leggur hart að sér, hvort sem það er við sjómennsku eða vinnu uppi á hálendinu í myrkri og kulda eða vinnur lengi í frystihúsi eða hvað það nú er, fer það að sjálfsögðu umfram frítekjumark og allur dugnaðurinn er skattaður. Oft sér fólk lítið eftir þegar tekið er tillit til ýmissa tekjuháðra bóta eins og barnabóta, vaxtabóta o.s.frv. Þannig hafa margir sagt mér að þótt þeir séu með dágóðar tekjur hafi þeir í rauninni ekkert mikið til framfærslu og ekkert miklu meira en hinir sem hafa miklu lægri tekjur. Það vill oft gleymast að sérstaklega millitekjufólk með börn, fólk sem er með svona efri millitekjur, lendir í hátekjuskatti og er bara alls ekkert sælt af kjörum sínum í dag, fær litlar sem engar bætur til uppeldis barnanna, fær litlar sem engar vaxtabætur til að koma sér upp húsnæði, en þarf að borga skatta að fullu, hátekjuskatta og aðra.

Núverandi kerfi skatta er í reynd niðurgreiðsla ríkisins á láglaunastörfum. Ef fyrirtæki þarf að velja milli tveggja landa fyrir starfsemi sína --- annað er með skattkerfi eins og okkar þar sem lágar tekjur eru skattlausar og hitt með flatan tekjuskatt, við skulum segja 20% sem er meðalskattprósenta á allar tekjur --- flytur það að sjálfsögðu starfsemina til fyrra landsins ef það er í láglaunastarfsemi, t.d. saumaskap, prjónaskap eða slíku, vegna þess að í landinu sem ekki skattleggur lágar tekjur fær fólkið launin að fullu útgreidd. Þetta fyrirtæki mundi aldrei flytja starfsemi sína til lands sem skattleggur allar tekjur, er með flatan tekjuskatt, og þar af leiðandi dregur íslenska tekjuskattskerfið að sér láglaunastörf eins og segull.

Fyrirtæki sem eru með hátekjustörf, hátæknifyrirtæki og önnur slík, fara helst til landa sem eru með flatara tekjuskattskerfi. Þannig má segja að skattkerfi okkar verðlauni láglaunastörf og hrindi frá sér hálaunastörfum í alþjóðlegri samkeppni landa um starfsemi, fyrirtæki og starfsfólk.

Þetta tel ég vera mjög varasamt fyrir utan hvað það er varasamt og eiginlega móðgandi við lágtekjufólk að ætlast ekki til þess og reikna ekki með því að það geti borið sinn hlut af rekstri velferðarkerfisins. Fyrir utan það tel ég ekki að lágar tekjur séu eitthvert persónueinkenni. Ég vil ekki að fólk sé með lágar tekjur. Það er ekki það sama og persónueinkenni, það er ekki hægt að segja að maðurinn sé bláeygður og með lágar tekjur. Það er nefnilega hægt að breyta tekjunum. Menn geta breytt tekjum sínum, annaðhvort með því að endurmennta sig, sýna meiri dugnað eða ráðdeildarsemi eða með því að vera snjallari í vinnu o.s.frv., þannig að ég lít ekki á lágar tekjur sem einhvers konar persónueinkenni, eins og mjög margir virðast því miður gera hér á hinu háa Alþingi. Þeir tala alltaf um lágtekjufólk eins og það sé bara eitthvert óumbreytanlegt náttúrulögmál, að visst fólk eigi að vera með lágar tekjur. (Gripið fram í.) Ég held nefnilega að tekjuskattskerfið, sem hlífir lágum launum og býr til fátæktargildrur þannig að fólk geti ekki hækkað sig í launum vegna þess að skatturinn hirðir allt af því búi til lágtekjufólk sem ég vil ekki sjá.

Þess vegna held ég að skattkerfi eins og við höfum í dag sé refsing til þeirra sem byrja á því að lenda á lágum launum. Þeir geta ekki bætt sig, þeir lenda í fátæktargildru og vinna þá jafnvel svart til að komast hjá því að launaaukinn lendi allur í skatti. Þetta er mjög hættuleg þróun.

Herra forseti. Í frv. er gert ráð fyrir hækkun tryggingagjalds um 0,77% og hefur það mikið verið rætt. Á það hefur verið bent að þetta verði skattur á fyrirtæki úti á landi en þau muni hins vegar ekki njóta skattalækkunar á hagnað. Það er afskaplega dapurlegt þegar maður heyrir að fulltrúar landsbyggðarinnar segi þetta. Þeir reikna með því að fyrirtæki úti á landi skili ekki hagnaði. Það á ekkert fyrirtæki að vera starfrækt yfirleitt, aldrei, ef það ekki skilar hagnaði, a.m.k. til lengri tíma. Það stefnir lóðbeint í gjaldþrot. Þeir menn sem tala svona um landsbyggðina eru í rauninni að segja að landsbyggðin sé gjaldþrota. Sem betur fer er ekki svo. (Gripið fram í: ... fyrirtækjum í landinu.) Fjöldinn allur af fyrirtækjum úti á landi, sérstaklega útgerðarfyrirtækjum, stendur ljómandi vel, hefur staðið í miklum fjárfestingum (Gripið fram í.) og hefur dregið til sín fjármagn til fjárfestingar og stundar miklar fjárfestingar, sérstaklega á Austfjörðum og á Norðurlandi, Akureyri og víðar.

Þannig er það ekki rétt fullyrðing að hagur fyrirtækja úti á landi sé allur þannig að þau borgi engan tekjuskatt.

Svo má líka benda á það að þessi hækkun tryggingagjalds er þess eðlis, 0,77%, að fyrirtæki sem er með 130 starfsmenn þarf að hagræða með því að setja einn starfsmann út til að geta greitt þessa hækkun á tryggingagjaldinu. Þetta er einmitt mjög góð aðgerð þegar staðan er sú að hver einasta vinnandi hönd fær vinnu, atvinnuleysi er nánast ekki neitt og það stefnir í hættu á þenslu á vinnumarkaði. Þá er einmitt mjög skynsamlegt að skattleggja vinnuna.

Í frv. er boðuð lækkun stimpilgjalds og eftir því sem mér heyrist hér á hinu háa Alþingi og víðar eru menn á einu máli um að stimpilgjaldið sé skattur liðins tíma og það beri að leggja hann af. Hann er öllum til óþurftar. Hann er skattur á fátækt og gjaldþrot. Hann er skattur á fólk sem lendir í fjárhagslegum vandræðum, oft og tíðum mjög ómaklegur skattur og ófélagslegur. Hann stöðvar viðskipti fyrirtækja og meira að segja Seðlabanki Íslands fer í kringum þennan skatt með svokölluðum endurhverfum verðbréfaviðskiptum sem enginn skilur fyrr en hann fer að velta fyrir sér hvað þau eru. Seðlabankinn notar sama skuldabréfið aftur og aftur til þess að þurfa ekki að borga stimpilgjald. Það held ég að hann reyni ... (Gripið fram í: Og endurhverfist það?) Já, þá endurhverfist það. Og hann reynir sem sagt að stunda skammtímalánaviðskipti þrátt fyrir stimpilgjaldið. Það sýnir áhrif stimpilgjaldsins.

Ég legg til að hið háa Alþingi taki á honum stóra sínum og leggi stimpilgjaldið algjörlega af. Það mætti gjarnan gera það á tveim, þrem árum ef mönnum finnst sárt að gera það strax en það mætti leggja alveg af.

[19:00]

Að lokum ætla ég rétt aðeins að minnast á skattfrelsi húsaleigubóta sem ég er ekkert sáttur við. Það skiptir ekki miklu máli en ég er á móti því að sumar tekjur séu skattfrjálsar og aðrar ekki. Á það hefur verið bent að vaxtabæturnar séu skattfrjálsar. Segja má að það sé ákveðinn ljóður. En fólk með háar tekjur, hvort sem þær koma af vinnu eða af bótum, á að borga skatta. Maður sem ekki fær húsaleigubætur en borgar húsaleigu samt, og er kannski með lægri tekjur en annar sem fær húsaleigubætur. Af hverju ætti hann að borga skatta af húsaleigu sinni að fullu á meðan hinn fær húsaleigubæturnar skattfrjálsar? Hvaða rök eru á bak við þetta? Þar fyrir utan var upphæð húsaleigubóta á sínum tíma ákveðin með hliðsjón af því að þær væru skattfrjálsar. Ég er á móti svona smugum í skattkerfinu sem gera það að verkum að sumir sem hafa meiri ráðstöfun vegna þess að tekjur þeirra koma af bótum og ýmsum öðrum þáttum borga ekki skatta eins og aðrir sem eru með nákvæmlega jafnmiklar tekjur. En það eru vinnutekjur sem þeir fá fyrir að vinna, t.d. að skúra eða eitthvað slíkt. Ef einhver skúrar skal það vera skattlagt. En ef hann fær húsaleigubætur er það ekki skattlagt.

Þá sem borga enga skatta hvort sem er skiptir þetta engu máli. Það bætir ekki stöðu þeirra. Þetta bætir því eingöngu stöðu þeirra sem eru með tiltölulega góðar tekjur og alveg sérstaklega einstaklinga sem fá húsaleigubætur óskertar ef þeir eru með tekjur undir 133 þús. kr. Og það merkilega er að sex manna fjölskylda má í heild sinni hafa sömu tekjur og þá fara bæturnar að skerðast.

Herra forseti. Ég er almennt séð afskaplega ánægður með þetta frv. Ég mun flytja brtt. sem hefur komið fram á þskj. 471 um að tekjuskattur fyrirtækja lækki úr 30 niður í 11%. Ég hef rökstutt það með því að við Íslendingar stöndum frammi fyrir því einmitt núna að við erum að selja þrjú ríkisfyrirtæki sem eru u.þ.b. 60--70 milljarðar að verðmæti og sú hækkun sem stafar af lækkun tekjuskattsins gefur ríkissjóði það miklar tekjur að hv. þingmenn geta í rauninni ekki horft fram hjá því. Tekjuauki ríkissjóðs vegna hækkunar á þessum þremur fyrirtækjum er jafnmikill og sá skattur sem ríkið sér af í rúmlega fjögur ár.

Ég skora á hv. efh.- og viðskn. að skoða þetta mál ofan í kjölinn. Hún gerði það ekki eftir 1. umr. Það er víst meiningin að hún komi saman á milli 2. og 3. umr. og ég mun leggja til að þessari brtt. verði frestað til 3. umr. Ég skora á hv. efh.- og viðskn. að taka sér tak og fá til þess kunnáttumenn á verðbréfamarkaði, kunnáttumenn fyrirtækja sem meta hlutafélög, og fá hjá þeim upplýsingar hvort þetta sé ekki rétt, hvort það geti ekki verið að ríkissjóður sé, með því að hækka verðmæti þessara fyrirtækja, að fá inn tekjur upp á 18,5 milljarða ef tekjuskatturinn yrði lækkaður niður í 11%. Ríkissjóður fær aukalega 18,5 milljarða ef tekjuskattur er lækkaður í 11%. Það tel ég pólitískt framkvæmanlegt í alþjóðlegri pólitík.

Þess vegna skora ég á hv. efh.- og viðskn. að taka sér tak, fá til þess sérfræðinga, láta leiða sig í gegnum það hvort þessi breyting ein sér valdi ekki þessari hækkun á ríkisfyrirtækjunum eða geri þau auðseljanlegri, ef þau eru illseljanleg, og hvort ekki sé skynsamlegt að taka þetta skref núna því það verður ekki tekið seinna.

Við lækkum ekki skattana niður í 11% þegar við erum búin að selja þessi fyrirtæki því þá fær eigandi þeirra hagnaðinn en ekki ríkissjóður.