Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 19:06:43 (2623)

2001-12-06 19:06:43# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[19:06]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fullyrti að ég væri í meginatriðum ánægður. Ég er í öllum atriðum ánægður. Það er eitt pínulítið atriði sem ég sagði að skipti ekki stóru máli, þ.e. skattfrelsi húsaleigubóta. En ég er afskaplega ánægður með allt annað. Það er ekkert nema gleði. Ég sé ekkert annað. Ef það er einhver drungi í atvinnulífinu, herra forseti, ef stjórnarandstaðan er búin að tala eitthvert þunglyndi í þjóðina ætti þetta frv. að verða til þess að létta mönnum brún og fylla þá bjartsýni því það er það sem þeir þurfa í dag. Enda er ekkert að. Það er ekkert að atvinnulífinu, ekki nokkur skapaður hlutur. Hver einasta hönd er vinnandi eins og hún mögulega getur.

Herra forseti. Hv. þm. fullyrti að tvennt í þessu skipti máli, þ.e. fyrirtæki með hagnað og höfuðborgarsvæðið. Það er ekki rétt. Í þessu frv. er eignarskattur líka og hann vegur ekki síður. Og hann virkar um allt land. En það er ekki rétt að fyrirtæki með hagnað séu bara í Reykjavík. Það er algjörlega fráleitt. Sem betur fer er fjöldi fyrirtækja úti á landi, sérstaklega sjávarútvegsfyrirtæki, með góðan hagnað. Það er því ekki rétt. Og ný fyrirtæki, herra forseti. Ég gat um það í fyrri ræðu minni að ný fyrirtæki munu hagnast á lægri sköttum vegna þess að þá verður miklu meiri vilji hjá þeim til fjárfestingar. Lægri skattar á hagnað fyrirtækja þýða, eins og ég rökstuddi, meiri vilja til fjárfestingar og nýsköpunar.

Varðandi það að ríkisútgjöldin séu tvöföld, þótt það sé ekki endilega málefni þessa frv. eða fundar, þá er það afskaplega hættuleg þróun og, eins og ég gat um, er tími kominn til að skattgreiðendur fái sinn skerf af þeirri miklu og stóru köku sem hefur verið bökuð og hefur stækkað umtalsvert á síðustu tíu árum.