Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 19:04:29 (2622)

2001-12-06 19:04:29# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[19:04]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. kom víða við í málflutningi sínum og að sjálfsögðu er ekki möguleiki á því að koma að öllu því sem ég vildi spyrja hv. þm. frekar um.

Hv. þm. lýsti því yfir að hann væri í meginatriðum ánægður með þetta og það væri gleðibragur á þessu frv. Mig langar að spyrja hv. þm. um tvö atriði því þegar svona bandormur eða skattapakki er settur fram eru í honum ákveðnar áherslur. Í þessu tilviki er alveg augljóst að áherslan er lögð á tvennt, þ.e. breytingin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir fyrirtæki sem skila hagnaði, því að að sjálfsögðu mun lækkun tekjuskatts ekki koma öðrum fyrirtækjum til góða, og höfuðborgarsvæðið. Þetta eru þyngdarpunktarnir í þessu. Á móti kemur að minni fyrirtæki sem eru kannski að verða til, þurfa að keyra áfram einhvern tíma án þess að vera farin að skila miklum tekjum, og landsbyggðin verða undir. Ég vildi spyrja hv. þm. um þetta, hvort hann sé ekki sammála þeirri greiningu að í áherslu ríkisstjórnarinnar er þetta tekið fram fyrir, þ.e. hagsmunir þessara tveggja hópa, annars vegar stærri fyrirtækja og hins vegar höfuðborgarsvæðisins.

Hitt atriðið sem ég vildi spyrja hv. þm. um, vegna þess að hv. þm. er yfir höfuð ánægður með meginstefnu frv., er að veruleikinn er sá að frá árinu 1996 hafa útgjöld ríkissjóðs á verðlagi hvors árs um sig tvöfaldast, farið úr u.þ.b. 125 milljörðum í 250. Er hv. þm. sáttur við þessa ótrúlegu útþenslu ríkissjóðs sem ég held að jaðri við að vera heimsmet?